05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (1267)

30. mál, hafnargerði á Skagaströnd

Frsm. (Magnús Jónsson):

Það má auðvitað segja það um hverja þáltill., að hún sé ekkert plagg í málinu. En þáltill. eru fyrst og fremst ætlaðar til að koma hreyfingu á mál og gera stj. ámælislausa fyrir það, sem hún gerir til að hrinda þeim áfram.

Menn hafa vitað það í margar aldir, að þarna nyrðra eru ágæt fiskimið. Um það þarf því ekki að þrátta. Hv. 2. þm. Eyf. segir, að stj. hafi boðið fram féð að sínum hluta fyrir mörgum árum. Ég hefi heyrt, að hæstv. fjmrh. hafi skýrt frá þessu á fundi hér í deildinni. En ég ætla, að afstöðu héraðsbúa þá hafi ekki ráðið annað en eðlileg varfærni. Ég minnist þess, að þegar höfnin hér í Rvík var byggð, voru margir á þeirri skoðun, að hún bæri sig aldrei. Sömu skoðunar munu menn þá hafa verið fyrir norðan um hafnarbætur á Skagaströnd. En nú er sá efi með öllu horfinn og allir héraðsbúar sammála um að hefjast handa um framkvæmdir, af því að nú er öllum orðið ljóst, hve mikinn aukinn atvinnurekstur myndi leiða af þessu í héraðinu. Till. er a. m. k. vonandi meinlaus, og vænti ég því þess, að hún verði samþ. og megi góðri lukku stýra.