29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (1142)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Flm. (Jón Jónsson):

Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni góðar undirtektir og gæti raunar þakkað fleirum, því að málið hefir mætt hlýlegum undirtektum hér í d. Hv. 3. þm. Reykv. hefir helzt gagnrýnt till., og auk þess hefir hún mætt andúð frá hv. 4. landsk., sem ég átti ekki von á. Ég mótmæli því, að ég hafi sýnt nokkurn yfirdrepskap í þessu máli. Hefi ég hagað orðalagi í samráði við forstjóra helztu félaga, þeirra er hér eru nefnd.

Um það, hvort sannfæring fylgi máli frá minni hálfu, verða aðrir að dæma. Mér er mikið áhugamál, að ráðið verði fram úr þessum vandkvæðum landbúnaðarins.

Hv. 4. landsk. vísar til ummæla hv. þm. Str. Ég vildi óska, að hann stæði oftar nær hv. þm. Str. Væri þá landbúnaði okkar betur borgið. Hv. þm. Str. hefir mikinn áhuga á landbúnaðinum og væntir sér stuðnings af vinnandi mönnum í bæjum og sveitum honum í hag og er yfirleitt reiðubúinn til að gera allt það í hverju máli, sem honum þykir mestu varða fyrir okkar þjóð.