14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (1208)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Kári Sigurjónsson:

Það er líklega viðeigandi, úr því að almennar umr. eru orðnar um þetta mál, og bændur þeir, sem talað hafa í því, virðast líta mjög einhliða á það, að ég segi mína skoðun á málinu, sem dálítið er á annan veg en þeirra annara stéttarbræðra minna, sem hafa látið til sín heyra.

Eftir því, sem ég þekki bezt, þá er það ekki heilbrigður landbúnaðarrekstur, sem ekki þolir samkeppni við erlendar landbúnaðarvörur, þegar búið er að hækka þær um 1/3 hluta frá kaupverði þeirra ytra. Ég hjó eftir því hjá hv. 3. landsk., að verðtollur á erlendu smjöri væri hér um 15%. Auk þess dálítill vörutollur. Sé svo bætt við þetta venjulegri kaupmannsálagningu, þá skilst mér, að þessi erlenda vara fái hart nær 50% viðbótaralagningu frá kaupverði hennar erlendis. Með þessari miklu verðhækkun þessarar vörutegundar tel ég innflutning hennar nægilega heftan gagnvart hinni innlendu framleiðslu. Það má vel vera, að þetta standi ekki heima gagnvart ýmsum öðrum vörutegundum, sem inn eru fluttar, en þá þarf að lagfæra það með breytingu á tollum, en ekki með innflutningshöftum.

Þá hefir það orðið ljóst af umr. þeim, sem fram hafa farið um mál þetta nú, að viðskiptahöftin komi sumpart í bága við viðskiptasamninga okkar við önnur lönd, og úr því svo er, að þau geta orðið þrándur í götu frjálsra samninga milli Íslands og annara ríkja, þá virðist mér, þó ekki væri nema það eitt, sem af þeim leiddi, sjálfsagt að afnema þau.

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson): Hv. 1. landsk. byrjaði ræðu sína á því að telja viðskiptahöftin gagnslaus gagnvart viðskiptum okkar við aðrar þjóðir, og að þau kæmu í bága við samningaumleitanir okkar við þær. Á þessu endaði hv. 6. landsk. líka, sem nú var að setjast niður. Út af þessum ummælum vil ég gefa þær upplýsingar, að ég sem utanríkismálaráðh. hefi aldrei orðið þessa var. Veit ég því ekkert, hvaðan hv. ræðumenn hafa þetta. Mín reynsla er hvert á móti sú, að höftin hafa oft beinlínis hjálpað okkur til þess að ná hagstæðum samningum við aðrar þjóðir. Það er nú þessi árin aldrei samið um það, að öll verzlun skuli frjáls milli þjóðanna, heldur hitt, að ein þjóðin kaupi svo og svo mikið af annari. Höftin eru nauðsynleg til að framkvæma slíka samninga og umtöl. Á þennan hátt komu þau t. d. að gagni í sumar gagnvart viðskiptum okkar við Suðurlönd. þegar viðskiptaráðunautur Ítala var á ferð hér í sumar, þá færði hann í tal, að við gætum veitt undanþágur frá innflutningsbanninu gagnvart vörum, sem framleiddar væru í Ítalíu, en ekki leyfður innflutningur á eins og nú stæðu sakir hjá okkur. Hann fór því alls ekki fram á, að innflutningshöftin væru afnumin, heldur þvert á móti notuð til að beina viðskiptum til þeirra. Sama er að segja um Spánverja. hér er t. d. einn maður í Rvík, sem sett hefir upp heildsölu með spánskar vörur. Hann telur, að viðskiptahöftin hafi hjálpað sér mikið. Í haust greip stj. til þess úrræðis að gefa sérstakar undanþágur um innflutning frá Suðurlöndum. Um það voru allir á einu máli, að því er bezt varð séð. Þetta hefir haft góð áhrif, sala á vörum frá þessum löndum hefir aukizt töluvert hér, og verði haldið áfram á þessari braut eins og þegar hefir verið byrjað, má vel vera, að það geti orðið til þess, að við komumst hjá harðvítugum verzlunarsamningum við þessar þjóðir, sem við eigum mestan markað undir. Því hefir verið haldið fram í umræðunum, að heimildarlögin frá 1920 séu ekki nægilegur grundvöllur til þess að byggja þessar ráðstafanir á; þau hefðu ekki heldur verið sett í þeim tilgangi. En það er nú þannig um ýms lög, að framkvæmd þeirra jagast nokkuð eftir breyttum ástæðum og breyttu viðhorfi. Eins og ég tók fram áðan, heyrðist t. d. engin rödd um það í haust, að undanþágan gagnvart Suðurlöndum væri brot á þessum gömlum heimildarlögum. Hún þótti svo sjálfsögð. Þeir, sem viðurkenna það, að nauðsyn beri til að hafa vald yfir innflutningnum, eins og sumir hv. þm. hafa gert, en tjá sig þó jafnvel fylgjandi frv. því, sem hér er til umr., verða þá að bera fram nýja og fullkomnari heimild til handa stj., ef þeir vilja fella gömlu heimildarlögin úr gildi. Slíkrar heimildar sakna ég einmitt.1)

