24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (1157)

11. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Pétur Magnússon:

Ég vil aðallega leiðrétta nokkurn misskilning, sem kom fram hjá hv. frsm. í lok ræðu hans. Hann sagði, að nú væri unnið að því að fækka landssímastöðvum á aðalsímalínunni, en till. mín miðaði að fjölgun stöðva á henni. En þetta er misskilningur hjá honum, því hér er um nýja línu að ræða. Löngu áður en þing kom saman hafði ég farið fram á, að landssímastöð yrði sett upp á Strönd, sem liggur svo að segja fast við símalínuna. En vegna þess að landssímastjóri hefir eindregið lagt á móti, að stöðvum yrði fjölgað á þessu svæði, hefir ráðh. ekki séð sér fært að verða við þeim tilmælum, þó hann hafi fullkoml. viðurkennt þörfina. Einmitt af þessum ástæðum flutti ég till. mína um að leggja nýja línu alla leið frá Efra-Hvoli. Þó það sé vitanl. rétt hjá hv. frsm., að úr símaþörf þessara sveita, sem hér eiga hlut að máli, mætti bæta með því að leggja einkasíma, þá er ég ekki viss um, að það sé allskostar sanngjarnt að afgr. málið með slíkri ávísun. Ég benti á það, þegar ég gerði grein fyrir brtt., að símalínunnar er þörf, ekki einungis vegna þeirra manna, sem beint eiga að njóta hennar, þ. e. þeirra, sem næst henni búa, heldur og til þess að koma betra skipulagi á símakerfið innan allrar sýslunnar. Og það mundi naumast verða talið sanngjarnt að heimta fjárframlög í því augnamiði af örfáum mönnum.

Um þörfina á þessari línu get ég annars vísað til þess, sem ég áður hefi sagt, en get þó bætt því við, að fyrir alla útsýsluna væri mikið hagræði að fá beint símasamband við læknissetrið á Stórólfshvoli.