16.11.1933
Efri deild: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (1026)

21. mál, rafveita Austur-Húnavatnssýslu

Jón Þorláksson:

Eins og hv. þdm. mun kunnugt, þá var fyrir nokkru síðan borin fram í þessari hv. d. till. í frv.formi frá fulltrúum Sjálfstæðisfl. um að ríkið veitti nokkurn stuðning til þess að koma upp raforkuveitum til almenningsþarfa í sveitum landsins. Þetta þótti svo stórt nýmæli, að það fékk þær undirtektir, sem slík nýmæli venjulega fá í fyrstu: Vantraust á getu landsmanna.

Það hefir ekki verið haft hátt um þetta mál síðan af forgöngumönnum þess í Sjálfstfl. En það hefir verið unnið að því í kyrrþey, og það mun fara um það eins og önnur heilbrigð og góð mál, að það sigrar að lokum og kemst í framkvæmd. Vil ég í því sambandi minna á, að nú hefir verið stigið úrslitasporið af hálfu löggjafarvaldsins hvað þetta mál snertir fyrir suðvesturhluta landsins. Á ég þar við lögin um virkjun Sogsins. Alþingi hefir gengið frá þeim fyrir sitt leyti, og eru þá aðeins framkvæmdirnar eftir. Þegar það orkuver er komið upp, sem á að nægja fyrir þennan hluta landsins, er næsta spurningin, hvar næsta orkuver eigi að vera, til þess að koma að sem mestum notum fyrir sveitir og sjávarþorp landsins.

Raunin hefir því orðið sú, að enda þótt lítið hafi um mál þetta verið talað, þá stefnir það þó hröðum fetum til framkvæmda.

Ég get nú ekki annað sagt en mér sé gleðiefni, þegar ég sé, að hafizt er handa með að koma upp orkuveri, sem hefir skilyrði til þess að verða fullnægjandi orkuver til almenningsþarfa í blómlegu og þéttbýlu héraði. Ég er því þakklátur þeim mönnum, sem brotizt hafa í það, að koma upp þessu litla orkuveri í Austur-Húnavatnssýslu, þó að ég hinsvegar telji, að þessi byrjun sé í smærri stíl en ég hefði talið æskilegt. En þar sem héraðsbúar hafa gert upphaflega ráð fyrir að gera þetta stuðningslaust af hálfu hins opinbera, þá er von, að þeir hafi miðað það við sína eigin getu. Annars mun orkuver þetta liggja vel við stækkun, svo það geti fullnægt því svæði, sem 5 þús. volta spenna nægir til.

Ég vil mæla hið bezta með þessu máli og vona að sjá í því vísi að þeirri hugsjón, að raforkan megi verða til þess að lýsa og hita upp byggðir landsins.