21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

2. mál, kosningar til Alþingis

Vilmundur Jónsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 75 um að færa hinn almenna kjördag fyrir alþingiskosningar lítið eitt fram, þannig, að hann verði fyrsta sunnudag eftir 15. júní, í stað fyrsta sunnudag eftir 1. júlí, eins og lagt er til í frv. Eins og kunnugt er, hefir það verið aðalkrafa Alþfl. að hafa kjördag að haustinu, og vissulega er það yfirleitt heppilegasti tími fyrir verkafólk í kaupstöðum til að kjósa. Raunar hefir verið lögð nokkuð mismunandi áherzla á haustkosningar innan Alþfl., og hvergi til jafns við það, sem á sér stað í Rvík. Er því og svo varið, að kjördagur að hausti er sérstaklega heppilegur fyrir verkafólk í Rvík, en verkafólk úti um land getur hinsvegar víða fellt sig eins vel við annan kjördag. Það er einnig kunnugt, og á því er fullur skilningur innan Alþfl. að haustkosningar geta verið hættulegar úti um hinar dreifðu byggðir landsins, jafnvel þó að sú breyting komist nú á, að fjölgað verði kjörstöðum með því að skipta hreppum í fleiri kjördeildir en nú tíðkast og eftir því sem staðhættir krefjast. Bæði fyrir þetta og eins hitt, að hvorugur hinn þingflokkurinn hefir viljað aðhyllast haustkosningar, svo að um það þýðir ekki að ræða, þá reyni ég nú að fá hv. þdm. til að fallast á þessa litlu breyt., þó að mér tækist ekki að fá hv. meðnm. mína til þess. Þessi breyt. mundi gera þátttöku fjölda verkamanna í kosningum ólíkt auðveldari en hún yrði með kjördegi eftir 1. júlí og án þess að verða til baga öðrum stéttum. Um mánaðamótin júní og júlí fer fjöldi verkafólks, jafnvel svo þúsundum skiptir, burt frá heimilum sínum víðsvegar í atvinnuleit, og eru einmitt margir nýfarnir 1. júlí. Aftur á móti stendur öðruvísi á um miðjan júní og næstu daga þar á eftir. Þá eru jafnvel flestir sjómenn heima hjá sér, því að þá er lokið ísfiskveiðum, en síldveiði ekki byrjuð. En til síldveiðanna leitar fjöldi verkafólks. Það væri því ólíkt heppilegra fyrir sjómenn og annað verkafólk að fá að kjósa fyrsta sunnudag eftir 15. júní, þ. e. einhvern tíma í vikunni frá 16. til 22. júní, heldur en hálfum mán. síðar. Það má að vísu segja, að með utankjörfundarkosningu sé hægt að neyta kosningarréttar síns fyrir hinn almenna kjördag, ef kjósandi veit, að hann verður ekki heima á kjördegi. En sá réttur jafnast ekki til fulls við þann möguleika að kjósa á kjörfundi. Það er þannig kunnugt, að slík fyrirframkosning hefir ekki reynzt jafntryggileg og kosningar á kjörfundi. Því fólki, sem aðstoðar þarfnast, kemur hún og að engu gagni, því að ekki er heimilt að veita kjósendum aðstoð við kosningar utan kjörfundar. Menn forðast því í lengstu lög að neyta kosningarréttar síns á þennan hátt, þar sem aðstaðan er að öllu leyti verri en við hinar venjulegu kosningar. Eins og kunnugt er, ræðst verkafólk oft til brottferðar með örstuttum fyrirvara. Fólk, sem e. t. v. hefði ekki látið sér detta í hug, að það færi að heiman fyrir kjörfund, er ráðið í vinnu á fjarlægum stað og þarf að fara samdægurs. Það hefir e. t. v. ekki nema svo sem 3 klst. eða þaðan af minni frest til þess að búa sig að heiman og ráðstafa heimili sínu. Þegar þannig stendur á, er vel hægt að skilja það, að kjósandi sá, sem í hlut á, verði að láta það sitja á hakanum að kjósa. Auk þessa er alltaf ókostur að þurfa að kjósa um frambjóðendur strax, kannske samdægurs eða á öðrum degi eftir að framboðsfrestur er útrunninn. Margir kjósendur hafa þá haft of stuttan tíma til þess að átta sig á kosningunni og gera upp á milli frambjóðenda. Þeir hafa ekki haft tækifæri til þess að vera á framboðsfundum, þar sem stefnumálin hafa verið flutt og túlkuð, né til að búa sig undir kosninguna að öðru leyti. Ef þetta væri ekki svo, væri kosningabaráttan til lítils.

