28.11.1933
Efri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (1117)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Flm. (Jón Jónsson):

Ég hefi leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 156, um sölu innanlands á landbúnaðarafurðum. Eins og menn vita, veldur það miklum áhyggjum hjá öllum þeim, sem stunda landbúnað, og öllum, sem láta almenn mál til sín taka, hve erfitt er nú um markað fyrir landbúnaðarafurðir. Nú síðustu árin a. m. k. hefir landbúnaðurinn orðið að sæta þeim markaði fyrir sínar vörur, sem er svo óaðgengilegur og hörmulegur, að ekki hefir verið hægt að reka hann, nema með tapi. Eins og menn vita, hefir það mjög færzt í vöxt hin síðustu ár að selja þessar vörur innanlands, og markaður sá hefir aukizt hröðum skrefum, sem stafar af stækkun bæjanna og kauptúnanna. Á þessari innanlandssölu hefir verið töluvert ólag. Mikið hefir verið um það rætt, en lítið hefir verið gert til þess að ráða bætur á því. Því hefir jafnvel verið haldið fram, að tekizt hafi svo óhöndulega til, að stundum hafi verðið á þessum vörum hér innanlands verið lægra en fyrir samskonar vörur hefði fengizt með því að selja þær til útlanda. ég býst nú við, að það sé blekking. En samt sem áður er það ljóst, að ekki er svo gott lag á þessari sölu sem ætti að vera. Mér finnst, að ekki sé hægt að gera minni kröfur til þessarar sölu en það, að verðið fyrir vöruna a. m. k. svari ríflega til framleiðslukostnaðar. Minni kröfur er ekki sanngjarnt að gera, þó að hinsvegar megi segja, að það, sem verðið fer langt fram úr því, sé ekki heppilegt. Það mun bezt vera og réttast fyrir báða aðila, að verðið sé sem sanngjarnast. Það, sem hér mun aðallega vera því til fyrirstöðu, að þessi sala fari vel úr hendi, er, að afurðasalan er á allt of mörgum höndum og tilkostnaður í sambandi við hana þar af leiðandi allt of mikill. T. d. er nú svo komið, að mjólkurbúðir eru um allt í þessum bæ, og kjötverzlunin er á góðum vegi með að komast í svipað horf og mjólkursalan. Hér hefir það komið í ljós um kjötsöluna, að ýmsir spekúlantar hafa keypt fé af bændum síðastl. sumar, sérstaklega á meðan verðið var hátt. Og þá var um að gera að afsetja sem allra fyrst og bjóða sömu vöruna með lægra verði en aðrir hafa selt hana fyrir hér á staðnum á sama tíma. Með þessu móti hafa þessir spekúlantar orðið til þess að spilla heildarmarkaðinum.

T. d. skal ég nefna, að 21. júlí í sumar — Það var víst um það leyti sem Sláturfél. Suðurlands byrjaði að taka fé til slátrunar — þá setti það heildsöluverðið 1,90 kr. á kg. En litlu seinna kemur heildsali, sem býður kjöt fyrir 1,60 kr. kg. Það fóru þess vegna svo leikar, að Sláturfél. Suðurlands varð að lækka verðið, og 25. ágúst var kjötverðið hjá því komið niður í 1,10 kr. kg. Og kunnugir fullyrða, að vel hefði þá mátt fá kjöt fyrir 80 aura kg.

Það má nú segja að vísu, að það sé eðlilegt, að verðið lækki þegar liður á sumarið og lömbin stækka. En svona mikill munur nær ekki nokkurri átt.

Það stærði sig einn smásali af því hér í sumar, að hann gæti alltaf fengið kjöt fyrir 10 aurum lægra verð kg. hjá kaupmönnum heldur en hér væri kostur á hjá Sláturfélaginu. Og þó sagði hann, að hann gæti fengið kjötið enn 10 aurum ódýrara hjá sveitamönnum. Og þaðan keypti hann það með því að borga það í vörum, og er óhæfilegt, að slíkt geti átt sér stað, að samkeppnin dragi verzlunina þannig niður.

Það má kannske segja, að l. frá síðasta þingi um kjötmat og heilbrigðisraðstafanir um mjólkursölu hefðu átt að ráða bót á þessu. En þau eru svo ófullkomin þessi síðarnefndu 1., að ég býst við, að erfitt muni verða að beita þeim. Hinsvegar er mikill vandi að segja um, hvernig með þetta skuli fara. Það er mikill vandi að semja lagabálk um þetta, sem sé sanngjarn fyrir framleiðendur og líka fyrir neytendur. Þess vegna hefi ég sagt það til, að þetta mál verði undirbúið fyrir næsta þing þannig, að stj. fái það algerlega í sínar hendur og raði starfsaðferðum við að gera tilraun til að koma þessari afurðasölu í gott horf. Til þess þarf auðvitað nákvæma og rækilega rannsókn á málinu, og virðist mér heppilegt, að stj. fengi til leiðheiningar í sínu starfi umsögn þeirra, sem mest hafa með þessi mál að gera, svo sem B. Í., Sís, Sláturfél. Suðurlands., Mjólkurbandalags Suðurlands og kaupfél. Borgf. En þetta kaupfélag láðist mér að setja í upptalninguna í þáltill. minni, en hefi hætt því við með skrifl. brtt., sem ég hefi horið fram.

