20.11.1933
Efri deild: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (1363)

38. mál, undanþága frá áfengislöggjöfinni

Jón Þorláksson:

Það er að bera í bakkafullan lækinn að auka umr. um þetta mál, en mér þykir samt rétt að gera stuttlega grein fyrir atkv. mínu. Það, sem ég tel ekki lengur verða við unað í núv. áfengislöggjöf, eru þær refsingar, sem beitt er út af ýmsum brotum, sem í réttarmeðvitund almennings eru mjög lítilfjörleg, en refsingarnar svo harðar, að með þeim er gereyðilagður efnahagur manna og þar með getan til þess að halda uppi heimili fyrir menn, sem verður það á að drýgja eitthvað af þessum brotum. Ég skal sem dæmi nefna, að ég held, að ekki sé heimilt að dæma mann í minna en 1000 kr. sekt, ef hann hefir gert það fyrir kunningja sinn að selja honum portvínsflösku, sem annars er lögleg vara, ef hann leggur á hana 2 kr. fyrir ómak sitt. Það má nefna mörg önnur dæmi. Og þó að hv. 2. þm. S.-M. vildi halda því fram, að ekkert sé að heima hjá honum í þessu efni, þá held ég, að hægt væri að nefna dóm úr hans kaupstað, sem vegna ákvæða laganna varð að vera svo harður, að dómaranum ofbauð og sennilega eyðilagði heimilið, sem um var að ræða, vegna óverulegrar yfirsjónar. Maður hafði selt einhverja ögn af heimabrugguðu öli rétt ofan við áfengismarkið. — Ég fyrir mitt leyti vil ekki una lengur við þessa áfengislöggjöf, ef ég með þingmannsatkv. mínu get fengið hana burt, vegna þess að hún kemur af stað a. m. k. eins mikilli eyðileggingu og þótt einhverjir heimilisfeður féllu fyrir freistingunni um að neyta of mikils áfengis. Það er þó einhver von um, að þeir sjái að sér í því, sem talið er, að menn geti sjálfir ráðið, eins og því, hvort þeir neyta áfengis eða ekki, en þegar ríkisvaldið er búið að taka eignirnar og stimpla heimilisföðurinn glæpamann og setja í fangelsi, þá verður það ekki aftur tekið. Það, sem ég nú hefi á móti því frv., sem hér liggur fyrir, er, að það lætur áfengislöggjöfina standa. Ég álít það raunverulega algerlega ófullnægjandi spor í þessu máli, sem einungis greiðir fyrir innflutningi sterkari drykkja, en lætur áfengislöggjöfina að öðru leyti standa óbreytta. Ég mun samt sem áður sýna þessu frv. fulla kurteisi og greiða atkv. með því til 2. umr. og nefndar, og vita, hvort ekki kemur í ljós í n., að stíga eigi þetta spor, að fá a. m. k. numda burt verstu agnúana á núv. áfengislöggjöf.