Ég er sannast að segja undrandi yfir því, ef hvorugur flokkurinn, framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn, geta fallizt á þessa brtt. mína. Það eina, sem fram hefir verið borið sem rök á móti henni, er það, að erfiðara sé fyrir frambjóðendur að ferðast um héruð landsins á þessum tíma heldur en hálfum mánuði seinna. Þetta er hégómleg umhyggja fyrir frambjóðendunum, sem hvort sem er þurfa að leggja svo mikið á sig, og raunar aðeins firra. Náttúrlega getur komið rigning um miðjan júní, svo mikil, að erfiðara verði fyrir frambjóðendur að sækja þingmálafundi, en slíkt getur alveg eins komið fyrir 1. júlí eins og hálfum mánuði fyrr. Þegar því þessi mótbára er lögð á móti því hagræði, sem með þessari breyt, er hægt að gera e. t. v. þúsundum kjósenda, þá er auðséð, hversu sjálfsögð brtt. mín er.

Ég mun svo ekki eyða fleiri orðum um þessa brtt. Ég vona, að hún verði ekki gerð að flokksmáli og að nægilega margir hv. þm. úr öllum þingflokkum sameinist um að samþ. hana.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að þeirri brtt. á þskj. 86, frá hv. þm. V.-Húnv. o. fl., sem sérstaklega skiptir máli fyrir minn flokk, og það er 4. brtt. Vil ég einkum minna á það, sem kunnugt á að vera, að krafan um landslista kom frá Alþfl. á síðasta þingi. Þegar sú krafa var borin fram, var ætlazt til þess, að miðstjórnum stjórnmálaflokkanna skyldi með öllu frjálst að ráða um skipun frambjóðenda á landslista sína. Þetta mætti síðan nokkurri mótspyrnu innan stjskrn. á síðasta þingi. Kom þar fram sú till. um skipun landslista, að öll sæti, eða a. m. k. 10 efstu sæti hvers lista, skyldu skipuð frambjóðendum viðkomandi flokks í kjördæmum utan Rvíkur. N. reyndi þá að fara miðlunarveg milli þessara tveggja till., með því að leggja til, að annarhver frambjóðandi í 10 efstu sætum hvers lista skyldi vera í kjöri fyrir flokk sinn í kjördæmi utan Rvíkur. Það var á hvers manns vitorði, að í þessari miðlunartill., sem samkomulag varð um í stjskrn., fólst það, að að öðru leyti skyldi skipun listans vera á valdi viðkomandi flokksstjórnar. Hún átti að vera frjáls um niðurskipun á listanum, með þessari einu takmörkun, sem í stjskr. skyldi felast. Þessi miðlunartill. var samþ. í stjórnarskrármálinu á síðasta þingi, og veit ég, að allir hv. deildarmenn hljóta að muna það samkomulag, sem ég hefi hér minnzt á. Við meðferð málsins í hv. Ed. var gerð tilraun til að rifta þessu samkomulagi með brtt. líkri þeirri, sem hér liggur fyrir. En þá lýstu sumir hv. þdm. Ed. því yfir, að þeir gerðu það að skilyrði fyrir atkv. sínu með stjskrfrv., að sú till. yrði felld og ekki hvikað frá því samkomulagi um afgreiðslu málsins, sem náðst hafði. Reið það þeirri till. að fullu. Krefst ég þess fyrir hönd flokks míns, að þetta samkomulag verði nú ekki heldur svíkið.

