05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (1256)

30. mál, hafnargerði á Skagaströnd

Frsm. (Magnús Jónsson):

Þessi till. er hingað komin frá hv. Nd. og mun hafa gengið óbreytt í gegnum þá deild.

Eins og sjá má af nál. á þskj. 279, mælir sjútvn. eindregið með því, að till. verði samþ. Til eru hafnarlög frá þinginu 1929, og eru í þeim bráðabirgðaákvæði um, að stj. sé heimilt að verja fé til byrjunar á hafnargerð á Skagaströnd, og auk þess ábyrgjast lán fyrir hafnarsjóðinn. Byrjun á hafnarmannvirki á Skagaströnd er í því falin, að byggja verður sjóvarnargarð út í eyju hér um bil fyrir miðri höfninni og vegalagning til að garðinum. Áætlað er, að til þessarar byrjunar muni ríkissjóður þurfa að leggja fram 50 þús. kr. á móti 75 þús. kr. framlagi til hafnarsjóði. Þetta er aðeins örlítil byrjun, því að áætlað er, að allt mannvirkið muni kosta hálfa millj. kr., þegar því verður lokið. Hinsvegar er sjóvarnargarðurinn talinn töluverð bót fyrir allskonar báta, því að dýpið er nægilegt allstórum mótorbátum, að þeir geti lagzt í hlé við garðinn.

Ég þarf ekki að lýsa með mörgum orðum, hversu þörfin er brýn á hafnarmannvirki á þessum stað; það er of augljóst mál til þess. Skipstjóri, sem hefir verið í siglingum um margra ára skeið hér við land, hefir tjáð mér, að hvergi væri hættulegri siglingaleið en austan megin á Húnaflóa, því að á því svæði eru tómar hafnleysur. Ef norðanveður brestur á á austanverðum Húnaflóa, þá er hvergi afdrep fyrir skip á þeim slóðum, og því engu að treysta til bjargar öðru en vélakraftinum og þolgæði skipsins að keppa á móti veðrinu. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að búa svo um, að einhversstaðar austan Húnaflóa myndist tryggur staður fyrir skip að lenda. Og þarna er einnig mikið uppland og mjög fiskisælt á flóanum, sem stuðlar allt að því að gera þörfina meiri fyrir höfn á þessum kjálka.

Við umr. um síldarbræðslustöð á Norðurlandi var minnzt á Skagaströnd sem einna líklegastan stað fyrir hana. En það byggist vitanlega á því, að höfn komi þar fyrst.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira að sinni, en vil aðeins lýsa því yfir f. h. n., að hún leggur til, að till. verði samþ., en með því herðir Alþingi á stjórninni um að nota bráðabirgðaákvæði hafnarlaganna frá 1929.