29.11.1933
Sameinað þing: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (1391)

57. mál, varalögregla

Ólafur Thors:

1. flm. þessarar till. vék nokkrum orðum að mér í framsöguræðu sinni, og þótt mér finnist engin ástæða til að vera að rekja hér hin sögulegu tildrög að stofnun ríkislögreglunnar, ætla ég samt að víkja nokkrum orðum að forsögunni. Ég held, að það sé ekki réttmætt, þegar hann áfellir mig fyrir að hafa gert þetta í fljótfærni. Það mætti e. t. v. segja, að þetta hefði verið gert af fljótrærði og með viðeigandi hraða, og hygg ég, að velflestir borgarar bæjarins, úr öllum stjórnmálaflokkum, hafi álitið þessa ráðstöfun rétta og nauðsynlega. Mér var það frá öndverðu ljóst, að það, sem aðallega bar að forðast, var það tvennt, að lögreglan fengi á sig pólitískan blæ og yrði ríkissjóði kostnaðarsöm. Ég gerði það, sem í mínu valdi stóð, til þess að girða fyrir þetta. Ég lagði ríkt á við foringja liðsins, Erling Pálsson, að gæta þess að velja lögreglumennina úr öllum flokkum, nema kommúnistum, og ég átti m. a. langt viðtal við 2. þm. Reykv. um málið, til þess að reyna að tryggja samúð hans flokks með lögreglunni, og ég held mér hafi tekizt að vinna huga hans, þótt orð hans og síðari framkoma beri það ekki með sér. Lögreglan hefir að vísu orðið dýrari en nokkur maður gerði ráð fyrir í öndverðu, en ég tek undir það, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að aðrir eiga meiri sök á því en við, sem stofnuðum lögregluna. Það liggur nú fyrir, að draga muni mjög úr þessum kostnaði, þar eð Rvík hefir í hyggju að koma sér upp 50–60 manna varalögreglu, og á kostnaðurinn við hvern mann að verða um 600 kr. á ári. Þetta verður því um 30–60 þús. kr. kostnaður á ári, og ber ríkissjóður helming þeirra útgjalda. Það horfir því raunverulega allt öðruvísi við um kostnað þessarar væntanlegu varalögreglu en verið hefir. Ég veit, að menn vilja deila um, hvort áfram sé þörf fyrir slíka lögreglu. Það var þörf fyrir hana, og ég vil leiða athygli þingsins að því, að þörfin fyrir slíka lögreglu kemur ekki í ljós fyrr en hún verður lögð niður, því að það, að hún er til, heldur í skefjum þeim óaldarlýð, sem hefir viljað vaða hér uppi, en nú hefir slíðrað sverðið, af því að lögreglan er nógu öflug og þeir sjá sér á engan hátt fært að raða niðurlögum hennar. — Þetta vil ég láta nægja, og vænti ég, að ég hafi með þessu ekki vakið neinar óþarfa málalengingar um þessa hlið málsins. Um hitt get ég tekið undir flest, sem hæstv. dómsmrh. sagði. Hann hefir gefið yfirlýsingu um, að liðið verði bráðlega lagt niður. En um síðari lið þessarar till. er það að segja, að hann brýtur í bága við gildandi lög frá síðasta Alþ., og þess er ekki að vænta, að núv. Alþ., sem að miklu leyti er skipað sömu mönnum og þá, leggi lið sitt til þess, að lög, sem það hefir sett, séu virt að vettugi. Út frá þessum röksemdum vil ég leyfa mér að bera fram rökstudda dagskrá í málinu, svo hljóðandi:

Með því að dómsmálaráðherra hefir lýst yfir því, að núverandi varalögregla verði bráðlega lögð niður, og þar eð síðari hluti till. brýtur í baga við gildandi lög, tekur Alþ. fyrir næsta mál á dagskrá.