28.11.1933
Neðri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (1177)

40. mál, útrýming fjárkláðans

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þó að ég telji mikla þörf og nauðsyn á því, að böðun geti farið fram á næsta vetri, þá get ég sætt mig við till. landbn. eins og málið liggur nú fyrir, en legg aðaláherzlu á, að þetta mál verði rækilega undirbúið af stj. hálfu, ef till. n. verður samþ., og það verði svo vel undirbúið, að það geti fengið greiða afgreiðslu á næsta þingi, og þá væri ekki ósennilegt, að útrýmingarböðun gæti farið fram á árinu 1935, eða a. m. k. yrði byrjað á henni þá.

Það, sem ég legg aðaláherzluna á, er, að böðun þessi geti farið fram með sem allra beztum árangri, og mun ég því bíða rólegur, og vænti þess, að hv. meðflm. mínir geri það sama, meðan þessi nauðsynlegi undirbúningur er gerður. En vænti þess jafnframt, að þessari framkvæmd verði ekki seinkað meira heldur en nauðsyn er á.

Viðvíkjandi þeirri skoðun, sem hv. frsm. landbn. var að tala um, að framkvæmd yrði seinni part vetrar, þá held ég, að heppilegra yrði, ef hægt væri að koma því svo fyrir, að sú skoðun gæti farið fram einmitt tímanlega vetrar, helzt ef hægt hefði verið áður en þrifa- og kláðaböðun fer fram á þessum vetri, sem verður kringum hátíðirnar, og hvað Dalasýslu snertir, þá var gerð fyrirskipun um það, að þar verði skoðað rækilega allt sauðfé fyrir miðjan næsta mánuð og sendar skýrslur um árangur þeirrar skoðunar til sýslumannsins.