Treysti ég engum betur til að rannsaka þetta efni heldur en landbúnaðarráðuneytinu, en ég fer ekki út í að ræða, hvaða leiðir er hér heppilegast að fara. En mér finnst liggja beint við, að sett sé nefnd, sem hafi vald til þess að ákveða verðlag á þessum vörum fyrir framtíðina. Hvernig sú n. yrði skipuð, fer ég ekki út í að meða. Það er verkefni stj. að ákveða það. Þrátt fyrir slíka nefndarskipun til að ákveða verðlagið, vil ég alls ekki, að stofnað verði til neinnar einokunar. Alls ekki. Heldur vil ég láta alla aðila, sem ég hefi talað um í till. mínum, hafa svona eftirlit um verðlagið.

Mönnum mun kannske þykja þetta harðir kostir fyrir neytendur. En ég er ekki viss um, að það þyrfti að vera, því að ég tel, að með l. megi tryggja þeirra rétt. Ég veit ekki betur en að síðustu árin hafi sumstaðar í öðrum löndum verið lögð samskonar áherzla og þetta á skipulag um afurðasölu landbúnaðarins. T. d. er það svo í Noregi um sölu svínakjöts, að ákvæði eru til um það, að þeir bændur, sem selja það utan sinna vissu samlaga, verði að borga vissan skatt af þeirri sölu sinni í einskonar verðjöfnunarsjóð. Þess vegna finnst mér ekkert óeðlilegt, að við tökum okkur þetta til fyrirmyndar.

Sjálfsagt má gera ráð fyrir því, að þessar athuganir um sölu landbúnaðarafurða innanlands mundu óhjákvæmilega leiða til þess, að farið yrði að athuga nákvæmlega sölumöguleika þessara vara erlendis.

Fyrir þessari afurðasölu innanlands virðist eðlilegast, að þau héruð sitji, sem hægasta eiga aðstöðu um að koma vörum sínum til kaupstaðanna og þorpanna. En spurningin er þá, hvort ekki sé rétt að bæta þeim sveitum upp verð á sínum vörum, sem afskiptar yrðu þessum markaði, með einhverskonar verðjöfnun. Í fjárl. þeim, sem gilda fyrir næsta ár, er gert ráð fyrir, að ríkið styrki þá menn, sem flytja út kjöt, ef verðið fyrir það verður mjög óviðunanlega lágt, og landbn. hefir skorað á stj. að nota þessa heimild. En ég efast um, að þetta þyki heppileg leið til framtíðar. En vitanlega þarf ríkisvaldið að vinna að því, að framleiðendur geti framleitt þannig og selt vörur sínar, að verðið fyrir afurðirnar svari a. m. k. til framleiðslukostnaðar. Spurningin er þá þessi: Hvernig á að fara að því, ef erlendi markaðurinn fyrir afurðirnar er ekki nógu góður til þess að þetta megi verða? Ég álit, að það gæti komið til mála, að þeir, sem selja innanlands, leggi eitthvað í verðjöfnunarsjóð.

Þriðja leiðin er til í þessu efni, sem ef til vill er sanngjörn og því til athugunar, en ég fer ekki út í að gera till. um. En það er gengisbreyting peninganna. Það er náttúrlega spursmál nú, hvort framleiðendur verða ekki of hart úti með því, að krónunni sé haldið í því gengi, sem hún er í nú. Vitanlega, ef krónan er felld, þá kemur það fyrst og fremst þeim til góða, sem selja vörur út úr landinu. En þetta er svo stórt mál, gengisbreyt., að ég ætla ekki að fara út í að ræða það nánar hér. Allt þetta mál þarf að athuga frá rótum vel og rólega. Treysti ég engum betur til þess en landbúnaðarráðuneytinu.

Komið hefir fram skrifl. brtt. frá hv. 4. landsk. um að umturna allri minni till. Ég sé ekki neina sérstaka nauðsyn á því, eða að fyrir hv. þm. vaki annað en það, að draga þetta mál undan stj. og setja það í einhverja n. Að málinu sé nokkuð betur borgið fyrir það, hygg ég, að orki tvímælis. Held ég, að það muni verða handhægast og bezt að fela stj. að rannsaka þetta mál. Sé ég því enga ástæðu til að samþ. brtt. hv. 4. landsk. Vil ég að síðustu mælast til þess við hv. d., að hún leyfi till. mínum að ganga áfram, í þeirri von, að eitthvað gott megi af því leiða fyrir landbúnaðinn og landið í heild.