02.12.1933
Efri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (1299)

63. mál, áveitur

Páll Hermannsson:

Ef svo skyldi fara, að þessu máli yrði vísað til n. og málið kæmi frá n. aftur, þá gæti svo farið, að hv. þdm. töluðu sig dauða í málinu.

Ég verð nú að líta svo á, að satt að segja hafi stundum verið hleypt í gegnum hv. þingdeildir till., sem hafa verið allt eins veigamiklar og þessi till. er, og það án þess að þeim hafi verið vísað til n. ho að ég geri ekki mikið úr því, sem hv. landbn. fjallaði um þessa till., þá tel ég það nú samt betra en ekkert. Þó að nefndir leggi fram nál. eins og: „N. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt“, þá er engin ósköp á því að græða fyrir deildina.

Ég amast ekki við því, að málinu verði vísað til n., en álit þess ekki þörf. Ég álít, að vinnubrögðum í d. hafi ekki verið hagað með tilliti til þess, að málið gengi til n.

Ég get ekki komizt hjá fyrir mitt leyti að mótmæla einu orðatiltæki í ræðu hv. 6. landsk. Hann sagði, að sér þætti frekjulegt orðalag á till. Hann hefir vitanlega rétt til að hafa sína skoðun um það. En mér finnst, að kannske mætti segja, að orðalagið sé tvírætt, þó ég hinsvegar skilji ósköp vel, hvað í henni felst. Og þó að hún yrði samþ. án þess að hún gengi til n., þá mundu líklega engin ósköp gerast, og sízt af öllu, ef hún gengi til bráðabirgðastjórnar, sem þá yrði ekki ákaflega ör til framkvæmda.