04.12.1933
Neðri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (1334)

77. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Ég skal með örfáum orðum svara hv. 1. þm. Reykv. Það voru að vísu ekki mörg atriði í ræðu hans, sem ég þarf að athuga. Hv. þm. vildi halda því fram, að ekki gæti komið til mála, að launakjör embættismanna og framleiðenda væru svipuð. Hann tók það að vísu réttilega fram, að kjör framleiðendanna væru misjöfn, en laun starfsmanna ríkisins þyrftu að vera jöfn. Nú er það kunnugt mál, að framleiðendur hér á landi hafa aldrei átt við verri kjör að búa en nú á hinum síðustu árum. En það eru framleiðendurnir og engir aðrir, sem eiga að borga brúsann. Þeir þurfa að halda uppi hinni fjölmennu launastétt í landinu. Þess vegna er sjálfsagt að miða kjör launastéttarinnar að meira eða minna leyti við kjör framleiðendanna á hverjum tíma, en á kjörum þessara tveggja stétta er geysilegur munur eins og nú standa sakir. Þess vegna tel ég það ekki sæmilegt, að þing það, er nú situr, sem að sjálfsögðu á að hafa auga yfir þjóðlífinu í heild, samþ. nokkra hækkun á launum á hvaða sviði sem er. Af þessari ástæðu eingöngu greiði ég atkv. á móti þeirri till., sem hér liggur fyrir. Eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram, voru lögin um dýrtíðaruppbótina samþ. á þinginu 1919 og eiga að gilda til ársloka 1933. Það er þess vegna á valdi þessa þings að ákveða, hvort dýrtíðaruppbótin á að gilda lengur en lögin mæla fyrir.

Hv. 1. þm. Reykv. hélt því fram, að dýrtíðaruppbótin væri nú ekki orðin lægri en hún er m. a. fyrir það, að verð á landbúnaðarafurðum á innlendum markaði væri óeðlilega hátt. Ég skal ekki fara langt út í þetta mal, en ég held þó, að verði af þeim vörum sé alls ekki haldið eðlilega háu; a. m. k. er hagur framleiðenda til sveita svo slæmur, að hann er ekki sambærilegur við kjör launastéttarinnar í landinu, og þó miðað sé við hag bænda á þessu ári; sem mun vera eitthvað betri en á síðasta ári, þá er þó aðstaðan sú, að kjör þeirra eru miklu verri en allra þeirra, sem taka laun sín í peningum. Þess vegna get ég ekki sem fulltrúi framleiðenda greitt atkv. með nokkurri þeirri till., sem gengur í þá átt að auka þetta ósamræmi.

Ég vænti, að það sé hv. þdm. ljóst, að það hefir verið svo hin síðari ár bæði til sjávar og sveita, að allir þeir, sem nokkur ráð hafa haft, hafa kappkostað að búa börn sín undir það að geta komizt í launaðar stöður. Þetta sýnir, að almenningsálitið telur þar álitlegasta framtíðarmöguleika og að þar sé bezt og öruggast að vera. Annars þýðir líklega ekki mikið að þrefa um þessa till., hv. þdm. munu sennilega þegar hafa ráðið afstöðu sína til hennar. Hinsvegar vildi ég ekki láta hana fara út úr d. an þess að gera grein fyrir afstöðu minni til hennar.