05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (1264)

30. mál, hafnargerði á Skagaströnd

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Hv. 1. landsk. hefir að mestu tekið af mér ómakið. Ég kvaddi mér hljóðs vegna misskilnings, sem mér fannst kenna í ræðu hv. 2. þm. Eyf., þar sem hann taldi till. gagnslausa. En þetta er ekki rétt. Að till. er sama gagn eins og öllum öðrum till., sem ætlað er að vekja menn til athugunar um að hefjast handa um framkvæmd þeirra fyrirtækja, sem líkleg eru að verða til stórra þrifa. Að Alþ. segi álit sitt á þennan hátt, er til örvunar viðkomandi sveitarfélagi, sem ræðst í talsvert stórvirki, miðað við stærð þess og efnahag, vegna þess að það telur, að það muni borga sig með aukinni atvinnu og tekjum af mannvirkinu. Ég fyrir mitt leyti álit, að þetta byrjunarstig verði til hagsældar fyrir þennan hluta héraðsins. Ég er viss um, að það flýtir fyrir því, að þarna komi upp síldarsöltun og síldarbræðsluverksmiðja. Þetta getur orðið — burtséð frá því, hvar sú síldarbræðsluverksm. lendir á Norðurl. sem ráðgert er, að verði reist á mjög nálægum tíma, og sem þessi till. er í engu sambandi við, þar sem það mál er lagt í hendur síldarútgerðarmanna; því þegar þarna er komin aðstaða til að leggja upp síld, þá verður farið að salta og þá verður ekki langt að bíða þess, að þarna rísi upp verksmiðja til að vinna afurðir úr síld. Gæti allt eins orðið, að félag myndaðist til þeirra framkvæmda. Einnig gæti vel farið svo, að ef aðstaðan yrði bætt þarna, þá kæmi þessi staður til álita við atkvgr. þá, er fram á að fara um stað handa væntanlegri síldarbræðsluverksmiðju á Norðurlandi. Síðar kemur svo til álita, hvort ráðast beri þarna í frekari framkvæmdir, og fer það vitanlega eftir þeirri reynslu, sem þessi byrjun gefur. Ég álít, að það sé hættulaust fyrir viðkomandi sveitarfélög að ráðast í þetta fyrirtæki eins og nú horfir við um árferði. Um ókomna tímann er að vísu engu hægt að spá. En frekar ber að vera bjartsýnn en svartsýnn á framtíðina.