02.11.1933
Sameinað þing: 1. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 2. kjördeildar (Magnús Jónsson):

Það hefir ekki margt nýtt komið fram í þessum síðustu ræðum, og allt, sem fram hefir komið, staðfestir það, sem ég sagði áðan, að það, sem fyrir liggur, er með þeim hætti, að formgallarnir, sem um er að ræða, geta ekki haft áhrif á kosningaúrslitin. Það er að vísu rétt, að hér hafa orðið formgallar á, en það er ekki annað en það, sem oft hefir verið áður. Ég leyfi mér að fullyrða, að ef kosningin hefði ekki staðið svona glöggt, þá hefði aldrei verið minnzt á þessa galla. Þeir eru ekki meiri en svo, að þá hefði aldrei verið kært og kosningin tekin gild orðalaust. Það komu fram gallar á kosningunni hér í Rvík árið 1921. Þá kaus fjöldi manna, sem alls ekki voru á kjörskrá, því að þeir áttu að koma á kjörskrá innan skamms tíma, og þótti því rétt, að þeir fengju að neyta réttar síns. En ég veit nú ekki, hvað er hægt að telja meiri ágalla á einni kosningu en að þeir kjósi, sem ekki eru á kjörskrá. Þetta var látið átölulaust, því að sýnt þótti, að þessi atkvæði gátu engin áhrif haft á úrslit kosninganna. Svo er og kunnugt dæmi þess, að þingmaður var kosinn án þess að hann byði sig fram.

Hv. þm. (JBald) talaði um, að þessu máli yrði vísað til kjörbréfanefndar, svo hún gæti veitt ávítur þeim, sem stóð fyrir kosningu. Þess gerist engin þörf. Það hefir hingað til verið látið nægja, ef um slíkar ávítur er að ræða, að frsm. kjördeildar hefir látið það koma fram í ræðu sinni, og það, sem sagt er hér á þingfundum, er bókfært, svo það er engin þörf á því að tefja þetta mál til þess að nefndin geti orðað þessar ávítur, sem hv. þm. nefndi. Annar tilgangur með því er ekki hugsanlegur.

Það eina, sem hv. þm. kom með til þess að sýna fram á, að það hefði haft áhrif á kosninguna, að þessum eina manni var vísað frá, eru eintómar hugsmíðar. Það hafa kannske einhverjir snúið frá vegna þess, en það var ekki nema í 1 eða 1½ dag, sem menn stóðu í þessari trú, og það er sem betur fer ekki svo mikill fjöldi af blindum og fötluðum mönnum, að búast megi við, að mikill hópur hefði komið þann daginn af þeim, sem ekki gátu kosið sjálfir. Það er ekkert hægt að segja um það, hvor flokkurinn hefir tapað á þessu eða grætt.

Ég held, að við verðum að halda okkur við það, sem fyrir liggur: Það eru 6 atkv., sem hefir verið aðstoðað við, og mismunurinn á atkvæðamagninu var 22 atkvæði, svo þó að þessi 6 atkv. væru öll gerð ógild og þó að þau hefðu öll fallið á frambjóðandann, sem fékk meiri hl., þá getur það engu breytt.

Vil ég því vænta þess, að hæstv. Alþingi breyti ekki venju sinni í þessu efni, heldur taki kosninguna gilda nú þegar, af þeirri ástæðu, að þessir formgallar geta ekki haft áhrif á úrslitin.