29.11.1933
Sameinað þing: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (1389)

57. mál, varalögregla

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. aðalflm. er ánægður yfir svari mínu, en hann vissi vel áður en hann skrifaði till. sína, að til stóð að leggja varalögregluna niður um nýár. Hann veit, að aukning lögreglunnar hér í bænum var komin í kring um 1. þ. m. Varalögreglan er nú mun mannfærri en í upphafi, eða 70–80 manns. Hann spurði, hvaða kostnað ríkissjóður gæti haft af varalögreglunni eftir nýár. Það skal ég segja honum. Ef haldið verður áfram að bægja þessum mönnum frá vinnu, eins og gert hefir verið, sér ríkið sér ekki annað fært en að bæta þeim það eitthvað upp. Það er rangt hjá hv. þm., að aðeins örfáir af þessum mönnum stundi algenga vinnu. Fyrir nokkrum dögum kom t. d. til mín maður, sem bægt hafði verið frá vinnu yfir langan tíma á skipi, og veit ég, að slíkt er ekkert einsdæmi. Það þýðir ekkert um það að deila, hvort varalögreglan er lögleg eða ekki, fyrir lögin og eftir. Það hefir svo oft verið sýnt fram á það með rökum, að hún er fyllilega lögleg, að ég nenni ekki að fara að flytja þau rök upp hér einu sinni enn.

Ég gat ekki skilið, hvað hv. þm. átti við, er hann sagði, að ályktun bæjarstjórnar um 100 manna varalögreglu væri ólögleg. Ályktunin er auðvitað fyllilega lögleg, en hitt er enn óvíst, hve margir verða skipaðir, og býst ég við, að farið verði varlega í þær sakir. En hv. þm. veit, að ég hefi ekki búizt við langri setu í stjórnarsessinum, svo að ég taldi, að varalögreglan í Rvík kæmi til kasta eftirmanns míns, enda mun hv. 2. þm. Reykv. óska, að svo verði.

Um óeirðirnar við Iðnó 9. nóv. er það að segja, að húsvörður bað um lögregluvernd. Hv. þm. sagði, að þar hefði verið fyrir nóg vígra manna, og rengi ég það ekki, en ég hefi vanizt því, að menn vildu vera í friði þar sem þeir eru á fundum, en ekki þurfa að eiga í handalögmáli við óeirðarseggi. Varalögreglan hefir því orðið til þess að verja hv. þm. sjálfan. (HV: Misskilningur). Nei.