18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (1354)

38. mál, undanþága frá áfengislöggjöfinni

Magnús Jónsson:

Ég þarf í raun og veru engu við það að bæta, sem hv. 1. flm. sagði í sinni framsöguræðu. Hann gerði svo rækilega grein fyrir tilverurétti þessa frv., að sú eina tilraun, sem gerð hefir verið til andmæla, tilraun til að hnekkja þjóðaratkvgr., hefir algerlega mistekizt. Hv. 1. flm. tók það réttilega fram, að nú væri enginn tími, enda ástæðulaust að vera að ræða hin almennu rök með og móti banni. Það er búið að kveða upp úrskurðinn um þá spurningu. Það gerði þjóðin sjálf fyrsta vetrardag. Hin almennu rök um bannið voru rædd, þegar það var sett á. Þau hafa síðan oftsinnis verið rædd meðan bannið gilti. Þá var um það deilt, hvort ætti að vera bann eða ekki bann, vín eða ekki vín.

Ég skal játa, að ég var bannmaður, þegar bannið var sett. Þrátt fyrir alla galla, sem því fylgja, að grípa til þeirra neyðarúrræða að þetta sjálfstæði manna, þá var ég með því, að það væri gert í það sinn, ef með því tækist að hindra innflutning á víni og eyða drykkjuskap í landinu. Þá ætlaði ég að þola þvingunarlögin á þjóðina, og ég mundi standa enn við sömu skoðun, ef hægt væri með lögum algerlega að þurrka landið. Ég verð þó að segja það, að ég er nú orðinn ennþá meiri frelsismaður en ég áður var. Ég er orðinn ennþá meiri andstæðingur þeirrar stefnu, sem á sem flestan hátt vill leggja hömlur á frelsi einstaklinganna. Þó mundi ég í þessu tilfelli fylgja þeirri stefnu, ef að fullu gagni mætti verða. En um það er ekki hér að ræða. Það er búið að þrautreyna bann á víni, bæði hér og í öðrum löndum. Við höfum haft sölubann í 10 ár, algert aðflutningsbann í 8 ár og síðast í nokkur ár bann með undanþágu á sumum tegundum vína. Á öllum þessum árum höfum við alltaf verið að reyna að endurbæta þessa löggjöf. Það hefir verið reynt að brasa í brestina, sem komið hafa fram á lögunum, reynt að kítta í sprungurnar, en ekkert hefir dugað. Þessar tilraunir hafa hvergi dugað, hvorki hjá okkur eða öðrum þjóðum, sem við hið sama hafa átt að stríða. Ég held því, að reynslan bendi til þess ótvírætt, að vænst sé að afnema þetta bann, sem ómögulegt reynist að halda.

