25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (1250)

30. mál, hafnargerði á Skagaströnd

Jón Pálmason:

Ég ætla rétt um leið og þetta mál væntanlega fer úr d. að víkja að því, að ég legg áherzlu á, að þessi till. komi til framkvæmda, og vænti, að hv. ríkisstj. taki það til greina. En ég vil geta þess um leið, til þess að sýna, eins og reyndar viðurkennt var, að hér var ekki um neina hreppapólitík að ræða, að mér hefir borizt skeyti frá fjórðungsþingi Fiskifélagsins í Norðlendingafjórðungi, og mælir það með, að síldarbræðslustöðin sé reist á Skagaströnd, ef gerð verði þar höfn innan tveggja ára. Svipaða ályktun gerði þingið í Sunnlendingafjórðungi. Málið var afgr. hér síðast án mótatkv., og vona ég, að svo verði enn.