Að endingu verð ég, þó að mér þyki leiðinlegt, að koma því upp um hv. þm. V.-Húnv., sem með svo miklu yfirlæti hefir talað um lélegt starf þeirrar n„ sem vann að undirbúningi kosningalagafrv., að hann hefir legið yfir því marga daga að semja brtt. við eina gr. þess, sem leiðir það eitt í ljós, að hann botnar hvorki upp né niður í þeirri gr„ hvað þá í frv. í heild sinni. Það er bersýnilegt á 1. mgr. 117. gr., að okkur, sem frv. sömdum, hefir ekki dottið í hug nein hlutfallskosning í tvímenningskjördæmum. Þar er greinilega tekið fram, að ef einn frambjóðandi í einmenningskjördæmi er í kjöri fyrir flokk og tveir í tvímenningskjördæmi — sem undantekningarlítið mun eiga sér stað, eigi frambjóðendurnir að fá öll þau atkv., sem landslista flokksins eru greidd sérstaklega í því kjördæmi, og getur engin hlutfallskosning orðið úr því.

Tvær næstu málsgr. eru aðeins innskot um það, hvernig fara eigi að í þeim undantekningartilfellum, ef fleiri frambjóðendur en einn eru í kjöri í einmenningskjördæmi og fleiri en tveir í tvímenningskjördæmi fyrir sama stjórnmálaflokk. Ég vona, að hv. þm. (HJ) geti skilið þetta, þegar búið er að segja honum það, einkum ef hann hugsar sig um í nokkra daga í viðbót. Að við tókum þessar tvær málsgr. út og settum önnur ákvæði í staðinn, var ekki til þess að koma í veg fyrir hlutfallskosningar yfirleitt í tvímenningskjördæmum, heldur af því, að út úr þessu gat orðið villa, ef fleiri yrðu í kjöri en kjósa ætti þm.

Ég skal, til að útskýra þetta betur, með leyfi hæstv. forseta lesa upp 1. málsgr. 117. gr.: „Til þess að finna, hver frambjóðandi eða frambjóðendur ná kosningu í kjördæmi, þar sem kosið er óhlutbundnum kosningum, skal leggja við persónulega atkvæðatölu hvers frambjóðanda tölu þeirra atkvæða, sem í kjördæminu hafa fallið á landslista þess stjórnmálaflokks, sem frambjóðandinn eða frambjóðendurnir eru í kjöri fyrir.“ M. ö. o., ef Hannes Jónsson er í kjöri fyrir V.-Húnv. og segjum kosinn fyrir persónulega verðleika af nokkuð mörgum kjósendum Framsf., sem e. t. v. er nú undir hælinn lagt, þá fær hann auk þess með tölu öll atkv., sem á landslista flokksins falla. Ef þetta væri tvímenningskjördæmi, þá fengi hvor frambjóðandinn um sig fulla tölu atkv., sem á landslistann falla. Það gæti nú komið fyrir, að í V.-Húnv. yrðu fleiri í kjöri fyrir Framsfl. en Hannes Jónsson, og fyrir því líka áttu þessar tvær málsgr., 2. og 3. málsgr. 117. gr., að gera. En það skal játað, að þær voru ekki nægilega vel hugsaðar, svo að fyrir væri girt, að úr þessu gæti orðið villa, ef atkv. féllu mjög misjafnt, og þess vegna gerum við það að till. okkar, að málsgreinunum verði kippt í burt, eins og brtt. okkar bera með sér.

Ég vona, að okkur, sem undirbjuggum frv., fyrirgefist þessi litla villa í jafnlöngum og flóknum bálki, þegar annað eins ljós eins og hv. þm. V.-Húnv. hefir flaskað þannig á einni einustu grein hans.