07.11.1933
Neðri deild: 4. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

2. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég mun ekki fylgja þessum lagabálki úr hlaði með mörgum orðum, því að í aths. aftan við frv. er gerð grein fyrir, hversu það er til orðið, og tel ég ekki ástæðu til að taka það upp hér. En tilgangurinn hefir verið sá, að safna í eina heild þeim lagaákvæðum, sem gilda eða eiga að gilda um alþingiskosningar. Af þessum ástæðum er lagabálkur þessi talsvert umfangsmikill, 158 gr. Það er auðvitað, að í þessum lögum eru ýms nýmæli, og mörg þeirra, þó ekki öll, eru afleiðing stjskrbreyt. þeirrar, sem væntanlega verður samþ. til fullnustu á þessu þingi. Auðvitað má búast við ágreiningi um mál eins og þetta, og aths. við frv. sýna í aðalatriðum, hversu þessu var varið í n., sem undirbjó frv. En ég fer ekkert út í þá sálma hér, enda ekki heimilt við þessa umr. málsins. En um það er enginn ágreiningur, að lagabálk sem þennan verður að setja á þessu þingi, svo framarlega sem samþ. verður frv. um stjskrbreyt., og á því tel ég engan vafa. Ég vona því, að um þetta mál takist góð samvinna í þinginu, svo að það fái sem bezta og skjótasta afgreiðslu.

Eftir að prentuð hafði verið próförk að frv. var breytt dálítið fyrirkomulagi kjörseðils. Breyt. var viðvíkjandi landslistanum. En vegna þeirrar breyt. hefir komizt lítilsháttar ósamræmi inn í 69. gr. frv., sem hv. þm. N.-Ísf. hefir bent mér á, en ég vona, að n. bæti úr þessu. Eins og hæstv. forsrh. tók fram í gær, hefir það orðið að samkomulagi innan stj., að þetta mál ætti að fara til þeirrar n., sem athugar stjskrmálið: sú n. hefir lítið að starfa, og er því ekki nema sanngjarnt, að hún fái þetta mál í viðbót. Legg ég því til, að málinu verði, að umr. lokinni, vísað til stjórnarskrárnefndar, sem kosin var mi fyrir augnabliki síðan.