Finnar og Norðmenn hafa nú þegar afnumið bannið hjá sér. Bandaríkin eru í þann veginn að afnema það. Hefi ég varla trú á því, að sú mikla þjóð sækti svo fast að afnema þessi lög, ef hún teldi sig ekki vera búna að fá óskeikula reynslu fyrir því, að lögin séu óframkvæmanleg. Þá er það aðeins spurningin, hvort við einir eigum að vera þeir sauðir að taka ekkert tillit til reynslunnar, hvorki okkar eða annara þjóða reynslu. Hjá okkur, eins og öðrum þjóðum, sem hafa haft bannlög, er að ræða um tilraun, sem hefir mistekizt, og sem þess vegna á að hætta við. Það á því að ræða um þetta frv. alveg án tillits til þess, hvort menn álíta heppilegt að þurrka landið eða ekki. Ég býst við, að það séu ákaflega margir, sem líti á þetta mál þannig, að þessi tilraun hafi sýnt, að það verður að hætta. Mér finnst ákaflega sláandi að sjá það, hvernig þær vonir hafa reynzt, sem ýmsir gerðu sér um Spánarsamningana, að menn mundu eftir það láta sér nægja með hina veikari drykki, Spánarvínin, — en það varð alveg öfugt. Það endurtók sig hér gamla sagan, að meðan eitt tré í aldingarðinum er bannað, þá er mest keppikefli að eta af því. Meðan ein tegund drykkjar er bönnuð, þá er endilega sjálfsagt að ná í hana. Ef litið er nú á þetta frv. okkar hv. 2. þm. Rang. æsingalaust, eins og ég veit, að hv. þdm. yfirleitt vilja gera, þá kemur í ljós, að frv. fer raunar fram á ákaflega litla breyt. á núgildandi lögum. Það á ekki að breyta áfengislöggjöfinni, það á ekki að fjölga útsölustöðum, ekki að leyfa fleiri aðilum að flytja inn vín, ekki að rýmka um veitingu vína eða slá af kröfunum um almenna hegðun í sambandi við vínnautn, það á aðeins, í stað þess, sem nú er aðeins heimilt að flytja inn vissar tegundir, að leyfa að flytja inn hvaða tegundir vína sem er. Þess vegna er ég alveg undrandi yfir því, hve þetta frv. hefir mætt þéttri andstöðu, þegar þar við bætist, að eigi er hægt að halda landsmönnum frá hinum bönnuðu drykkjum. Þegar, þrátt fyrir bann á þessum drykkjum, þeir eru bæði fluttir inn og búnir til í landinu; þegar breytingin verður í raun og veru ekki önnur en sú, að ætlazt er til, að þess víns verði neytt á löglegan hátt, sem áður var notað óleyfilega, og að ríkissjóður fái nú tekjur af þeim vínum, sem áður komust inn tollfrítt eða voru búin til. Breytingin verður þá aðeins þessi: Þeir drykkir, sem hafa verið löglegir, halda áfram að vera það, en þeir drykkir, sem hafa verið ólöglegir, verða leyfðir.

Það voru fáein atriði í ræðu hv. 2. þm. S.-M., sem ég vildi aðeins víkja að. Hv. þm. komst svo að orði, að það væri lögfræðingur og prestur, sem bæru þetta frv. fram. En þar sem ég þykist vita, að hann unni þessum stéttum mikið, þá vona ég, að honum sé það nokkur trygging, að ekki sé verið að fara fram á neitt ljótt með þessu frv.

Ég get fyrir mitt leyti alls ekki samsinnt því, sem hv. þm. sagði um þjóðaratkvæði. Hv. þm. vitnaði í þau ummæli stjskr., að þm. væru bundnir við sannfæringu sína og ekkert annað. Það er vitanlegt, að hver þm. hefir rétt til þess að greiða atkv. um þetta mál eins og þeir vilja, þrátt fyrir þjóðaratkvæðið. En mér fannst hv. þm. fara nokkuð einkennilega að í röksemdafærslu sinni um þetta. þm. hafa sjálfir, með sínu skoðanafrelsi til þess að ákveða mál eins og þeir vilja; afgr. þetta mál á síðasta þingi þannig, að því skyldi skotið undir úrskurð þjóðarinnar. Og eftir að þm. hafa gert þetta, lít ég svo a, að þeir séu móralskt bundnir við að fara eftir þessum úrslitum. Það má náttúrlega segja, að ég segi þetta nú af hví, að úrslitin urðu eins og þau urðu. En ég mundi beygja mig fyrir slíkri atkvæðagreiðslu. T. d. ef sami meiri hl. og nú er með afnámi bannlaganna, hefði tjáð sig fylgjandi bannlögunum og fram hefði komið frv. um að afnema þau, þá hefði ég greitt atkv. móti því. Ég greiddi atkv. með því að skjóta málinu undan mínum dómstól til annars dómstóls, æðri dómstóls, þess, sem gefur okkur sitt umboð, og úr því ég gerði það, mundi ég taka því mannlega og hlíta þeim úrskurði, þó hann væri annar en ég legði á málið.

