14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (1206)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Það er eitt atriði, sem gengið hefir verið framhjá, sem ég tel þungamiðjuna í þessu máli. Reynslan er alstaðar sú, þar sem höft eða bönn hafa staðið til langframa og meiri hluti þjóðanna álíta þau ekki réttmæt, að í kjölfar þeirra siglir meiri og minni spilling. Það er heldur ekki vafi á, að höft þau, sem hér er talað um að afnema, hafa valdið töluverðri spillingu í verzlunarháttum landsmanna. hér verða bændur að athuga það, að höft þessi koma aðallega niður á kaupstaðabúunum. Þeir telja þau ósanngjörn og reyna því að fara á bak við þau eftir megni. Það er því ekkert hnefahögg í garð landbúnaðarins, þó að rætt sé um að afnema þau. Ég býst nú við, að málið verði athugað í nefnd og vil að sjálfsögðu leggja áherzlu á, að fullt tillit sé tekið til landbúnaðarafurðanna í sambandi við það. Annars er það firra ein, að þeir, sem eru á móti höftum, vilji á nokkurn hátt reiða hnefahögg að landbúnaðinum. Þeir vilja að sjálfsögðu, að hann megi blómgast eins og bezt má verða. Hvað verndartollana snertir, þá eru venjulega allskiptar skoðanir um þá, og mun ég því leiða hjá mér að þessu sinni að fara út í þá pólitík. Þá er það eitt í sambandi við þetta mál, sem bændur verða að athuga, og það er, að eftir því, sem verðlag hækkar, eftir því verður kaupgjald allt hærra og kostnaðurinn við framleiðsluna því meiri. Ég vænti nú, að hv. dm. lofi frv. þessu að ganga til n. og þaðan fái það góða afgreiðslu, svo það megi verða til þess að ráða bót á þeirri spillingu, sem af höftunum hefir leitt.