20.11.1933
Efri deild: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (1360)

38. mál, undanþága frá áfengislöggjöfinni

Flm. (Pétur Magnússon):

Mér er það fullljóst, að það hefir lítið að segja um framgang máls þessa hér í d., að hafa langar umr. um það, því að hv. þm. hafa að líkindum allir tekið afstöðu til þess. Ætla ég því að haga orðum mínum eftir þessari skoðun minni, og ekki svara andmælendum frv. orði til orðs, heldur aðeins drepa á nokkur af þeim höfuðandmælum, sem fram hafa komið hér í d. gegn frv.

Það hefir verið dregið í efa, aðallega af hv. 3. landsk., að þjóðaratkvæðagreiðsla sú, sem fram fór fyrsta vetrardag, sýni rétta mynd af huga landsmanna. Sagði hann, að hún hefði verið illa sótt. Ég hefi ekki í höndum nákvæmar upplýsingar um þetta, en ætla, að 40–50% landsmanna, sem rétt höfðu til þessarar atkvgr., hafi notað hann. Af þessu dró hv. þm. þá ályktun, að atkvgr. hafi ekki sýnt rétta mynd af þjóðarviljanum og að hann gæti verið allt annar en atkvgr. gaf til kynna.

Ég held, að þetta séu veik rök hjá hv. þm. þó að þátttaka væri lítil í þessari atkvgr., þá er hún þó svo mikil, að eftir líkindareikningi ætti hún að sýna rétta mynd af þjóðarviljanum, sérstakl. vegna þess, að munurinn á atkvæðum með og móti er allmikill. Hitt verður vitanlega að játast, að ekki er hægt að færa fram sannanir í þessu efni, og um það verður því hver og einn að hafa sína skoðun. Jafnvel þó að það kynni að vera rétt hjá hv. þm., að ekkert öryggi sé fyrir því, að vilji meiri hl. þeirra, sem greiddu atkv., sýni vilja meiri hl. þeirra, sem höfðu rétt á því, þá skiptir það í raun og veru ekki miklu í þessu sambandi. Það er nú yfirleitt svo með þau mál, sem ráðið er til lykta með atkvgr. kjósenda, að það er vilji þeirra, sem nota atkvæðisrétt sinn, sem verður að ráða. Vil ég í því sambandi benda hv. 3. landsk. á það, að þegar hann var kosinn landsk. alþm., munu ekki nema um 50% af kjósendum hafa notað atkvæðisrétt sinn. Þó held ég, að þessum hv. þm. mundi þykja það allóviðfelldið, ef farið væri að bera brigður á, að hann væri löglega kosinn þm.

Yfirleitt er ekki hægt að komast lengra í þessu efni en að gefa kjósendum kost á að greiða atkv. Hvort þeir nota atkvæðisrétt sinn, verða þeir auðvitað að eiga við sjálfa sig. Hitt verður ekki véfengt, að allsterkur meiri hl. þeirra, sem notuðu atkvæðisrétt sinn, hefir lýst því yfir, að þeir vilji nema úr gildi það, sem eftir er af l. um innflutningsbann áfengra drykkja. Tel ég því rök hv. 3. landsk. í þessu efni, sem hv. 2. þm. S.-M. drap á, harla léttvæg.

Þá hefir allmikið verið á það minnzt af andmælendum þessa frv., að þrátt fyrir atkvgr. þá, sem fram hefir farið með þjóðinni, þá væru þeir þó bundnir við og gætu ekki farið eftir öðru en sannfæringu sinni. Það veit trúa mín, að ég ætla ekki að reyna að kúga sannfæringu hv. þm., og væri vissulega æskilegt að slík kúgun kæmi aldrei fyrir á Alþingi. En hvernig samrýma þessir hv. hm. Það, að þeir greiddu því atkv. sitt á síðasta þingi, að þjóðin skyldi vera látin ráða úrslitum í þessu efni, við það, að þeir nú vilja svo taka ráðin aftur af þjóðinni, eftir að hún hefir fellt sinn úrskurð? Hvernig ætlar hv. 5. landsk. nú að færa rök fyrir því, að hún greiði atkv. á móti frv., sem miðar að því einu að láta það þjóðaratkvæði fá að njóta sín, sem hún á síðasta þingi lagði til, að leitað yrði? því að þá sagði þessi hv. þm.: „Ég er ein í flokki þeirra manna, sem vilja, að þjóðin sé látin sjálf ráða um úrslit þessa máls“.

