05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (1265)

30. mál, hafnargerði á Skagaströnd

Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég er víst búinn að tala þrisvar, svo það skal vera örstutt aths., enda hafa tveir aðrir hv. þm. svarað. Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til að andmæla hv. 2. þm. Eyf., sem taldi illa forsvaranlegt að samþ. þessa till., og a. m. k. óþarft, þar sem heimild fyrir því, sem í henni felst, væri í l. En þótt svo sé, þá er samþykkt hennar enginn óþarfi, enda er þá ekki um nein ný útlát að ræða. Hv. þm. taldi þetta ekki forsvaranlegt gagnvart héraðinu, sem þarna á hlut að máli. Þessu er þegar búið að svara. En vitanlega fer það eftir þeirri trú, sem menn hafa á því, að þarna geti risið upp heilbrigður atvinnurekstur. Ef á Húnaflóa eru góð skilyrði til veiðiskapar, þá borgar þetta fyrirtæki sig. Höfnin fær tekjur með hafnargjöldum, ríkið fær útflutningsgjöld af aflanum, og sérstaklega þó með aukinni velmegun í sjálfu plássinu. — En auðvitað veltur þetta allt á fiskisældinni í Húnaflóa. Eins og hv. 1. landsk. gat um, þá eru skilyrði til hafnargerðar þarna alveg sérstaklega góð. Byrjunarframkvæmdin er aðeins sú, að fylla í grunnt skarð. Er því auðsætt, að ekki þarf mikil hafnargjöld til að bera uppi kostnað þessarar framkvæmdar, sem alls er áætluð 125 þús. kr., og jafnvel þótt hún færi eitthvað fram úr þeirri áætlun, sem einatt vill nú brenna við. — En sjái nú héraðsbúar samt sem áður sér ekki fært að leggja í þessa framkvæmd, þá er enginn skaði skeður með samþykkt þessarar till. Allt er þá í sama fari og áður var. Hv. þm. sagði, að þarna væri enginn hafnarsjóður til að leggja í þessa framkvæmd. En enginn þarf að undrast það, því hvernig ætti svo að vera, meðan engin hafnarvirki eru komin þarna upp og því ekkert til að leggja hafnargjald á? Skilyrði fyrir því, að tekjur komi, eru þau, að eitthvað sé gert og að þarna myndist atvinnurekstur, sem geti staðið undir sjálfum sér og nauðsynlegum hafnargjöldum. Og vegna hinnar góðu aðstöðu, sem þarna er, ætti ekki að vera nein hætta á slíku. Á Akranesi t. d. hefir byrjun hafnarmannvirkja orðið miklu stórfelldari og dýrari vegna hinnar óhagstæðu aðstöðu, sem þar er, og þess, hve náttúran hjálpar þar lítið til. Þar er búið að leggja mörg hundruð þús. kr. í hafnarmannvirki, og þó mikið eftir. En þó er þetta svo mikils virði, að Akranesbúar myndu áreiðanlega ekki vilja án þess vera.

Það var alveg ófyrirsynju að síldarbræðslustöðin komst inn í þessar umr. nú. Ég var svo gálaus að nefna hana á nafn, og það hefir svo orðið til þess, að þessum málum var blandað saman. Ég get þó hugsað mér; að framkvæmd þessarar till. geti haft áhrif á till., er frum eiga að koma um það, hvar verksmiðjan eigi að standa. En þó er ekki rétt að blanda þessu saman. Að ég nefndi það, var af því, að ég vildi geta þeirra vona, er menn gerðu sér um þennan stað. Og það er enginn efi á því, að ef þarna verður byggð höfn, þá verður flutt þar upp síld til söltunar og þá einnig fljótlega verksmiðja til fullrar vinnslu úr henni. Hv. þm. talaði um, að ríkissjóður væri fátækur nú og gæti því lítið lagt fram til fyrirtækja. En þessi röksemd getur alveg snúizt við. Það má eins vel segja, að féleysi ríkissjóðs hvetji til framkvæmda, sem líklegar eru til að verða til almennrar hagsældar þeim, sem að atvinnurekstrinum starfa, og bæði á þann hátt og í beinum gjöldum bæta hag ríkissjóðs. Það er víst og rétt, að ekki er annað meir til hagsbóta fyrir ríkissjóð en bætt hafnarmannvirki á heppilegum stöðum. — Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira, enda atti ég ekki rétt á öðru en aths.