Hv. þm. fór nokkuð út í það, hversu mismunandi úrslitin hefðu orðið í mismunandi kjördæmum, og var að reyna að draga af því ýmsar ályktanir. Ég álít ákaflega óheppilegt að blanda kjördæmunum nokkuð inn í þetta mál. Ég álít, að það hafi verið mistök í þessari atkvæðagreiðslu, að ekki skyldi hafa verið svo ákveðið, að talið væri upp á einum stað. Því þegar máli er skotið undir atkv. þjóðarinnar, er því í rauninni ekki skotið undir sérhvert kjördæmi, heldur þjóðina í heild. Þessi atkvgr. átti að fara fram eins og landskjör, að talið væri upp á einum stað. Þetta hefði að mörgu leyti komið í veg fyrir ýmiskonar óþægindi, sem stafa af því, að talið er upp á mörgum stöðum. 1908 var talið upp í kjördæmunum, en það var af því, að sú atkvgr. fór fram í sambandi við almennar þingkosningar. Ég vonast til, að næst þegar þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram, þá verði ekki steytt á sama skerinu, heldur verði talið upp í einu lagi.

En út af þeim ályktunum, sem hv. þm. vildi draga af útkomunni í einstökum kjördæmum, þá held ég, að það sé misskilningur að halda, að atkvgr. hafi farið eftir því, hvað bannlaganna hafi verið vel gætt á hverjum stað. Ég býst við, að öllum komi saman um það, að hvergi nokkursstaðar á landinu sé eins mikið gert til þess að gæta bannlaganna eins og í Reykjavík. Það er hvergi á landinu eins miklu liði á að skipa til þess og hvergi eins vandlega skoðað í skipum og í farangur manna, og allt upphugsanlegt gert til þess að hafa upp á leynisölum og bruggi. En hitt er annað mál, að brotin geta verið fleiri í Reykjavík en annarsstaðar, af því að hér er margmennið svo mikið. Ég vil minna hv. þm. á, að það, hvað mörg brot komast upp, getur verið vottur um góða löggæzlu. Það þarf ekki að vera, að laganna sé bezt gætt þar, sem enginn er tekinn fyrir lögbrot. En það er rétt og er ekki nema eðlilegt, að bannlögin hafi enn mest fylgi þar, sem þau hafa minnst verið brotin. Þetta er í samræmi við það, sem ég hefi tjáð vera mína skoðun. Hefðu bannlögin reynzt vel, þá er ég sannfærður um, að ekki hefði verið farið fram á að afnema þau.

Hv. þm. taldi þetta form, sem við flm. höfum valið þessu máli, að því leyti stórgallað, að með því væri, eins og hann komst að orði, allar gáttir opnaðar á þess að nokkrar skorður væru settar við óheppilegri notkun áfengis. Mig stórfurðar á þessum ummælum hv. þm., þar sem við berum ekki fram neina breyt. á áfengislögunum. Við förum ekki fram á neina breyt. aðra en þá, að bæta við 5–6 tegundum af víni, en allar skorður, sem fyrir eru við misbeitingu þess, eiga að standa. Það er því ósanngjarnt að bera okkur það á brýn, að við ætlum að kippa öllum skorðum undan. Hv. þm. talaði líka um það, að við ættum að sýna minni hl. svo mikla sanngirni að lofa þeim að vera með í að ákveða, hvernig áfengislögunum yrði hagað í framtíðinni. Ég þykist vita, að ekkert sé því til fyrirstöðu og að stj. muni hafa þá menn í ráðum með sér, sem mest hafa beitt sér fyrir bindindisstarfsemi í landinu.

Hv. þm. var að tala um það, hvernig skoðunarbræður okkar flm. hefðu komið fram við bannlögin. Við flm. höfum báðir verið bannmenn. Það fyrsta, sem ég kom fram í opinberum málum, var, að ég veitti banninu mikið fylgi. Þá var bannið komið á og mér fannst sjálfsagt að veita því allt það lið, sem ég gat. En hitt er annað mál, hvort maður á að loka augunum fyrir því, þegar tilraunin getur ekki lánazt. Ég vil því vísa frá mér öllum dylgjum í þá átt, að ég vilji reyna að draga stoðirnar undan banninu. Það er fjarri því.

