22.11.1933
Neðri deild: 16. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (1161)

40. mál, útrýming fjárkláðans

Pétur Ottesen:

Ég held, að menn renni lítinn grun í það nú, hverjar verða muni heybirgðir bænda næsta vetur og hvort þær muni verða nægilegar til þess að taka á móti aukinni heyeyðslu vegna svokallaðrar útrýmingarböðunar á fjárkláða. Um það eru allar bollaleggingar þýðingarlausar nú; en út af því, sem hv. 1. flm. þáltill. hélt því fram, að síðastl. sumar hefði heyfengur manna verið með bezta móti, vil ég segja það, að þó hér sunnanlands hafi að vöxtunum orðið allsæmilegur heyskapur, þá býst ég við, að bændur hér hafi ekki í annan tíma verið ófærari til þess að mæta hörðum vetri en einmitt nú, vegna þess hve heyin eru léleg. (ÞÞ: Það eru góð hey á Norðurlandi og Vesturlandi).

Ég ætla nú ekki að fara að tala langt mál um þessa þáltill., en ég býst ekki við, að það séu miklar líkur til þess, að hægt verði að kveða fjárkláðann niður með öllu með þvílíkri útrýmingarböðun og hér er gert ráð fyrir, og allra sízt þegar ekki er gert ráð fyrir, að hún fari fram nema á vissum svæðum. Það er vitanlega engan veginn tryggt, að ekki verði yfir sumarið samgangur sauðfjár milli þeirra svæða, þar sem kláðaböðun hefir farið fram, og hinna, þar sem ekki á að baða, heldur er einmitt hið gagnstæða víst, að féð fer yfir takmörkin að sumrinu. Ég held því, að það skynsamlegasta sé að ganga eins langt og unnt er í því að halda kláðanum niðri með hinni almennu þrifaböðun, því reynslan hefir sýnt, að þar, sem fullkomnnar vandvirkni er gætt við þrifabaðanir, þar er gersamlega hægt að halda kláðanum niðri. Það er ekkert nema trassaskapur og óvandvirkni við boðunina, sem veldur því, að þrifabaðanir nægja ekki, og svo það, að kindur sleppa viða framhjá böðun, sem í flestum tilfellum er líka trassaskap að kenna. Þess vegna ætti löggjafarvaldið að gera frekari ráðstafanir en hingað til hafa verið gerðar til að tryggja, að hinar árlegu þrifabaðanir verði samvizkusamlega framkvæmdar, fremur en fara að ákveða allsherjar útrýmingarböðun með þeim hætti, sem hér er lagt til og vonlítið er um, að komi að fullu gagni, þar sem aðeins á að fara fram svonefnd útrýmingarböðun í nokkrum héruðum, eða þar, sem upp hefir verið gefið, að kláðans hafi orðið vart. Ég vil því beina því til hv. landbn., sem líklega fær þetta mál til meðferðar, að athuga, hvort ekki sé ráðlegra að skerpa eftirlit með þrifaböðun sauðfjár heldur en að ráðast í slíka útrýmingarböðun, sem ætlað er með þessari þáltill., um leið og leitað sé ráðleggingar rannsóknarstofunnar um það, hvaða tegund baðlyfja sé heppilegust og öruggust til þrifabaðana.