29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (1136)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Jónas Jónsson:

Það eru nú komnar fram allmismunandi skoðanir um till. Hv. I. landsk. vilji samþ. till. að öðru leyti en því, að hann vill fella úr henni fyrirspurnina til samvinnufélaganna. En ég verð nú að segja, að það minnkar heldur trú mína á gildi till., er ég heyri, að hv. l. landsk., sem er höfuðsmaður í sínum flokki og aðallífgjafi þeirrar stjórnar, sem væntanlega á að sjá um framkvæmd till., vill fella úr till. þann málsliðinn, sem einhverju máli skiptir, vill ekki láta spyrja samvinnufélögin ráða um framkvæmd þessa máls.

Ég vil benda hv. 3. landsk. og hæstv. atvmrh. á eitt mál, sem líkt var stofnað til og nú er með þetta mál; það var kæliskipsmálið. Alþingi ákvað, að vissir aðilar legðu til sinn manninn hver í 5 manna nefnd til þess að athuga og undirbúa það mál. Sú n. átti nú ekki að starfa kauplaust, eins og sú n. á að gera, sem lagt er til, að sett verði með brtt. minni á þskj. 205. Þessi n. klofnaði, meiri hl. n. sagði, að ekkert væri hægt að gera, en minni hl. var á því, að hægt væri að leysa málið. Og hvernig fór? Minni hl. leysti málið. Allir nm. sáu jafnvel, að það var hægt að leysa málið, en meiri hl. þeirra vildi ekkert gera. En hverjir voru það, sem vildu leysa þetta mikla nauðsynjamál landbúnaðarins? Það voru einmitt fulltrúar samvinnufélaganna, þeirra félaga, sem hv. l. landsk. vill ekki láta spyrja ráða í þessu máli, og hæstv. atvmrh. og hv. 3. landsk. sýnast ætla að sætta sig vel við þetta. En það þýðir ekkert kák hér; það þýðir ekki að lofa með hálum orðum eins og hæstv. ráðh. Hann segir, að það viti enginn eiginlega, hvað eigi að gera. Það á að leita ráða og upplýsinga til einhverra. Þó samvinnufélögin verði spurð, þá geti hinsvegar vel verið, að einhverjir aðrir verði fremur spurðir, kannske einhverjir, sem eru sammála hv. 1. landsk. um, að það eigi ekki að leita til samvinnufélaganna og að kæfa málið. Ég get sagt það, að ég kann miklu betur við framkomu hv. 1. landsk. í þessu máli heldur en þeirra hæstv. ráðh. og hv. 3. landsk. Hv. 1. landsk. segir hreinskilnislega sína meiningu án alls yfirdrepskapar, en hv. meðmælendur till. teygja og toga málið, svo að það er ómögulegt að dyljast þess, að hjá þeim er engin alvara á bak við orðin. Annar þeirra telur upp vissa aðila, sem séu þeir einu, er eigi að leita til í málinu, en hinn segir, að það geti vel verið einhverjir aðrir, sem aðallega verði spurðir ráða.

Sannleikurinn er sá, að ef eitthvað á að gera í málinu, þá þarf að taka þetta mál til meðferðar af tveim aðilum, annarsvegar framleiðendum og neytendum hinsvegar. Það er ómögulegt að leysa þetta mál nema með samkomulagi bænda og verkamanna, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir flokkar báðir saman, en ekki annar út af fyrir sig, hafa aðstöðu til þess að gera eitthvað í málinu. Í minni till. er hent á leið til að leita eftir samkomulagi milli þessara tveggja flokka. Það verða að vera viðkomandi aðilar, framleiðendurnir og neytendurnir, sem koma sér saman um að útrýma milliliðunum. Það má ætla, að þeir hafi mestan ahuga og vilja til þess að koma því í framkvæmd.

Hv. 3. landsk. hefir í öðru orðinu játað, að það sé ekki verulega meint í till., að stj. í alvöru leiti raða til nokkurra vissra aðilja, heldur kannske láti hún framkvæma þessa rannsókn að mestu leyti í atvinnumálaráðuneytinu. En hverjir treysta því, að þetta verði bezt gert þar? Ég þekki ekki til þess, að þeir menn, sem þar starfa, hafi nokkurntíma synt áhuga á máli eins og þessu. Þá vantar alla reynslu, alla praktíska þekkingu á búskap til þess að hægt sé að ætlast til, að þeir vinni fyrir málið betur en þeir, sem öll þessi skilyrði hafa til að bera. Nei, það eru vinnustéttirnar sjálfar eða fulltrúar þeirra, sem verða fyrst og fremst að koma til sögunnar. Það þýðir ekkert, eins og hv. 3. þm. Reykv. tók réttilega fram, að ætla að leysa þetta mál með nauðung. Það væri aðeins til að hleypa málinu í strand.