Ég sé ekki, að hægt sé að réttlæta þetta ósamræmi nema á einn veg, og aðeins einn, með því að segja: „Skoðun mín hefir breytzt á málinu síðan í vor“. Það er náttúrlega fullkomlega heiðarlegt að skipta um skoðun, en það er líka eina leiðin til afsökunar á þessu ósamræmi nema á einn veg, og aðeins einn, með því að segja: „Skoðun mín hefir breytzt á málinu síðan í vor“. Það er náttúrlega fullkomlega heiðarlegt að skipta um skoðun, en það er líka eina leiðin til afsökunar á þessu ósamræmi.

Ég færði á laugardaginn var óyggjandi rök fyrir því, að öll framkoma Alþ. síðastl. vor í þessu máli benti til þess, að það ætlaðist til, að þjóðarvilji yrði látinn ráða í þessu efni, og að að væri einnig vilji þeirra, sem móti afnámi bannsins voru, hvað sem persónulegum skoðunum á málinu liði. Og ég benti þá líka á það, að það er svo fjarri því, að í þessu liggi nokkur bending um, að þm., sem ekki vilja afnám bannl., séu með því að breyta á móti sannfæringu sinni, þótt þeir samþ. að láta þjóðarviljann njóta sín.

Hv. 5. landsk. sagði, að hún hefði ekki skuldbundið sig til að greiða atkv. með sérhverri breyt. á bannl. Þetta er rétt, því að mikill þorri af ákvæðum áfengislöggjafarinnar getur staðið óbreyttur fyrir því, þótt farið verði eftir þjóðaratkvæðinu. Þjóðin var aðeins spurð að því, hvort hún vildi leyfa innflutning sterkra drykkja. Þetta frv. miðar einungis að því að framkvæma þann þjóðarvilja. Hv. þm. hefir, með því að samþ. í vor að skjóta málinu undir þjóðaratkvæði, skuldbundið sig til þess að greiða atkv. með þessari breyt. á bannl., sem hér liggur fyrir.

Hið þriðja, sem fært var fram sem röksemd á móti frv., var sú staðhæfing andmælenda þess, að þessi breyt. mundi leiða til aukinnar vínnautnar í landinu. Ég held, að allir þeir hv. þm., sem á þetta atriði hafa minnzt, hafi tekið sér það sem gefið, sem þeir áttu að sanna í þessu efni. Það má með miklum rétti segja, að ef það væri öruggt, að afnám banns, sem eftir er í áfengislöggjöfinni um innflutning áfengra drykkja, verkaði þannig, að vínnautn ykist í landinu, þá væri misráðið að fara þessa leið. En ég hygg, að erfitt muni vera fyrir andmælendur frv. að færa fram frambærileg rök fyrir því, að svo mundi fara. Það hefir verið á það bent, að í öllum kaupstöðum landsins eru opinberir vínsölustaðir, og það er ekki gert ráð fyrir, að þeim verði fjölgað. Ég geri heldur ekki ráð fyrir, að vínveitingastöðum verði fjölgað, þ. e. að víðar á landinu verði selt heldur en nú á sér stað. Hverjar líkur eru þá til þess, að neyzla áfengra drykkja aukist, þótt þessi breyt. verði samþ.? Þeir, sem áfengis vilja neyta, geta vissulega aflað sér þess nú á löglegan hátt.

Hitt er einnig óvéfengjanlegt, að í öllum þorra héraða landsins getur hver maður fengið hinar sömu tegundir vína, sem hér er farið fram á að leyfa innflutning á, en fengið þær að vísu á ólöglegan hátt. Ef litið er til reynslunnar í þessu efni, þá hygg ég, að flestir verði að játa það, að í sveitum landsins a. m. k. er ástandið miklu verra en það var áður en bannið komst á. Vínnautn er þar nú orðin langtum meiri en þá. Ég talaði t. d. nýlega við gamlan sýslunga minn ofan úr Borgarfirði, sem hefir verið í aðal-Borgarfjarðarréttunum flest haust upp undir 60 ár. Hann sagði, að hann hefði aldrei áður séð neitt svipaða vínnautn í þessum réttum eins og var síðastl. haust. Ég hefi heyrt fleiri segja þetta sama eða svipað þessu. Bendir þetta nú til þess, að hömlur undanfarinna ára á innflutningi áfengra drykkja hafi orðið til þess að minnka vínnautn í landinu? Nei, þvert á móti bendir þetta til hins gagnstæða.

