17.11.1933
Neðri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (1238)

30. mál, hafnargerði á Skagaströnd

Flm. (Jón Pálmason):

Þetta mál er hv. þdm. kunnugt af meðferð á undanförnu þingi og umræðum þar. Eins og stendur í grg., þá er ríkisstj. heimilt skv. 1. frá 14. júní 1929 að verja til byrjunar á hafnargerð á Skagaströnd 50 þús. kr. og auk þess ábyrgjast allt að 75 þús. króna lán í þessu skyni. Nú er vaknaður mikill áhugi fyrir því, að hægt verði að byrja á þessu mannvirki á þessu ári. Þess vegna hefi ég leyft mér að flytja fram þessa till. og vona, að hún verði samþ.

Ástandið er þannig núna, að framleiðslan til sjávar og sveita er að sligast af ofurþunga kreppunnar. Þess vegna eru þau mál, sem miða að því að styrkja framleiðslugrundvöllinn, mest virði, og ég tel þetta mál eitt af þeim.

Við höfum hér á þinginu rætt um síldarbræðslustöð á Norðurlandi, og ekki orðið sammála um það, hvar slík stöð ætti að standa. Og þó að ýmislegt mæli með því, að síldarbræðslustöðin ætti að vera á Skagaströnd, þá hefi ég samt ekki þorað að fara fram á meira fjárframlag til hafnargerðar þar en þegar hefir verið samþ. að veita. Á þessum stað hagar svo til, að mjög auðvelt er að fá hentugt efni til hafnargerðar og skilyrði til þess að koma þarna upp fjörugu atvinnulífi.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. hafi kynnt sér þetta mál ýtarlega, svo að ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það á meðan enginn hreyfir mótmælum. Vænti ég þess, að hv. d. afgr. till. til 2. umr. og vísi henni til sjútvn., að þessari umr. lokinni.