29.11.1933
Sameinað þing: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (1387)

57. mál, varalögregla

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég mun svara hv. 2. þm. Reykv. í sama dúr og hann talaði. Hann talaði ákaflega rólega og æsingalaust. Og ég mun svara nákvæmlega á sama hátt. Hvað snertir till., sem liggur fyrir, þá er hún aðallega um tvennt. Fyrst og fremst það, að fela ríkisstj. að leggja niður núv. lögreglu, og í öðru lagi að stofna hvergi til varalögreglu í kaupstöðum landsins.

Um fyrri lið þessarar till. vil ég segja það, að mjög bráðlega verður lögð niður sú lögregla, sem hefir starfað síðan í fyrra. Bæði þessum hv. þm. og öðrum er kunnugt, að aukning bæjarlögreglunnar hér í bænum komst ekki á fyrr en frá 1. þ. m. og að á þinginu í fyrra var gengið út frá því, að sú lögregla, sem sett var á stofn eftir óeirðirnar 9. nóv. í fyrra, yrði þangað til lögreglan yrði aukin í bænum. Þótt leitað sé með lögandi ljósi í umr. frá í fyrra um þetta mál, þá finnast ekki frá öðrum en Alþýðuflokksmönnum ummæli um það, að afnema varalögregluna fyrr en bæjarlögreglan væri aukin. En nú er búið að auka talsvert bæjarlögregluna, og sú varalögregla, sem hefir verið, verður því, eins og ég tók fram, bráðlega leyst upp. En það verður að gerast með dálitlum fyrirvara, og ekki án vorkunnsemi gagnvart þeim mönnum, sem í lögreglunni hafa verið. Það gengur vitanlega ekki að kasta þeim út á gaddinn með eins dag fyrirvara eða svo. Þetta veit ég, að hv. þm. hlýtur að viðurkenna. þessir menn gáfu sig fram til lögreglustarfsins á þeim tíma, er ríkinu lá mikið við, og væri illa launað, ef þeim væri fyrirvaralaust vísað úr þjónustunni. En ég vona, að um áramótin geti þetta að fullu gengið í gegn, eða a. m. k. verði mjög litlar kvaðir og kostnaður af varalögreglunni á ríkissjóði eftir það.

Með þessu tel ég, að ég hafi svarað fyrri hl. þessarar till. En út af ummælum hv. þm. að öðru leyti skal ég upplýsa það, að þótt kostnaðurinn sé að sönnu mikill, þá efast ég um, að margir utan hans flokks telji hann eftir. Svo er annað. Sjálfur á þessi hv. þm. mjög mikinn þátt í því, hve kostnaðurinn var mikill, með því að sjá um, að þessum mönnum væri bægt frá vinnu í bænum. Hefir það ranglæti gert bæði stj. og svo þessum mönnum geysileg óþægindi.

Ennfremur er gert ráð fyrir, að nokkuð af þessum kostnaði endurgreiðist frá Reykjavíkurbæ, og á ég nú sem stendur í samningum um þetta við borgarstjórann.

Hv. þm. nefndi fjölgun á lögreglunni. Það er satt, að henni er fjölgað nokkuð. En sú fjölgun, sem bæjarstj. hefir ákveðið, er þó ekki komin til framkvæmda að öllu leyti, vegna þess að lögreglustjóri hefir afsagt suma af mönnum þeim, sem hún valdi. Heyrt hefi ég, að það verði dómstólamál, og getur því niðurstaðan dregizt nokkuð.

Hv. þm. hélt enn fram því, sem hann sagði a. m. k. hundrað sinnum í fyrra, að þessi lögregla væri ólögleg. Það getur verið, að hann hafi haft ofurlitla átyllu til að segja þetta um lögregluna áður en lög um lögreglu voru sett í fyrra. En eftir að l. voru sett, er ekki neinn efi á, að þessi lögregla átti að vera þangað til aukning kæmi.

Þá heldur hann fram, að lögregla þessi sé algerlega óþörf. Ég vil þá minna hann á, að það er ekki alllangt síðan talsvert miklar óspektir urðu í bænum. Það var 9. þ. m. Það kvöld var t. d. símað frá Alþýðuhúsinu hér í bænum og lögreglan beðin að koma og skakka leikinn. — Aukning lögreglunnar í bænum hefir verið samþ. af stj., og skil ég ekki, að hv. 2. þm. Reykv. sé ókunnugt, að það var tilkynnt bæjarstj.

Hv. þm. talaði eitthvað um flokkshagsmuni sjálfstæðismanna í sambandi við lögregluna. En ég man ekki betur en að allur þingheimur, að Alþfl. undanskildum, greiddi í fyrra atkv. með frv. um aukna lögreglu. Annaðhvort mun einn eða enginn utan þess flokks hafa verið á móti. hér er því ekki um sérmál Sjálfstfl. að ræða.

Ég skal auðvitað ekkert dæma um innræti hinna nýju lögregluþjóna, sem mér skildist hv. þm. hafa eitthvað út á að setja. En ég fyrir mitt leyti treysti, að bæjarstj. hafi ekki mislagzt hendur um val á þessum mönnum.

Þá vík ég að seinni hluta till., sem er þess efnis, að stofna hvergi til varalögreglu í kaupstöðum landsins. Þótt þetta væri samþ., hygg ég, að engin stjórn gæti farið eftir því, þar sem til eru lög um, að þetta skuli gert, ef þörf er á. Ég álít, að ekki sé hægt að þvinga neina stjórn með þál. til þess að óhlýðnast lögum, þar sem lögin voru samþ. af þinginu í fyrra, sem var að miklu leyti eins skipað og það þing, sem nú situr. Hv. aðalflm. veit líka ósköp vel, að þetta verður ekki samþ., og ég skil ekkert í þeirri hugsun hjá honum, að ekki megi setja upp varalögreglu, hversu óumflýjanleg nauðsyn sem það er. Hv. flm. hefðu átt að bæta aftan við þennan lið till.: „nema þegar þörf er á“, til þess að eitthvert vit hefði verið í henni. — Tel ég mig þá hafa gert þessari þáltill. fullnægjandi skil.