Hv. 2. þm. S.-M. var að ympra á því, að það væri að mestu að kenna skoðanabræðrum okkar hv. 3. þm. Reykv., hvernig komið væri í þessu efni. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi þar átt við skoðanabræður okkar um þetta sérstaka mál. (IP: Já, ég meinti það). Við höfum áður fyrr verið bannmenn. Ég var ekki framsýnni en það, þegar bannlögin voru sett, að ég hélt, að þau mundu útrýma eða minnka að mun vínnautn í landinu. En brátt sá ég, að vonlaust var um það, að þau mundu útrýma vínnautninni. Þó skal ég gera þá játningu, að ég álít, að bannlögin hafi gert töluvert gagn til ársins 1922. Ef við hefðum ekki haft bannlögin á stríðsárunum, þegar peningaflóðið skall yfir landið, þá hefði vínnautn vafalaust aukizt hröðum skrefum. Þó því færi vitanlega fjarri, að landið nokkurn tíma yrði „þurrt“, þá voru samt þeir erfiðleikar á að ná í áfengi, að fjöldi manna hlífðist við að standa í því, þó þeir annars vildu hafa áfengi um hönd. Þær hömlur verkuðu því án efa í þá átt að draga úr vínnautn, þó fjarri væri, að hún hyrfi. Og þær hjálpuðu aldrei þeim, sem banninu þó fyrst og fremst var ætlað að hjálpa — ofdrykkjumönnunum. — Hitt er svo öllum vitanlegt, að bannið hafði frá öndverðu ýmsa miður góða fylgifiska í för með sér, stórfelld lögbrot og allskonar yfirdrepskap. Þó þau því um stund hafi dregið úr vínnautn, verður sjálfsagt erfitt að meta, hvort þau í heild sinni hafa gert meira gagn eða ógagn, jafnvel þann tíma, sem þau þó komu að einhverjum notum. En eftir að „Spánarundanþágan“ var samþ. hafa bannlögin verkað til ills eins. Gagnsemi þeirra hefir með öllu horfið, en skaðsemin haldizt. heim er það að kenna, að nú er brennivín bruggað um þvert og endilangt Ísland. En heimabruggið er betur fallið til að leiða til ofnautnar áfengis en nokkuð annað. Það er því ekki „andbanninganna“ sök, hvernig komið er.

Hv. 2. þm. S.-M. vildi halda því fram, að ég hefði játað, að vínnautn mundi vaxa í landinu, ef þessi breyt. nær fram að ganga. Dró hann það af því, að ég hafði vakið athygli á, að við breyt. mundu tekjur ríkissjóðs aukast. Ég vil alls ekki kannast við, að í þessu liggi nokkur slík viðurkenning af minni hálfu um aukna vínnautn. Ég benti á það, að fyrst og fremst væru tollar af sterkum drykkjum meiri en af veikum, og í öðru lagi —, og það er aðalatriðið —, að mjög mikill hluti af því áfengi, sem nú er selt ólöglega, mundi þá verða selt löglega, og ríkissjóður mundi njóta tekna af því.

Ég er alveg sannfærður um það, að sú breyt., sem hér er farið fram á, verkar mjög bráðlega í þá átt að minnka vínnautn í landinu. Það er ekki einungis okkar reynsla, sem styrkir þessa skoðun mína, heldur einnig reynsla annara þjóða, sem hafa haft bannlög hjá sér. Hagskýrslur sýna, að í Noregi hefir vínnautn minnkað og færri verið sektaðir fyrir ölvun eftir en áður en bannl. voru afnumin þar. Enginn vafi er á því, að sama yrði útkoman hér hjá okkur.

Á að hefir verið minnzt, að samhliða breyt. þeirri, sem hér ræðir um, sé alveg nauðsynlegt að setja nýjar reglur um meðferð áfengis. Það mun aðallega hafa verið hv. 3. landsk., sem talaði um þetta, en fleiri munu hafa á það minnzt. Nú vil ég spyrja: Ef núverandi áfengislöggjöf er viðunandi, hvað er það þá í þessari breyt., sem gerir hana lakari? Hvað er það í breyt., sem knýr til þess að setja frekari reglur eða hömlur um meðferð áfengis í landinu? (JónJ: Brennivínshættan). Brennivínshættan, segir hv. 3. landsk. Nú vil ég spyrja hann: Hefir hann nokkur rok fyrir því, að hætta af brennivíni sé nokkuð meiri en af sherry og portvíni? Er nokkuð meiri hætta á ölvun af því ? Ég efast um það. — þeir menn eru til, sem kaupa áfengi einungis til þess að verða ölvaðir, en þeim tekst það áreiðanlega, þó að ekki hafi þeir annað en hin svonefndu „Spánarvín“. Það ætti reynslan að hafa kennt okkur.

