24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (1149)

11. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Ingvar Pálmason:

Ég get að ýmsu leyti verið n. þakklátur fyrir undirtektir hennar við málið. Hún virðist hafa tekið frv. með skilningi, þótt hún hinsvegar hafi ekki getað fallizt á frv. eins og það er borið fram. Hugsa ég þó, að hér valdi mestu um ókunnugleiki n. á staðháttum þarna eystra, enda mátti ráða í það af þeim ástæðum, sem hv. frsm. færði fram fyrir afstöðu n. til frv.

Mér virðast aðalmótbárurnar einkum vera tvær. Önnur er sú, að ef valin er leiðin frá Brekku að Dalatanga, yrðu tvær 2. og 3. flokks stöðvar á línunni. Þetta er rétt, en svona hagar til á landssímalínunni allri. Þannig er 3. flokks stöð í Mjóafirði á línunni milli Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar. Þetta er því engin ástæða. Hin ástæðan er sú, að meiri hættur séu af náttúruvöldum á leiðinni frá Brekku að Dalatanga en frá Seyðisfirði. En það er líka snjóflóðahætta á þeirri leið, en um skriðuhættu er á hvorugri leiðinni að ræða. Þá er og til þriðja mótbáran, að leiðin frá Brekku sé lengri en hin. Þetta er rétt, en á móti því vegur, að ef farið er Dalaskarð, verður að leggja jarðsíma einn km. á lengd, og auk þess er dýrara að flytja efni upp bratt fjall en meðfram sjó. Tel ég því alveg ósannað, að lengri línan verði dýrari. Hinsvegar skal ég viðurkenna, að nú horfir málið þannig við, að rétt er að líta svo á sem það sé ekki fullrannsakað, og vildi ég því gera það til samkomulags að leggja til, að báðum leiðum yrði haldið opnum, og mun ég bera fram skrifl. brtt. þess efnis. Yrði þá heimild í lögunum til að leggja línuna frá Brekku, ef rannsókn sýndi, að slíkt væri hagkvæmara. Nefndarmenn hafa látið í ljós við mig, að þeir geti fallizt á þetta.

Landssímastjóri segir, að línan verði aldrei lögð frá Skálanesi, heldur frá Bæjarstæði. Ég vil benda á, að þetta er mjög lítið rannsakað og ég efast um, að símaverkfræðingurinn á Seyðisfirði hafi athugað þetta gaumgæfilega. Get ég því sætt mig við, að frv. verði afgr. Þannig, að velja megi um leiðirnar að undangenginni rannsókn.