17.11.1933
Neðri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (1007)

36. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal geta þess, að þegar landbn. ákvað að flytja þetta frv., var einn nm., hv. þm. Seyðf., ekki við. Ég þori því ekkert að fullyrða um fylgi hans við málið, en býst við því, að hann verði málinu ekki mótfallinn, þar sem frv. var afgr. frá síðasta þingi ágreiningslítið. Þær breyt., sem nú er farið fram á, eru eiginlega ekki annað en lagaskýringar á þeim 1., er nú þegar gilda. Meðferð þessa máls varð sú hér í fyrra, sem kunnugt er, að þegar málið var hér um bil komið í gegn, var felldur niður allur lagabálkurinn nema fyrsta og síðasta gr., og þetta var gert í svo miklu flaustri, að ýms ákvæði l. urðu ekki eins skýr og annars hefði getað orðið.

Í framkvæmdinni hafa menn rekizt á ýmislegt, sem orkar mjög tvímælis, og því er nú farið fram á, að ýms ákvæði l. séu gerð skýrari en þau nú eru. 1. gr. hefir í sér fólgna aðallega þá breyt., að þar sem nú er í l., að öll mjólk og allur rjómi, sem seldur er í kaupstöðum, skuli vera gerilsneydd, þá er nú sett inn það ákvæði, að þessi gerilsneyðing skuli fram fara í fullkomnum viðurkenndum mjólkurbúum. Sé þetta ákvæði ekki í l., er hægurinn hjá að setja upp málamyndagerilsneyðingarstöðvar og fara þannig í kringum l. Önnur breyt., sem felst í þessari gr., er sú, að undanþegin þessu banni skuli vera mjólk frá mjólkurbúum, ef að dómi atvmrh. er sérstök aðstaða til að framleiða hana undir fullkomnu heilbrigðiseftirliti og koma henni óskemmdri á markað að hreinsun lokinni. Það er orðað svo í núgildandi 1., að þessi undanþága skuli veitt búum, sem hafi sérstakar aðstæður til hreinsunar mjólkur. En það var ekki meiningin, heldur sú, að þau búin, sem beztar aðstæður hefðu til heilbrigðiseftirlits við framleiðslu mjólkurinnar, fengju undanþágur frá ákvæðum l. — Loks er hert á ákvæðunum um það, hverjir skuli meta það, hvort gerilsneyðingarstöðvar séu fullkomnar eða ekki. Öll þessi ákvæði eru bráðnauðsynleg, því að það riður á, að þessi gerilsneyðing sé ekki neitt „humbug“.

Þá er lagt til, að í 1. komi ný grein, sem kveði á um það, hvernig fara skuli með mál, sem rísi út af brotum á l. þessum og reglugerð. Þessi gr. var í frv. í fyrra, en var felld niður af vangá. Þetta er engin efnisbreyt., heldur aðeins formsatriði. — Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Mál þetta var rætt ýtarlega á síðasta þingi, og þetta frv. er aðeins skýring á því, sem þá var samþ.