04.12.1933
Neðri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (1332)

77. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Pálmason [framh.]:

Það eru liðnir 4 eða 5 dagar síðan mál þetta var síðast á dagskrá. Stóð þá þannig á þegar fundi var slitið, að ég endaði í miðri ræðu. Verð ég því að biðja afsökunar á því, þó að ekki verði fullt samræmi á milli þessa hluta ræðunnar, sem ég flyt nú, og þess hlutans, sem ég flutti fyrir nokkrum dögum.

Ég hefi skilið það svo, að það, sem fyrir þeim hv. þm. vakir, er framlengja vilja dýrtíðaruppbótina óbreytta, sé aðallega tvennt. Fyrst og fremst það, að laun ýmissa starfsmanna ríkisins, sem standa fyrir utan launalögin, séu of há, og í öðru lagi, að laun ýmissa embættismanna ríkisins séu svo lág, að hlutaðeigandi embættismenn geti ekki lifað af þeim. Það er vitanlega rétt, að laun ýmissa starfsmanna, sem fengið hafa störf nú hin síðari ár og ekki heyra undir launalögin. eru of há. En þess ber þá jafnframt að gæta, að þau eru ákveðin af stjórn, sem ég tel, að hafi starfað öðruvísi en stjórnir eigi að starfa, og sé því ekki um annað að ræða en að lækka þau til samræmis við önnur hliðstæð laun. Hina ástæðuna, að embættismenn geti ekki lifað á launum sínum án þess að fá að halda dýrtíðaruppbótinni óbreyttri er rétt að athuga dálítið nánar. Það er þá fyrst, að það eitt, hvað menn þurfa til þess að lifa af, á ekki saman nema að nafninu til. Mismunurinn á því, hve dýrt er að lifa á hinum ýmsu stöðum landsins, er mikill, svo mikill, að þar á milli er mikið djúp staðfest. Hæstv. forsrh. hélt því fram um daginn, að laun ýmissa embættismanna ríkisins væru svo lág, að væri dýrtíðaruppbótin tekin af þeim, þá myndu þeir hreint og beint kveljast. Þessu á ég bágt með að trúa, og byggi ég það á því, að það er alkunna, að hvenær sem eitthvert launað starf losnar, hvort heldur sem það er í kaupstað eða kauptúni, þá drífa að umsóknir um það úr öllum áttum. Þetta bendir til þess, að fólk vilji komast inn í launastéttina, en það myndi ekki sækja það svona fast, ef það teldi sig eiga von á að kvelja bæði sig og sína. Þegar ákveðin eru laun manna, þá teldi ég sanngjarnt að athuga ástæður þeirra. Það getur verið um tvo menn að ræða, sem eigi rétt til sömu launa, en munurinn aðeins sá, að annar sé einhleypur, en hinn fjölskyldumaður. Hér mætti gera nokkurn mismun á. Það mætti ákveða fjölskyldumanninum nokkuð hærri laun, með tilliti til ómagafjölda hans. Annars er það svo, að laun starfsmanna ríkisins þarf að miða við laun þeirra, sem framleiða.

Skal ég svo ekki hafa þessi orð mín fleiri að þessu sinni, því að ég býst líka við, að mér gefist tækifæri til þess síðar að ganga frekar inn á þann ágreining, sem um mál þetta er.