Það er einmitt þessi staðreynd, sem hv. þdm. þurfa að taka tillit til. Og það er ekki hægt að gera þær kröfur til íslenzks landbúnaðar, að hann standist samkeppni við erlenda framleiðslu hjálparlaust, meðan það er ekki talið kleift fyrir bændur í nokkru öðru landi. Ekkert nágrannaríkið hikar við að beita hátollum og öðrum hindrunum gegn innflutningi landbúnaðarafurða bændunum til hjálpar. Það sýnist því ekkert óeðlilegt, þó hið sama ætti við einnig hér. Og okkur er það áreiðanlega vissara að sleppa ekki þeim hömlum, sem við höfum sett á innflutninginn, meðan ekki er betur séð en nú er, hverja stefnu milliríkjaviðskiptin taka í framtíðinni. Það er sem sé langt frá því, að útlit sé fyrir, að fyrst um sinn verði horfið að því ráði að taka upp tollfrjálsa óþvingaða milliríkjaverzlun í líkingu við þá, sem var fyrir stríð. Á síðastl. vori héldu 63 heimsríki allsherjarráðstefnu í London til þess að ræða um milliríkjaviðskipti. Menn gerðu sér fyrirfram vonir um árangur af starfi þessarar ráðstefnu, en reynslan varð sú, að engin ráðstefna hefir reynzt ömurlegri eða máttlausari. En einmitt vanmáttur þessarar stóru ráðstefnu hefir alvarlega bent mönnum á það, að viðskipti og viðskiptasamningar milli ríkja muni í framtíðinni byggjast á öðrum grundvelli en áður var. Hátolla- og haftastefnan er sterkur straumur, sem virðist ætla að skapa hinn nýja grundvöll bæði í viðskipta- og atvinnumálum þjóðanna. Við lifum á tímamótum í þessum efnum, og við verðum að taka tillit til þess og skilja það, að við erum ekki síður en aðrar þjóðir nauðbeygðir til að fylgja straumnum, því við getum ekki gert þær kröfur til bændanna og annara framleiðenda og iðnaðarmanna, er nota innlendan markað fyrir vörur sínar, að þeir verði samkeppnisfærir á öllum sviðum, þegar allar þjóðir hækka innanlandsverð á sömu vörum og halda því langt fyrir ofan útflutningsverðið. Hv. þm. Hafnf. ætlaði, ef við losnuðum við innflutningshöftin, að þá losnuðum við um leið við mikla spillingu, er hann taldi vera þeim samfara. En ég get fullvissað hann um, að lík spilling getur alveg eins þrifizt í skjóli gjaldeyrishafta, en þau vill hv. þm. ekki afnema, og jafnvel hv. flm. frv. ekki heldur. En gjaldeyrisloforðin yrðu þá engu síður en nú miðuð við vörutegundir þær, sem þarfari væru taldar. Mundi þá allt verða í sama horfinu eftir sem áður, að öðru leyti en því, að ekki yrði lengur unnt að hindra skuldasöfnun íslenzkra verzlana erlendis, skulda, sem fyrr eða síðar þyrftu að greiðast, hversu óhægt sem væri um vik.

Þær fögru vonir, sem sumir virðast gera sér um frv., munu reynast talvonir. Það mun hafa lamandi áhrif á innlend viðskipti og atvinnu, ef frv. verður samþ. Ég hafði búizt við, að frá fulltrúum landbúnaðarins kæmi fram frv. á þessu þingi um hærri tolla á innfluttum landbúnaðarafurðum, svo að ekki myndaðist nein gloppa milli hafta og tolla, ef höftin yrðu afnumin. Ég hefi gert ráð fyrir því, að slíkar raddir kæmu fram frá fleiri stéttum síðar í þinginu, bæði frá iðnaðarmönnum, útgerðarmönnum og fleirum, sem ekki þola að missa þá aðstöðu, sem þeim hefir skapazt vegna innflutningshaftanna og gjaldeyrisráðstafananna. En besta stuðning held ég þó, að fulltrúar verzlunarstéttarinnar gætu veitt höftunum, ef þeir gerðu sér ljóst, að þeirra velgengni er fyrst og fremst komin undir kaupgetu fólksins, og kaupgetu þess er ekki betur hægt að vernda á annan hatt en þann, að tryggja og vernda atvinnu þeirra, sem framleiðsluna stunda. En það verður nú að gerast með verzlunarpólitískum ráðstöfunum.

Umr. þær, sem farið hafa fram hér um frv., hafa verið í gamla stílnum, rétt eins og hér væri aðeins um að ræða ónógan gjaldeyri, en málið hefir breiðari grundvöll. Við lifum á tímamótum í þessum efnum. Það er að skapast ný stefna í milliríkjaverzlun, og við þurfum að vera á verði um að gera ekki neitt, sem ekki er í samræmi við framtíðarstefnu Norðurálfunnar.

Ég skal að síðustu geta þess, að á síðari árum hafa öll ríki sett hjá sér meiri eða minni tolla eða höft á innfluttar vörur, en ekkert einasta ríki hefir horfið að því að slaka til í þessum efnum, nema í sambandi við gagnkvæmar ívilnanir í samningum við aðrar þjóðir. Ef við nú færum að slaka á höftunum, þá gerðumst við undantekning í þessum efnum, og væri það hvorki í samræmi við straum tímans eða hagsmuni og þarfir landsins barna.