Hv. 5. landsk. hefir bent á atriði í áfengislöggjöfinni, sem hún telur nauðsyn á að breyta, þ. e. refsiákvæðunum, sem gilda um brot á bannl. Hv. þm. sagði, að þau ákvæði væru gífurleg og ekki í réttu hlutfalli við brotin, og eins og alltaf sé, þegar svo stendur á, hafi þau því komið að minna gagni. Þetta er rétt. En ég vil spyrja hv. þm.: Úr því svona er, er þá ekki líka ástæða til að gera eitthvað til þess að draga úr hættunni á, að l. verði brotin? Því verður naumast neitað, að þessi breyt. ætti að miða í þá átt, að brotum á l. fækkaði, en fjölgaði ekki.

Auk þessa — og það sást hv. 3. landsk. alveg yfir — er það tekið fram í 2. gr. þessa frv., að ríkisstj. á að hafa alveg fullkomna heimild til þess að setja hverjar þær hömlur, sem hún telur nauðsynlegar, á meðferð hinna „sterku“ drykkja. Það er t. d. fullkomlega heimilt, ef Vestfirðir óska þess, að stj. banni þar sölu allra áfengra drykkja, sem meiri vínandi er í en 21% að rúmmáli. (IP: Ekki hefi ég litið svo á). Það er enginn vafi á því, að eftir 2. gr. frv. er hægt að setja slíkar hömlur. Annars er erfitt fyrir andmælendur þessa frv. að sýna fram á, að þessi breyt. geri það að verkum, að nauðsynlegt sé hennar vegna að breyta áfengislöggjöfinni að öðru leyti.

Þá hefir verið drepið á það af einum eða tveimur af andmælendum þessa frv., að hér verði einnig að hugsa um rétt minni hl. Mér er ekki alveg ljóst, hvað átt er við með rétti minni hl. í þessu efni. það er nú það venjulega, að minni hl. verður að beygja sig fyrir meiri hl. þar sem það er lagt undir atkvæði fleiri eða færri einstaklinga, að ráða málum til lykta, hvort sem það nú er þjóð eða þing eða aðrir, sem eiga að ráða úrslitum, þá er réttur minni hl. ekki annar en sá, að geta sett fram sínar skoðanir og barizt fyrir þeim, þ. e. beitt sínum áhrifum til þess að fá þá úrlausn másins, sem hann óskar. En það liggur náttúrlega í hlutarins eðli, að þegar mál er lagt undir þjóðaratkvæði, þá verður minni hl. að beygja sig fyrir vilja meiri hl. og sætta sig við að úrslitin verði önnur en hann óskar eftir.

Hv. 3. landsk. drap á það, að til þess hefði verið ætlazt, að þetta þing yrði stutt, og að honum hætti undarlegt, að slíkt mál sem þetta væri borið fram á því. Það sagði hann, að benti ekki til þess, að við flm. frv. ætluðum að stuðla að því, að þingið gæti orðið stutt. En ég vil segja það, að borin hafa verið fram mörg mál á þessu þingi, sem minni ástæða er til að bera fram heldur en þetta mál. Ég held, að við getum horft óhræddir í augu kjósenda okkar, þótt við tökum tíma þingsins til að ræða það mál og ræða því til lykta, sem þjóðin er þegar búin að fella sinn úrskurð um. Slíkt mál ætti ekki að þurfa að tefja þingið, a. m. k. ekki efnishlið þess.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um málið að þessu sinni. Ég hefi drepið á flest atriðin, sem máli skipta í andmælum þeirra hv. þm., sem talað hafa um frv.

Ég held satt að segja, að hv. 5. landsk. hafi hitt naglann á höfuðið í byrjun ræðu sinnar, því að hún hóf ræðu sína með því að segja, að þetta mál væri „tilfinningamál“. Það er rétt, að hjá bannmönnum hefir þetta mál verið tilfinningamál, og ekkert annað en tilfinningamál. (GL: Það er tilfinningamál hjá andbanningum líka). Bannmenn hafa lokað augunum fyrir þeirri staðreynd, að bannlögin eru farin að verka alveg öfugt við það, sem þeim var upphaflega ætlað. Ef þeir hættu að líta á málið einungis frá sjónarmiði tilfinninganna, en vildu líta á það líka með augum skynseminnar, þá er ég sannfærður um, að ekki þyrfti að viðhafa miklar umr. til þess að koma málinu í gegn á þessu þingi.