28.11.1933
Neðri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (1180)

40. mál, útrýming fjárkláðans

Pétur Ottesen:

Ég er samþykkur því, að hverfa frá framkvæmd á þessu máli svo litt athuguðu, sem það var, eins og fram kom í hinni upprunalegu till., og hætt er við, að árangur af því starfi hefði orðið lítill, þar sem ekki var gert ráð fyrir að framkvæma útrýmingarböðun nema á nokkrum svæðum á landinu.

Ég talaði nokkuð almennt um þetta mál við fyrri hl. þessarar umr. og gat m. a. um það, að litlar líkur væru til, að hægt væri að ráða niðurlögum kláðans, þó að ráðizt væri í útrýmingarböðun, en hinsvegar að hægt væri með þrifaböðunum að halda honum svo í skefjum, að ekki hlytist tjón af. Þess vegna tel ég það líklegri leið til góðs árangurs að kosta kapps um að halda kláðanum niðri ,með því að fullkomna eftirlitið með þrifaböðunum, og sú rannsókn, sem gert er ráð fyrir, að gerð sé samkv. brtt. n., getur eins komið að liði, þó menn snúi sér að því að reyna að halda kláðanum í skefjum með þrifaböðunum. Það er jafnnauðsynlegur grundvöllur undir það, að komast að raun um, hvaða baðlyf sé heppilegast og einnig, hvernig eigi að heyja baráttuna við kláðann að öðru leyti, og þess vegna, þó að ekki sé ráðið til beinnar útrýmingar, geta þessar rannsóknir komið að góðu liði, og af þeim sökum er sjálfsagt að sinna þeim till., sem n. hefir borið fram um það efni.

Ég vil benda á, út af því, sem stendur í 1. lið till., að þar er ekkert tiltekið um það, á hvern hátt þessi rannsókn eigi að fara fram nú á þessum vetri. Ég heyrði ekki framsöguræðu hv. frsm., en það má vel vera, að hann hafi komið inn á það í henni. En ég vil benda á, að heppilegra væri og jafnframt kostnaðarminna, að þessi rannsókn væri sameinuð við síðari skoðunina, sem fram fer á vetrinum, því að það eru venjulega tvær skoðanir, sem fara fram, önnur fyrri part vetrar, en hin síðari einhverntíma á góunni, og þá er litið eftir fóðurbirgðum og ástandi búfjárins. Ég held, að heppilegra væri að sameina þetta kláðaeftirlit við þá skoðun heldur en að stofna til nýrrar skoðunar á þessu tímabili, sem óhjákvæmilega mundi leiða til aukinna fjárútláta fyrir hreppana, sem ég geri ráð fyrir, að muni bera kostnaðinn af þessari framkvæmd.

Ég vil beina því til hæstv. atvmrh., að hann reyni að gera ráðstafanir til þess, að þetta verði sameinað, og ég býst ekki við, að á því reynist neinir örðugleikar, því að ég veit, að t. d. í Borgarfjarðarsýslu er kláðaskoðun æfinlega framkvæmd samtímis fóðurbirgðaskoðun síðari hluta vetrar og af sömu mönnum.

Í síðasta lið till. er gert ráð fyrir að leggja þá niðurstöðu, sem af þessari kláðaskoðun leiðir, fyrir næsta þing, og að þá sé hafinn undirbúningur undir útrýmingarböðun og að þetta skuli gert án tillits til, hvað skoðunin leiðir í ljós, hvort hún sýnir, að kláðinn er útbreiddur eða ekki.

Ég vil í þessu efni skírskota til þeirrar skoðunar, sem ég hefi latið í ljós í þessu efni, að okkur beri fyrst og fremst að sýna okkur að því að halda kláðanum niðri með öflugum þrifaböðunum, og reynslan sýnir, að það er hægt þar, sem fullkomið lag er á þeim hlutum.

Ég vil ennfremur benda á í sambandi við þessa hugmynd að útrýma fjárkláðanum, sem fram á að fara með tveimur böðunum hverri á eftir annari, að það verður að taka tillit til þess ástands, sem kann að vera á heilsufari sauðfjárins á þeim tíma, því að eins og kunnugt er, er fé hér sunnanlands nú meira og minna sýkt, og þá má það ekki við misjafnri meðferð. En það er vitanlegt, að tvennar baðanir hver ofan í aðra há fénu allverulega og draga í bili nokkuð úr þrótti þess og mótstöðuafli gegn allskonar sjúkdómum. Þess vegna verður á þeim tíma, sem ákvörðun er tekin um þetta, að taka fullt tillit til, hvernig ástatt er um heilbrigði sauðfjárins.

Ég get greitt þessari till. atkv., af því að ég lit svo á, að þessi rannsókn geti haft töluverða þýðingu, hvor leiðin, sem farin yrði í þessu máli, að halda kláðanum í skefjum með öflugum þrifaböðum eða þá að reyna útrýmingarböðun, sem mun reynast hæpin að því er það snertir, að kláðanum verði útrýmt til fulls.