28.11.1933
Neðri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (1181)

40. mál, útrýming fjárkláðans

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Það er aðeins stutt aths. Hv. þm. Borgf. talaði um að sameina kláðaskoðunina við fóðurbirgðaskoðunina síðari hluta vetrar, en það kom einmitt fram í umr. áður en hv. þm. kom inn í þingsalinn, og það liggur beint við kostnaðarins vegna að sameina þessar skoðanir, og kostnaðurinn greiðist vitanlega úr sveitarsjóði, eins og hv. þm. minntist á.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Borgf. minntist á, að það gæti verið varhugavert að baða fé í sumum sveitum landsins vegna kvilla, sem væru í sauðfénu, skal ég taka það fram, að sá versti fjarkvilli, sem einkum hefir gert vart við sig hér sunnanlands, hefir verið undir rannsókn síðastl. sumar og nú í vetur, og eins og nú horfir er nokkur von um, að það muni takast að vinna bug á honum, en þessum rannsóknum verður vitanlega haldið áfram til þess að komast að sem beztri niðurstöðu.

Mér finnst gæta nokkuð mikillar veiðibræði hjá hv. þm. Dal., þar sem hann gerði ráð fyrir, að ekki yrði byrjað á böðunum síðar en á árinu 1935. Það má vel vera, að svo fljótt megi ráðast í þessar framkvæmdir, ef þá er veitt fé til þess, en þó er ég ekki viss um, að öllum þeim undirbúningi, sem nauðsyn er á verði lokið að fullu fyrir þann tíma. Ég skal taka t. d. vísindalega rannsókn á því, hvort sótthreinsun húsa sé nauðsynleg og hvernig hún verði gerð með sem minnstum kostnaði, en þó svo, að örugg sé. Það þarf m. a. að undirbúa eftirlitsmenn um allt land, og ég tel ekki líklegt, að það þyki heppilegt, eins og hv. þm. Dal. gerði ráð fyrir, að taka vissan hluta landsins fyrir, heldur verði, ef útrýmingarboðun á að fara fram, að baða á öllu landinu í einu, en eins og mönnum er kunnugt, þá er ekki nema tiltekinn tíma að vetrinum, sem böðun getur farið fram, vegna fósturtíma ánna.

Hv. þm. Borgf. dró nokkuð í efa, að hægt mundi að útrýma fjárkláðanum hér á landi til fulls, jafnvel pott útrýmingarböðun færi fram. Ég get að svo komnu máli ekkert fullyrt um það. Og því miður höfum við dýra reynslu fyrir því, að Myklestadsböðunin kom ekki að fullum notum í því efni, af því að „síðasti maurinn“ var ekki drepinn. Reynslan mun hafa verið sú í Noregi og víða annarsstaðar, að jafnvel með útrýmingarböðun hafi ekki verið hægt að drepa „síðasta maurinn“. En því máli hefir samt með útrýmingarböðun og með góðu eftirliti og rækilegri skoðun árlega miðað sumstaðar svo langt áleiðis, að það hefir tekizt á nokkrum árum að útrýma kláðanum til fulls.

Í Noregi var fjárkláðinn talinn í sjúkdómaskýrslum sauðfjár mörgum árum eftir að útrýmingarböðun fór fram, en í síðustu skýrslum mun fjárkláðinn ekki vera nefndur, svo hægt er að ganga út frá, að hann sé nú algerlega horfinn.

Þetta mál er ekki eins auðvelt eins og sumir vilja vera láta, en hinsvegar eru þó nokkurn veginn sömu líkur fyrir því hér sem í Noregi, að með nógu föstum tökum sé hægt að losna við þessa fjársýki að fullu.