Hv. 3. þm. Reykv. var að tala um, að það gæti vel verið eðlilegt, að þó mjólkin væri seld neytendunum hér í Rvík á 42 aura, þá gætu baendurnir ekki fengið fyrir hana nema 14–16 aura. Honum fannst það gæti verið eðlilegt, að það kostaði 24–26 aura að hreinsa mjólkina, flytja hana hingað til bæjarins austan yfir heiði og selja hana hér. Ég skal ekki deila um þetta við hv. þm. Ég ætla aðeins að benda á það, að til er einn staður hér á landi, þar sem mjólkurflutningur og sala er vel af hendi leyst. Það er í Eyjafirði, hjá Kaupfélagi Eyfirðinga. Þar er mjólkin seld til neytendanna á Akureyri á 25 aura, hreinsuð, gerilsneydd og flutt út um bæinn. Meiri hl. sveitanna þar er eins langt frá Akureyri eins og Ölfus er frá Reykjavík, og þó fá eyfirzkir bændur hærra verð nettó af sínum 25 aura útsöluverði heldur en bændur hér af 42 aura útsöluverði. Þarna er ekki um að ræða minni framleiðslukostnað við búskapinn en hér. Nei, þetta er af því, að þarna er vit og hagsýni í skipulaginu, og með allri virðingu fyrir atvmrh. get ég ekki látið vera að geta þess, að bændurnir í Eyjafirði hafa náð þessu góða skipulagi án þess að ráðuneytið hafi nokkuð fyrir þá gert. Ég býst við, að hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki viljandi gengið framhjá þessari reynslu Eyfirðinga, þegar hann var að tala um það, að við vissum ekki nema það væri eðlilegt hlutfall milli söluverðs og þess verðs, sem bændur fá fyrir mjólkina hér, heldur hafi hann skort kunnugleika á þessum staðreyndum. En hv. 3. landsk. og hæstv. atvmrh. vissu ofurvel um þessa reynslu, en þeir þögðu yfir henni. Þeir vilja ekki fá leiðbeiningar þeirra manna, sem áreiðanlega hafa komizt lengst á Norðurlöndum með heppilegt skipulag á einu mjólkursamlagi. Til þessara manna hefir hæstv. ráðh. ekki dottið í hug að leita.

Auðvitað má sala þessara afurða ekki vera eftirlitslaus, heldur verður að koma þar til greina skynsamlegt matsverð. En til þess að finna það, tel ég ekki þörf á neinni sérstakri rannsókn. — Og ég vil skjóta því til þeirra íhaldsmanna, sem hafa latið vantraust sitt í ljós á því, að bændur almennt mundu treysta félögum þeim, sem hér hafa verið tilnefnd, til skipulagningar sölunnar, að fisksöluhringurinn, þar sem Kveldúlfur, Alliance og Proppé ráða öllu, vilja út af lífinu selja allan fisk landsmanna, og það eftirlitslaust.

Þá var nokkuð rætt um kostnaðarverðið. Hv. 3. landsk. lagði reyndar ekki út í að sanna tilveru þessa kostnaðarverðs, og ég held því fram, að enn hafi ekki verið komið fram með nein söguleg rök fyrir því. Ég tel það ekki, þó að einhversstaðar hafi birzt gáfuleg grein eftir Eirík Briem um þetta efni. Allir vita, að aldrei hefir verið eftir henni farið. Það endar alltaf með því, að framleiðsluna verður að selja fyrir það, sem hægt er að fá fyrir hana, hvað sem kann að vera reiknað út í gömlum árgöngum Búnaðarritsins. Og þar sem hvergi er í raun og veru reiknað með þessu kostnaðarverði, þá þýðir ekki að setja það í till.

Eftir undirtektum leiðtoga íhaldsins að dæma þarf ekki að búast við neinum stuðningi frá þeim flokki í þessu máli. Þá er ekki annað fyrir en að þingið feli félögum bænda og verkamanna að finna leiðir í þessu máli og undirbúa frv. um það, sem svo verði lagt fyrir næsta þing.