20.11.1933
Neðri deild: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Ég ætla að byrja á því að víkja nokkrum orðum að þeirri brtt. við kosningalagafrv., sem ég og hv. 2. þm. Skagf. höfum flutt, og sem hv. dm. hafa sjálfsagt athugað. Þessi till. er á þskj. 69 og er ekki bundin við kosningalagafrumv. að öðru leyti en því, að þar kemur fram ný grein, sem ætlazt er til, að sett sé inn í frv. Efni till. er það, að ef þm. taka að sér launastörf, sem ríkisstj. veitir eða ræður veitingu á, þá verða þeir að segja af sér þingmennsku, og skal þá fara fram aukakosning, ef þm. hefir verið kosinn kjördæmiskosningu, en annars skal varamaður taka við.

Tilefnið til þessara brtt. býst ég við, að mönnum sé ljóst. Það hefir tíðkazt mjög undanfarin ár, að þm. hafa fengið launastörf af þeirri stjórn, sem þeir hafa stutt, og í því efni hefir stjórn þess flokks, sem mestu hefir ráðið í landinu undanfarin sex ár, gengið lengst. Það er kunnugt, að hér á þinginu er allmikill flokkur manna, sem hefir notað sér þingmennsku sína til þess að útvega sér vel launuð embætti. Í því sambandi vil ég geta þess, að við flm. ætlumst ekki til þess, að till. verki aftur fyrir sig og taki til þeirra þm., sem fengið hafa launastörf hjá ríkinu fram að þessum tíma, heldur ætlumst við til þess, að hún komi í veg

fyrir, að þetta geti gengið svona endalaust áfram, eða m. ö. o., að þm. geti ekki notað þingmennsku sína til þess að afla sjálfum sér og sínum flokksmönnum fríðinda fram yfir þingmennskuna sjálfa.

Það virðist vera í alla staði réttmætt, að þeir menn, sem hafa það traust í héruðum sínum eða landinu, að þeir eru kosnir sem fulltrúar á löggjafarsamkomu þjóðarinnar, fái það góð laun, að þeir verði skaðlausir af og þurfi ekki að nota aðstöðu sína til þess að krækja sér í feitar stöður. Þessi till. nær vitanlega ekki nema til þm. sjálfra og getur ekki komið í veg fyrir, að áhrifum sé beitt í þessu efni gagnvart utanþingsmönnum. Það er auðséð, að þetta ólag getur haft þær afleiðingar, að ríkisstjórn í meiri hl. getur aukið fylgi og rýrt sjálfstæði sinna manna með fríðindum, og í öðru lagi getur ríkisstj., sem vill nota sér aðstöðu sína á þennan hátt, lamað heilbrigða andstöðu og gagnrýni manna, sem eru í andstöðuflokki við hana. Þetta viljum við koma í veg fyrir. Það má nú ef til vill segja, að ekki sé þannig frá þessu gengið, að ekki sé hægt að fara í kringum ákvæði till., þar sem í henni eru tvennskonar undantekningarákvæði. Hún nær ekki til þess, þegar embættismaður flyzt úr einu embætti í annað í sömu stjórnargrein, t. d. ef sýslumaður flyzt milli sýslna og læknir úr einu læknishéraði í annað. Sömuleiðis nær ákvæðið ekki til þeirra, sem sökum sérfræðiþekkingar taka að sér um stundarsakir starf, sem þeir eru öðrum færari til að vinna. Hér er aðeins átt við þá menn, sem eru sérfræðingar innan sinnar stéttar, eins og t. d. læknir, sem lagt hefir stund á einhvern sérstakan sjúkdóm.

Ég vil nú ekki fjölyrða um þetta frekar á þessu stigi málsins, en ætla aðeins að minnast á síðustu grein þessarar brtt., að það verður nokkuð ójöfn aðstaða þeirra þm., sem verða fyrir barðinu á þessari till. Þeir, sem eru kosnir hlutfallskosningu, verða að sætta sig við, að varamaður komi í staðinn, en kjördæmakosnir þm. geta boðið sig fram við nýjar kosningar.

Að endingu vil ég segja nokkur orð um þær brtt. aðrar, sem hér liggja fyrir. Mig undrar, að stjskrn. skuli koma með brtt. um þýðingarmestu atriði frv., sem samþ. var með góðu samkomulagi við 2. umr.

Aðalbrtt. eru um úthlutun uppbótarþingsæta, og virðist mér sem stjskrn. fari inn á þá braut, að halda sér eingöngu við atkvæðatöluna. Langbezta leiðin var sú, sem var farin í stjskrfrv., sem ríkisstj. lagði fyrir þingið, að þeir, sem hefðu „hlutfallslega hæsta atkv.tölu við kjördæmakosningu, komi fyrst til greina við úthlutun uppbótarþingsæta, eða m. ö. o., að þeir, sem stæðu næst því að verða kosnir í kjördæmi, kæmu fyrst til greina. Ég get miklu frekar fallizt á till. á þskj. 86, en býst við að fá tækifæri til að ræða hana seinna.

Það var eitt atriði í till. þeim, sem hv. síðasti ræðumaður mælti fyrir, sem ég held, að sé að mörgu leyti athugavert, og er það ákvæðið um að hafa kjördagana tvo. Ég lít svo á, að heppilegast sé að hafa sem fastast skipulag á þessum málum og reyna að koma í veg fyrir, að nokkur glundroði komist þar að. Ég hygg, að það myndi einmitt skapa glundroða og óánægju við kosningar að hafa kjördagana tvo. Að vísu er það rétt, að aðstaða hjá sveitafólki til þess að sækja kjörfund getur verið erfið, en mér virðist svo greitt úr þessum annmörkum í frv. eins og það liggur fyrir nú, þar sem í því eru ákvæði um, að stofna megi nýjar kjördeildir, að ekki virðist ástæða til þess að ganga þar inn á víðara svið. Líka mætti láta kjörfund standa allan daginn, til þess að hægara sé fyrir fólkið að skiptast á að fara að heiman.

Ég fjölyrði svo ekki um þetta frekar að þessu sinni, en mun sýna afstöðu mína til hinna einstöku breyt. með atkv. mínu.