14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (1200)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Jón Þorláksson:

Til viðbótar við það, sem ég þegar hefi tekið fram viðvíkjandi þeirri ástæðu hæstv. forsrh., að rétt sé að halda í lögin frá 1920 vegna þess, að ráðstafanir samkv. þeim komi okkur að gagni í viðskiptamálunum við aðrar þjóðir, til þess að tryggja útflutningsverzlunina, vil ég minna á það, að í samningum og samningaumleitunum við aðrar þjóðir hafa legið fyrir stj. og þingi, a. m. k. fyrir utanríkismálan. þingsins, óskir frá öðrum þjóðum að því er snertir tilhögun á innflutningi nokkurra vörutegunda, og hafa þessar óskir yfirleitt gengið í þá átt, að tiltekinn hluti af innflutningi okkar væri keyptur af tiltekinni þjóð, líkt og er með kolainnflutninginn af Bretum. Ég minnist þess ekki, að neitt af þeim vörutegundum, sem þetta hefir verið orðað um, á þann veg, að það hafi komið til stj. eða utanríkismálanefndar, falli undir þær vörutegundir, sem heimilt er að banna innflutning á samkv. lögunum frá 1920, heldur er þar um allt aðra og stærri vöruflokka að ræða. Þegar það er því ljóst, að þessi umræddu heimildarlög frá 1920 eru ekki neinn grundvöllur til þess að tryggja útflutningsverzlun okkar, að þær ráðstafanir verða að hvíla á allt öðrum grundvelli, þá sé ég ekki, að ástæða sé til að halda í þau, heldur beri að afnema þau, eins og hér er farið fram á.