04.12.1933
Neðri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (1093)

52. mál, varðskip landsins

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Ég er ekkert undrandi yfir því, að þetta frv. er komið fram, því að það er í nákvæmu samræmi við þann anda eða þá stefnu, sem virðist hafa ríkt hjá þinginu á undanförnum árum, — og þetta þing virðist starfa í sama anda. Þessi stefna er að hafa laun há. Og þegar kemur fram misræmi á milli launagreiðslna við ýmsar stofnanir, vegna þess að störf við nýrri stofnanir eru hærra launuð en störf við hinar eldri, þá hefir stefnan verið og virðist enn vera sú, að jafna þetta misræmi með því að hækka laun þeirra starfsmanna, sem lægri hafa launin.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að nauðsynin, sem þarna lægi til grundvallar, væri m. a. sprottin af því, að þegar það kæmi fram, að einhver flokkur manna hefði lægri laun en aðrir hliðstæðir flokkar, þá yrði það til þess, að þeir, sem lægri launin hefðu, leituðu sér annarar atvinnu. Þessari röksemd hefir oft verið slegið fram af hálfu þeirra manna, sem vilja, að laun þau, sem ríkið greiðir starfsmönnum sínum, séu allra launa hæst. Í raun og veru er þetta í flestum tilfellum blekking ein.

Ég efast ekki um það, að skipverjar varðskipanna séu alls góðs maklegir. En ég tel engar líkur til þess, þótt laun þeirra séu ekki aukin frá því, sem nú er, því að þau munu vera um eða yfir hálft níunda þús. kr., ég tel, að engar líkur séu til þess, að þeir fyrir það færu frá störfum sínum og leituðu annars. Það liggur hér fyrir till. um að setja mann inn í starf á varðskipi, sem áður hefir verið við það, en nú er frá því. Þetta sýnir, að þessi maður hefir ekki tækifæri til að hverfa að öðru starfi.

Ég er þannig sinnaður, að ég vil drepa frv. ásamt öllum þess brtt., með þeim forsendum, að ekki er ástæða til, eins og nú standa sakir, að hækka þessi laun. Endurskoðun launamálanna liggur fyrir, og ég tel, að lækka eigi laun starfsmanna á strandferðaskipunum, til þess að þau séu í samræmi við laun starfsmanna á varðskipunum. Það er upplýst af hv. 2. hm. N.-M., að starfsmenn á þessum strandferðaskipum hafa hærri laun heldur en hliðstæðir starfsmenn á skipum Eimskipafél. Ísl.

Viðvíkjandi því, sem hefir verið minnzt á það, að starfsmenn á strandferðaskipunum hafi lakari aðstöðu en starfsmenn á varðskipunum, þá get ég ekki gengið inn á, að svo sé. Hinir fyrrtöldu hafa þó fasta áætlun að fara eftir, en hinir síðartöldu ekki. En það, hversu mikla erfiðleika starfsmenn varðskipanna hafa við að etja, fer eftir því, hve vel þeir rækja starf sitt og hve marga örðugleika af því leiðir.

Hv. síðasti ræðumaður minntist á, að hann vildi alls ekki, að brtt. hv. þm. V.-Húnv. næði fram að ganga. Þessi brtt. er um það, að verði varðskipunum lagt upp um lengri eða skemmri tíma, skuli allt kaupgjald á þeim lækka um 25% þann tíma, sem skipin liggja uppi. Taldi hv. síðasti ræðumaður, að hætta mundi geta verið á því, að stj. léti skipin vegna þessa ákvæðis verða minna í rekstri. En þá að ég hafi lítið traust á stj., þá hefi ég ekki svo lítið traust á henni, að ég álíti, að þetta komi til greina. Ég tel sjálfsagt, að þörfin verði látin ráða um rekstur varðskipanna, en ekki þessi launalækkun. Ef samþ. verða nokkrar brtt. um þetta mál, þá tel ég sjálfsagt að samþ. þessa till. En eftir því sem atkv. fellu hér í öðru máli, snertandi launagreiðslur úr ríkissjóði, þá býst ég við, að þetta verði einnig samþ.