29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (1130)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Magnús Jónsson:

Ég er sammála hv. flm. um það, sem hann sagði í upphafi máls síns, og ég fyrir mitt leyti er alls ekkert á móti því, að rannsókn fari fram um þessa hluti; tel það miklu frekar æskilegt, því að mér þætti vænt um, ef hægt væri að fá upp nokkurn veginn ábyggilega skýrslu um það, hversu mikill sá skattur er, sem kauptún og kaupstaðir greiða árlega til sveitanna. (JónJ: Hafði þm. ekki þessa skýrslu við hendina?). Nei, alls ekki. Það, sem ég sagði, var bara ágizkun. Það væri líka fróðlegt að sjá, hversu mikið af landbúnaðarafurðum er selt til Rvíkur og fyrir hvaða verð; mætti þá bera saman, hvað bærinn gæti fengið þessar vörur fyrir á frjálsum markaði, og sjá þá um leið, hvað bæjarbúar verða að greiða meira fyrir þessar nauðsynjar sínar heldur en ef verzlunin með þær væri að öllu leyti frjáls.

Hv. 4. landsk. minntist á það sem hvert annað hneyksli, að fyrir mjólk, sem seld væri bæjarbúum hér fyrir 42 aur. lítrinn, fengju bændur austanfjalls ekki nema 14–16 aura fyrir hvern lítra. Þetta er að sjálfsögðu rannsóknaratriði. Þó er enginn kominn til þess að segja, að kostnaðurinn við dreifingu og flutning mjólkurinnar að austan hingað til Rvíkur geti jafnvel ekki verið meiri en þessum verðmun nemi. Annars er það vitanlegt öllum, sem eitthvert skyn bera á þessi mal, að það er algengt í veröldinni, að fyrsti framleiðslukostnaður varanna er ekki nema örlítið brot af því verði, sem neytendurnir verða að kaupa þær fyrir. Það er t. d. alkunnugt, að kolin kosta lítið við námuna og olían við lindina. Hér er því rannsóknarefni, að finna það út, hve mikill partur fyrsti framleiðslukostnaðurinn er af verði varanna.

Þá sagði hv. 3. landsk., að það væri ekki svo erfitt að finna hið rétta framleiðsluverð varanna, því að hver athugull bóndi gæti farið nærri um framleiðslukostnað sinnar framleiðslu. En þá ber þess að gæta, að framleiðsluverðið getur verið mjög mismunandi. Fari ég t. d. að búa til eldspýtur með handafli mínu, myndi hver stokkur kannske kosta upp undir 1 kr., í stað þess, sem eldspýtustokkur framleiddur í verksmiðju myndi ekki kosta nema brot úr eyri. Það er því svo, að kostnaðarverð varanna hlýtur alltaf að verða töluvert mismunandi, eftir því hver aðstaðan er við framleiðsluna.

Hv. flm. vildi halda því fram, að hér þyrfti ekki að verða nein einhliða rannsókn. þó að bent væri á annan aðila stj. til ráðuneytis. Þetta kann að vera. En ég vil benda hv. þm. á, að það myndi þykja einhliða rannsókn, ef t. d. fara ætti að endurskoða launakjör embættis- og starfsmanna landsins, að spyrja þá starfsmennina sjálfa um, hvaða laun þeir þyrftu að hafa. Þeir myndu aðeins gefa það upp, sem þeir teldu, að þeir þyrftu að hafa í laun til þess að geta haft góða afkomu, án tillits til annars. Nei, það verður því tæplega annað talið en að sú rannsókn sé einhliða, þar sem annar aðilinn er aðeins spurður.

Þá vildi hv. þm. andmæla því, að hér gæti orðið um einokun að ræða. Hann sagðist aðeins vilja koma í veg fyrir, að einstakir menn gætu „prangað“ með þessar vörur. Þetta að „pranga“ er vitanlega alveg sama og verzla. Sé vöruverðið lágt, þá vill neytandinn alveg eins verzla við þann, sem talinn er pranga, eins og hinn. Aftur á móti vill framleiðandinn ekki verzla þar, sem vöruverðið er lagt. Hann vill heldur verzla með framleiðslu sína við þann, sem kaupir háu verði og selur háu verði, hvort sem hann er talinn „pranga“ eða ekki.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að ekki gæti verið hætta á því, að vöruverðinu yrði haldið of háu, ef 4–5 félög framleiðenda sæju um söluna. Þetta er aðeins fullyrðing út í loftið, því að við þekkjum, hvernig félög framleiðenda haga sér þar, sem þau eiga ein að ráða. Það þarf ekki annað en nefna olíuhringana. þau koma sér bara saman um verð á vörunni, alveg án tillits til neytendanna. Hér myndi verða alveg það sama með þessi 4 eða 5 félög. Þau myndu aðeins miða vöruverðið við það; sem hægt yrði að láta bæjarbúana kaupa vöruna hæst fyrir. Hvað gert er erlendis í þessum málum, legg ég ekkert upp úr. Það eru svo viða gerðar vitleysur í veröldinni, að ekki er hægt að taka allt sem gullvægt fordæmi, sem gert er. Enda stynur heimurinn undir allskonar ráðstöfunum, sem að meira og minna leyti eru vafasamar. Megum við því alls ekki taka við öllu ómeltu og athugunarlaust, sem hingað berst frá umheiminum.