29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (1139)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Jón Þorláksson:

Hv. 4. landsk. er nú farinn að taka upp sitt fyrra hátterni, sem menn hafa saknað það sem af er þessu aukaþingi. Hann gerði sér það til gamans að rangfæra orð mín viðvíkjandi 2. málsl. till. þeirrar, er fyrir liggur. Hann spann hér fram einhvern heilaspuna frá sjálfum sér um það, að ég væri á móti málinu, þó að ég hafi lýst yfir því, að ég væri samþykkur báðum efnisliðum tillögunnar, 1. og 3., og hafi ekki sagt annað en það, sem hv. þm. virðist vera mér samdóma um, sem sé það, að upptalning aðilanna í 2. málslið væri svo einhliða, að hún gæfi ekki rétta mynd af því, sem stj. þyrfti að gera í málinu. Hv. 4. landsk. hefir fundið til þessa, eins og ég, og vill lagfæra það með því að bæta við fleiri aðilum. En viðbót hans er, held ég, ekki fullnægjandi. Stakk ég því upp á að vera ekki að taka neitt fram í till. um þetta, en láta stj. sjálfráða um, hvert hún leitar upplýsinga. Ber ég slíkt traust til hverrar stj. sem er, sérstaklega ef hv. þm. á ekki sæti í henni; að hún sé einfær um að dæma um þetta.

Hv. 4. landsk. hefir viðurkennt, að upptalningin er ekki fullnægjandi, en hún er auk þess einhliða.