20.11.1933
Neðri deild: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Thor Thors):

Stjskrn. á hér nokkrar sameiginlegar brtt., sem mér var falið að geta um, og mun ég taka þær fyrir fyrst. Það er þá fyrst brtt. á þskj. 60. Fyrsta brtt. er við 23. gr. Breyt. er aðeins gerð til þess að koma á samræmi við 17. gr.

Önnur brtt. er við 92. gr. og er fólgin í því, að kjósandi, sem ekki greiðir frambjóðanda í kjördæmi — eða í Reykjavík lista flokks — atkv., á kost á að geta þess á landskjörseðlinum, í hvaða röð hann óskar, að frambjóðendur flokks, sem engan landslista hefir í kjöri, komi til greina við úthlutun uppbótarþingsæta.

Þriðja brtt., við 117. gr., er tekin aftur, en önnur brtt. borin fram á þskj. 87, og kem ég að henni síðar.

Fjórða brtt. er við 129. gr. og tekur til þess, að taka skal gild atkv., sem greidd eru flokki á landslista, þó að ekki sé kosinn frambjóðandi í kjördæmi. — 5. og 6. brtt. eru aðeins orðabreyt.

7. brtt., við 149. gr., er nokkur efnisbreyt. þannig, að ásetningsbrot verði tekið fyrst, en gáleysisbrot síðar. Ásetningsbrot er stærra brot, og þykir því hlýða að taka það fyrst.

Þá kem ég að þskj. 87.

1. brtt. hefir það eitt í för með sér, að ákvæði þessarar gr. eru skýrð af 90. gr., sem vísað er til.

2. brtt. er við 117. gr.brtt. felur í sér allverulega efnisbreyt. Í fyrsta lagi, að í stað þess, að áður var ákveðið, að ef fleiri en einn frambjóðandi fyrir sama flokk eru í einmenningskjördæmum, þá skiptist landslistaatkvæðatala flokksins í kjördæminu jafnt á milli þeirra, þá er nú svo fyrir mælt, að sá frambjóðandi, sem flest fær persónuleg atkvæði í kjördæminu, fái einnig öll landslistaatkv. flokksins þar. Þetta er og alveg óhjákvæmileg breyt., ef um tvímenningskjördæmi er að ræða, því að ella má með kosningabrellum koma að frambjóðanda flokks, sem ekki hefir fengið meiri hl. í kjördæminu.

Áður var ákveðið í 117. gr., að ef í tvímenningskjördæmum eru fleiri en tveir frambjóðendur af sama þingflokki, þá skal skipta tvöfaldri landslistaatkvæðatölu flokksins á milli frambjóðenda hans í hlutfalli við persónulega atkvæðatölu þeirra. N. leggur nú til, að atkvæðatala flokksins við landslista skiptist aðeins milli þeirra tveggja, sem flest hafa persónuleg atkvæði.

Ég vil með dæmi sýna fram á, hversu ákvæði 117. gr. eins og það nú er getur verið hættulegt, ef menn vildu beita kosningabrellum: Segjum, að þrír menn af flokki A bjóði sig fram, Al, A2, A3, og tveir af flokki B, B1 og B2. Flokkur B fær meiri hl. í kjördæminu og fá frambjóðendur hans hvor um sig 599 atkv. A1 fær 40 atkv., A2 fær 20 atkv. og A3 fær 10 atkv. og A-flokkur fær 500 atkv. á landslista. Þá fengi frambjóðandi A1 40 atkv. plús 4/7 af 500x2, eða 40+5693/7 = 6093/7+ og er þá kosinn í kjördæminu, enda þótt flokkurinn hafi þar minni hl.

3. brtt., við 118. gr., tekur til þess, að sama regla skuli gilda fyrir Reykjavík eins og í kjördæmum utan hennar.

4. brtt., við 131. gr. 3. málsgr., miðar að því að samræma orðalagið við 2. málsgr. þeirrar greinar.

Síðasta brtt. frá n. sameiginlega er á þskj. 66, við 6. gr. Þetta er aðeins orðabreyt. N. þótti orðalag 6. gr. ekki sem bezt og hefir því orðað þessa gr. að nýju.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að brtt. á þskj. 70, sem minni hl. stjskrn. ber fram.

1. brtt., við 51. gr., tekur til kjörseðlanna, og leggjum við sjálfstæðismenn í n. til, að þeir verði eins og sýnishorn það, sem útbýtt hefir verið í d., ber með sér. Hér er ætlazt til, að neðan á kjörseðilinn séu teknir landslistar allra flokka og raðað eftir stafrófsröð. Þetta gerir kosninguna miklu auðveldari, og þarf kjósandi ekki annað en að krossa annaðhvort við nöfn frambjóðanda kjördæmisins eða þá við landslistann. Þetta virðist mér muni vera langbezta fyrirkomulagið, því að það minnir kjósanda á, að þó að flokkur hafi ekki frambjóðendur í kjördæminu, þá hefir hann ef til vill landslista. — Annars sé ég ekki ástæðu til að deila um gerð kjörseðilsins að þessu sinni, en líklega gefst tækifæri til þess síðar.

Þá vil ég aðeins geta þess, að 4. brtt. á þskj. 70, við 69. gr. frv., felur það eitt í sér að lagfæra ágalla, sem n., sem undirbjó frv. fyrir þingið, af misgáningi hafði ekki gætt að breyta, áður en frv. var lagt fyrir þessa hv. d.

Eins og kunnugt er, hefir drifið að mesta fjölda af brtt., og geri ég ráð fyrir að nota mér síðar þann rétt, sem ég hefi sem frsm., að fara nokkrum orðum um einstaka tillögur, bæði sem nm. og sem frsm. sjálfstæðismanna í n.