24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (1150)

11. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Pétur Magnússon:

Í brtt. á þskj. 44 legg ég til, að tekin sé upp í símalögin lína frá Efra. Hvoli um Strönd, Odda, Fróðholtshjáleigu og Hólabæi í Þykkvabæ.

Til skýringar fyrir ókunnuga skal ég geta þess, að ætlazt er til, að línan liggi frá Efra-Hvoli út Hvolhrepp, yfir neðanverða Rangárvelli og eftir Vestur-Landeyjahreppi til Þykkvabæjar. Brtt. er borin fram eftir óskum fjölmargra manna í Rangárvallasýslu, enda er þetta áhugamál allra þeirra, sem njóta eiga, og raunar fleiri en þeirra, sem beint eiga að njóta, því að þessi lína er nauðsynleg til þess að línur, sem fyrir eru, komi að fullu gagni. En annars eru það einkum tveir hreppar, sem símans eiga að njóta, og þörfin er mikil. Fyrir Rangárvelli, sérstaklega neðanverða, er ákaflega nauðsynlegt að fá síma að Odda. Hinn fornfrægi staður er á ýmsan hátt „miðstöð“ hreppsins. Presturinn þar hefir auk prestskaparins mörg opinber störf á hendi, er hreppsnefndaroddviti, á sæti í kreppulánasjóðsnefnd o. fl. o. fl. En frá Odda til næstu símastöðvar eru 12 km. Prestinum er oft ómögulegt að koma í síma, þótt hann sé kallaður. Fyrir Rangárvelli og neðri hluta af Hvolhreppi er þetta því hin mesta nauðsyn, en vegalengd frá Hvoli að Odda er 15 km. Milli Hvols og Odda er Strönd, en þar er nú nýreist mjög myndarlegt barnaskólahús. Verður það heimavistarskóli fyrir Rangarvallahrepp og jafnframt þinghús hreppsins. Þarf naumast að lýsa, hver nauðsyn það er bæði fyrir skólann og enda hreppsbúa að fá síma þangað. En þörfin er þó enn brýnni í Vestur-Landeyjahreppi fyrir bætt símasamband. Þar eru tvær símastöðvar, í norðaustur- og suðvesturhorni hreppsins. En hreppurinn liggur sem kunnugt er milli Þverár og Hólsár annarsvegar og Affallsins hinsvegar. Með brúargerðinni yfir Þverá komst hreppurinn í vegasamband, þótt ófullkomið sé. Hreppsbúar ætla sér nú að fara að selja mjólk, en til þess að slíkt sé mögulegt, er þeim nauðsynlegt að hafa aðgang að síma. Fáir bæir geta notað þessar tvær stöðvar, og verða þeir því að fara í síma til Þykkvabæjar yfir Hólsá. Fyrir þennan hrepp er því hið mesta nauðsynjamál að fá símann á hreppsenda, og er þá orðið örstutt yfir í Þykkvabæ og sjálfsagt að leggja línuna þangað.

Ég hefi þá skýrt aðra ástæðuna fyrir því, að ég flyt þessa brtt. En hin ástæðan er sú, að símafyrirkomulagið innan sýslunnar er ákaflega óheppilegt. Símastöðvarnar innan sýslunnar ná yfirleitt ekki sambandi hver við aðra öðruvísi en gegnum símastöðina við Ölfusá, og þá venjulega margar millistöðvar. Ef t. d. Kirkjubær á Rangárvöllum þarf að ná í Þykkvabæ, verður fyrst að fá samband við Efra-Hvol. Efri-Hvoll svo að ná í Miðey, Miðey í Ölfusá, Ölfusá í Þjórsá og stöðin þar svo loks í Þykkvabæ. Þegar þess nú er gætt, að venjulega er mjög mikið að gera á aðallínunni, gefur að skilja, að oft tekur langan tíma að ná sambandi. Er því megn óánægja með þetta ástand, sem eðlilegt er. Því er nauðsynlegt, að fengizt gæti beint samband milli stöðvanna innan héraðs. Ef þessi lína er lögð, myndi hún bæta úr þessu að talsverðu leyti. Stöðvarnar í miðsýslunni þyrftu þá aðeins að ná í Efra-Hvol til að fá samband við útsýsluna.

Ég get ekki sagt um það að svo stöddu, hvað þessi lína myndi kosta, enda yrði hún ekki öll lögð þegar í stað. Þyrfti fyrst að leggja línu suður fyrir Þverá að Fróðholtshjáleigu. Landssímastjóri áætlar kostnað við þá línu 5600 kr. Staurar eru uppsettir á töluverðum hluta þessarar leiðar.

Fer ég svo ekki fleiri orðum um þessa brtt., en vænti þess, að hv. þdm. sjái, að það er ekki ófyrirsynju, að farið er fram á þessa aukningu símakerfisins.