20.11.1933
Efri deild: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (1038)

21. mál, rafveita Austur-Húnavatnssýslu

Jón Baldvinsson:

Það er nauðsynlegt fyrir viðkomandi hérað að fá þessa ábyrgð ríkisins til þess að koma þessu fyrirtæki áleiðis.

Hv. 3. landsk. var núna fyrir helgina að finna að því, að það væri verið að hrúga inn allskonar málum á þetta þing, sem hefðu fjárútlát í för með sér. Honum fannst þetta ekki viðeigandi. En ég vildi benda honum á, að það getur verið, að einnig hann þurfi að leita á náðir Alþ. til liðsinnis þess í fjárveitingarskyni, a. m. k. getur þetta leitt af sér fjárveitingu. Hv. þm. má ekki vera allt of einsýnn með að vilja, að hann og hans kjördæmi sitji fyrir slíku. Hann á nú reyndar ekkert sérstakt kjördæmi, fremur en ég. (JónJ: Eigum við ekkert kjördæmi?). Hans hérað á ekki sérstaklega að ganga fyrir um slíka hluti. Hv. þm. má ekki reka hornin í allar aðrar beiðnir, sem til þessa þings koma, þótt aukaþing sé, þó að þær komi frá öðrum héruðum en hans eigin.