16.11.1933
Efri deild: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (1029)

21. mál, rafveita Austur-Húnavatnssýslu

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. landsk. fór inn á almennar umr. um raforkumálin og minntist í því sambandi á tillögur sjálfstæðismanna um raforkuveitur til sveita, sem lágu fyrir þinginu nú fyrir þremur árum. Það leit út fyrir eftir þessari ræðu hans, að hann og flokksmenn hans hefðu sýnt einhvern sérstakan áhuga fram yfir aðra í þessum málum. Þetta vil ég ekki lata standa ómótmælt í þingtíðindunum, því að mótstaðan gegn stórfelldustu rafvirkjuninni, sem um hefir verið rætt hér á landi og sýnt hefir verið fram á, að gæti vel borgað sig, hefir ekki síður verið úr flokki þessa hv. þm. en úr öðrum flokkum. Ég veit t. d. ekki betur en að flokksmenn hans í bæjarstjórn Rvíkur hafi þvælzt manna mest fyrir því, að virkjun Sogsins yrði komið í framkvæmd. M. a. lagðist fyrrv. borgarstjóri Rvíkur allmjög á móti því máli; var þó sýnt, að Sogið væri hefur fallið til virkjunar en flest önnur vatnsföll, og jafnframt, að skilyrði til þess að hagnýta rafmagnið fyrir almenning væru í bezta lagi. Það var aldrei nema rétt að Framsfl. barðist líka gegn þessu máli, en ekkert frekar en Sjálfstfl. Það spursmál, sem hv. þm. var að tala um, að leiða raforkuna út um sveitir landsins, er óleyst ennþá. Mér vitanlega hefir enginn enn sem komið er bent á, að það væri kleift í strjálbýlinu vegna kostnaðarins.

Sú tregða, sem olli því, að löggjöf um þetta stóra nauðsynjamál, sem virkjun Sogsins er, fékkst ekki fyrr en á síðasta þingi, á því rætur sínar að rekja til þess, að framsóknarmenn stóðu lengi fyrir því á þingi og sjálfstæðismenn þvældust fyrir því í bæjarstj. Rvíkur. Að sjálfsögðu nær þetta ekki til núv. borgarstjóra; hann átti þá ekki að fjalla um bæjarmál Reykjavíkur sérstaklega, en hann getur sýnt það nú, að sá orðrómur sé ekki réttur, sem lagzt hefir á um það, að flokksmenn hans hafi ekki jafnan verið heilir í þessu máli.