13.11.1933
Efri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (1195)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Flm. (Magnús Jónsson):

Hv. 2. þm. S.-M. lýsti andstöðu sinni við þetta frv. Fann hann þó ekki annað fram að færa gegn því en það, að ekki lægju fyrir knýjandi ástæður til að afnema innflutningshöftin. Við erum hér á öndverðum meiði, þar sem annar talar í austri, þar talar hinn í vestri, og eigum við því erfitt með að rökræða þetta mál. hér er um neyðarraðstöfun að ræða. Held ég, að ekki þurfi knýjandi nauðsyn til að afnema þær, heldur einmitt til þess að setja þær á Hv. þm. virðast þessi höft vera það hjartans barn, sem undir öllum kringumstæðum beri að halda, meðan þau ekki steindrepa þjóðina.

Hv. 1. landsk. sýndi fram á, að innflutningshöftin væru orðin að steingervingi. Hér er því um tvær gagnólíkar skoðanir að ræða.

Hæstv. forsrh. játaði, að höftin væru orsök að mörgum miður æskilegum hlutum. Yrði stundum að gripa til þeirra, en ætti aldrei að halda heim lengur en brýna nauðsyn bæri til. Ég minntist áðan á það, að með svona ráðstöfunum væri hægt að ná tvennskonar tilgangi. Ég nefndi það sem aukaatriði, að þær gætu orðið til verndar innlendri framleiðslu. En slíka vernd ætti raunar að framkvæma í allt öðru formi, ekki með því að setja hömlur við verzlun landsmanna almennt.

Ætti að gera það, eins og alstaðar annarsstaðar í veröldinni, með tollum á erlendu vörurnar. Veit ég ekki til, að nokkursstaðar sé beitt banni við erlendum vörum til þess að tryggja innlenda framleiðslu.

Hæstv. ráðh. sagði, að alltaf hlytu að verða misfellur á framkvæmd svona lagaðra ráðstafana. En það er þó ekki aðalatriðið, að misfellur hafa orðið á framkvæmdinni, heldur hitt, að hömlurnar eru farnar að hafa áhrif gagnstæð því, sem í upphafi var til ætlazt. Það er eftirtektarvert, að hætv. ráðh. færði í ræðu sinni engar ástæður fram gegn því, sem ég hafði sagt um þetta. Hann sagði, að ef þessi höft væru afnumin, þá yrði líka að afnema gjaldeyrisráðstafanirnar. Ég skil ekki, hvers vegna. Flest af því, sem óheppilegt er við innflutningshöftin, orsakast ekki af gjaldeyrisskömmtuninni. Þó að pantaðar séu vörur frá öðru landi en hentugast væri, þá kemur það ekki gjaldeyrisskömmtuninni við. Flest dæmin, sem ég nefndi, sýna þetta líka.

Hæstv. ráðh. sagði, að aðalreglan hefði verið sú, að flestar þær verzlanir, sem selt hefðu erlendar vörur, hefðu fengið innflutningsleyfi. En ég hefi nú heyrt, að farið hafi verið oft og tíðum eftir sérþörfum, að einstakir menn hafi fengið innflutningsleyfi á einu eða fleirum stykkjum ýmsra vörutegund?. Þetta verður til þess, að vörutegundum fjölgar í landinu og varan verður dýrari en ella.

Hæstv. ráðh. nefndi sem dæmi, að ef innflutningur bíla hefði verið leyfður myndu bílakaup hafa gleypt mikið fé. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Get ég nefnt því til stuðnings, að maður nokkur fékk leyfi til að flytja inn bíl, og lá hann óseldur mánuðum saman. Menn hafa yfirleitt ekki svo mikið fé handa á milli, að þeir leiki sér að því að kaupa bíla. Það er sjaldnast gert nema af nauðsyn.

Þessu hefir nú verið mjög misbeitt. Sumir, sem vissu, að læknar og ljósmæður höfðu fengið undanþágur fyrir bíla handa sjálfum sér, fóru til einhvers læknis eða ljósmóður og fengu þau til að útvega sér innflutningsleyfi undir sínu nafni.

Þá er komið að því atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem er langmesta aðalatriðið, og það er, ef innflutningshöftin hafa raunverulega þýðingu í þá átt að bæta aðstöðu okkar með sölu á útflutningsvörum. Þetta er það atriði, sem allar þjóðir í heiminum taka mjög mikið tillit til. Ég get sparað mér frekari umr. um þetta, því að hv. 1. landsk. hefir svarað því, og ég er honum sammála um það, að ómögulegt sé að koma auga á, hvernig innflutningsbann á óþörfum vörum getur haft áhrif á sölu afurða okkar til annara landa. Áreiðanlega myndi það fremur spilla.

Það, sem hér kemur til greina, er, hvort innflutningshöftin greiði fyrir beinum gagnkvæmum viðskiptum milli okkar og einhverra annara þjóða. Þessar takmarkanir ná einmitt ekki þeim tilgangi, því að þegar búið er að veita leyfi til innflutnings á einhverri vöru, þá fylgir ekkert ákvæði um það, hvaðan varan skuli keypt. Höftin eru gagnslaus til þess að beina viðskiptum okkar til þeirra landa, sem við sérstaklega eigum gott upp að unna. Allar kröfur til okkar frá öðrum þjóðum myndu ganga í þá átt, að fá innflutningshöftunum létt af. Það er óhugsandi, að kröfur komi um að viðhalda þeim. Það eru aðrar ráðstafanir, sem hægt er að gera til þess að beina viðskiptum okkar í ákveðnar áttir. Það eru gjaldeyrishömlur, og það verða þær, sem bezt geta beint viðskiptum frá einni þjóð til annarar. Ég álít því, að innflutningshöft séu ákaflega undarlegar ráðstafanir til þess að hvetja aðrar þjóðir til að verzla við okkur. Þau hafa valdið óþægindum, og munu alltaf gera það.

Ein veigamesta ástæðan fyrir afnámi haftanna er tekjuþörf ríkissjóðs. Hv. 1. landsk. minntist á þetta mikilvæga atriði, að einmitt þessar vörur, sem bannaður er innflutningur á, eru sérstaklega heppilegar til að skapa aukinn tekjustofn fyrir ríkissjóð, því að þær eru flestar tiltölulega ódýrar í innkaupum og því ekki gjaldeyrisfrekar. Það má t. d. nefna leikföng, sem eru mjög ódýr í innkaupum og gefa því ríflegar tekjur í ríkissjóð. Þessar vörur kaupa þeir einna helzt, sem mikla kaupgetu hafa, og tollar af slíkum vörum verka því sem einskonar frjáls tekjuskattur.

Þó að ekki væri nema vegna tekjuþarfa ríkissjóðs, þá er fyllsta ástæða til þess að að létta nú þegar innflutningshöftunum af og beina verzluninni inn á þær brautir, sem tekjudrýgri eru fyrir ríkissjóð.