Ég skal ekki fara mikið út í það, hvaða afleiðingar það muni hafa, ef bannið er afnumið. Ég held, að afleiðingarnar verði litlar. Ég hefi ekki neina trú á því, að upp rísi nein gullöld, bruggið hverfi og allar tilraunir til að smygla. En ég hefi heldur ekki trú á því, að áfengisflóð renni yfir landið. En úr sögunni munu hverfa ódýrar tegundir af leiðinlegu víni, sem menn helzt kaupa til þess að drekka sig fulla, og í staðinn koma sterkari drykkir, menn verða fullir af hvorutveggja, en ég hefi aldrei séð neinn mun á því, hvort menn eru fullir af Spánarvínum eða brennivíni. En ef þessi vín væru seld með svipuðu verði og tíðkast í okkar nágrannalöndum, þá getur verið, að smygi mundi að miklu leyti hverfa, og þær tekjur, sem eiga að renna í ríkissjóð, mundu þangað koma.

Ég get ekki skilið, hvernig þau rok hv. þm. geta staðizt, að brugg muni vaxa við það, að sterkir drykkir væru leyfðir til landsins. Innlent brugg byrjaði vegna þess, að þessi vín voru bönnuð. Þess vegna finnst mér það vera rökrétt afleiðing, að afnám bannsins muni draga úr brugginu, og ég fyrir mitt leyti er ekki í vafa um, að það muni gera það smám saman. Ég sé heldur ekki, að við séum að gefa neinar ávísanir á hv. þm. og aðra, sem hafa beitt sér fyrir bindindismálum, þó við látum í ljós sem okkar skoðun, að bindindisstarfsemi muni aukast. Við drögum þá ályktun einungis vegna þess, að bindindisstarfsemin dofnaði við það, að bannið komst á. En að starfsemin hefir glæðzt aftur, stafar af því, að bannið hefir ekki reynzt öruggt. Og ég þykist viss um, að nú muni bindindisstarfsemin glæðast enn meir. En ég er ekki með því að gefa ávísanir á neinn, set þetta bara fram sem mína skoðun, ályktun, dregna út frá eðlilegum forsendum. Að ég á síðasta þingi og aftur nú hefi horfið að því ráði að gerast meðflm. að afnámi bannlaganna, stafar af því, að ég tel þessa tilraun hafa misheppnazt og að hún geri mikinn siðferðislegan skaða í landinu. Ég tel líka óréttlátt að svipta ríkissjóð þeim tekjum, sem hann í rauninni ætti að hafa, þó það sé fyrir mér aukaatriði, og að lokum er ég þeirrar skoðunar, að skaðlegur drykkjuskapur muni verða minni í landinu eftir að búið er að afnema bannlögin. Ég hefi aldrei séð eða heyrt, að bannlögin hafi bjargað nokkrum manni, sem fer sér að voða út af víni. Sú sorglega staðreynd er, að þeir ofdrykkjumenn, sem hafa gert sér verulegan áberandi skaða við vínnautn, hafa gert það þrátt fyrir bannið. Þeir, sem bannið hefir haldið frá vínnautn, eru helzt hinir rólegu borgarar, sem hafa gaman af því að smakka vín öðruhverju, en vilja ekki brjóta bannlögin til þess.

Ég trúi því, að ef bannlögin verða afnumin og innflutningur eykst, þá muni menn hætta að smygla. En af því að þessir menn mundu dreypa í vínið við og við, á þess að nokkur vissi um það í þjóðfélaginu, þá gæti verið, að hagskýrslur gætu sýnt, að drykkjuskapur hefði aukizt, þó að enginn gæti séð það. Í Englandi er mikil vínnautn eftir hagskýrslum að dæma, en ég hefi aldrei heyrt, að Englendingar væru nein sérstök drykkjuþjóð. Þetta stafar af því, að þar er svo mikill fjöldi manna, sem án þess að vera drykkjumenn neyta einhvers víns á hverjum degi.

Mér fyndist það ákaflega illa við eigandi, ef Alþingi vildi ekki beygja sig fyrir þjóðaratkvgr., sem það sjálft hefir látið fara fram. Ég býst við, að það yrði til þess, að slíkar atkvgr. yrðu hafðar að litlu og sennilega ekki farið út í það að skjóta málum til þjóðarinnar. Og það teldi ég illa farið, því það fer vel á því, þegar mál eru þannig, að þau verða ekki að flokksmálum og þess vegna erfitt að vita, hvaða fylgi þau hafa, að skjóta þeim undir úrskurð þjóðarinnar.