29.11.1933
Sameinað þing: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (1394)

57. mál, varalögregla

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég ætla fyrst að svara hv. 2. þm. Reykv. örfáum orðum. Hann sagði, að ég hefði lofað því strax í fyrra að afnema varalögregluna þá þegar. En ég gerði ekki annað en upplýsa, að hún yrði afnumin, þegar bæjarlögreglan yrði aukin, og ekki er hægt að hafa það alveg samtímis, því að ekki er hægt að segja mönnunum upp alveg fyrirvaralaust. Ég ætla mér að standa algerlega við þau orð, sem ég viðhafði í fyrra, og hv. þm. getur ekki borið mér neina brigðmælgi á brýn. Hvað það snertir, að þessi till. komi í bága við gildandi lög, þá skilst mér, að svo sé, því að ef hún á að vera bindandi fyrir stj., mun ætlunin, að þótt stj. áliti nauðsynlegt að setja upp varalögreglu, geri hún það ekki. En í lögunum stendur, að hún eigi að gera það, ef hún telur það nauðsynlegt. Því er það rétt, sem hv. þm. G.-K. sagði í þessu efni. Hvað það snertir, að ólöglegt sé að setja hér upp nægilega varalögreglu, þá skal ég taka það fram, að auðvitað verða lögin athuguð vel allur en hún verður sett upp, og það af mönnum, sem eru jafnskilningsgóðir á lög og hv. 2. þm. Reykv. Hv. þm. sagði, að þessu lögregluliði væri beint gegn verkalýðnum, það sé stofnað til þess að berja á honum. En þetta atvik, sem ég nefndi frá 9. nóv., sýnir hið gagnstæða. Og merkilegt er það, að það skyldi nú þurfa að verja einmitt verkalýðsfund. (HV: Þetta er bara vitleysa). Lögreglan segir þetta sjálf. (HV: Að hann hafi verið varinn?). Ég get upplýst, að það stóð einmitt svo á, að hv. þm. var sjálfur nýbuinn að halda ræðu um það, hve lögreglan væri óþörf, þegar óeirðirnar við húsið byrjuðu og símað var til lögreglunnar um vernd gegn óspektum.

Svo var það viðvíkjandi atvinnubótunum, sem hv. þm. nefndi í þessu sambandi. Lögreglan hefir óbeinlínis orðið til atvinnubóta, vegna þess að þeir menn, sem í henni voru, stóðu ekki í vegi fyrir öðrum, sem þurftu vinnu. Þetta finnur líka hv. þm. og þess vegna ber hann á móti því, að varalögreglumönnunum hafi verið hægt frá vinnu. (HV: Þetta voru flestallt slæpingjar, sem í varalögregluna fóru). Þetta eru hinir myndarlegustu menn, og ég er viss um, að hv. þm. „slær engar keilur“ á því að níða þá. (HV: En þeir hafa verið reknir úr henni?). Hv. þm. hefir rekið ýmsa þessara manna úr „Dagsbrún“ fyrir að þeir tóku að sér þetta starf, en ég veit ekki, hvort það eru hans gömlu félagar, sem eru svona slaemir að hans áliti.

Þá er það hv. 4. landsk. Hann fór að segja hér sögu þessa máls frá í fyrra, og söguna sagði hann svipað og hann er vanur að segja pólitískar sögur, nefnil. mjög litað. En hann beindi til mín fyrirspurn um það, hvort ég vildi ekki fyrir hönd lögreglunnar kaupa 40 þús. kr. vatnsbil til að sprauta á menn, þegar þeir safnast saman. Ég álít, að það sé bæjarins að gera það, en ekki stjórnarinnar, og þegar lög eru komin um það, hvernig skipta eigi kostnaði milli bæjarins og ríkisins í þessu efni, þá kæri ég mig ekkert um að leggja út í 40 þús. kr. bílakaup fyrir bæinn og láta ríkið borga. En hv. þm. er svo vanur bílakaupum, að honum ofbýður þetta auðvitað ekki; en ég hefi gert miklu minna að því, og ég ætla ekki að kaupa þennan bíl fyrir ríkissjóðs. Ég man ekki eftir, að hv. þm. hafi beðið um að kaupa þennan bíl fyrr. Annars viðurkenndi hv. 4. landsk., að óhjakvæmilegt hefði verið að auka lögregluna, og ég er honum þakklátur fyrir, að hann neyddist til að láta það í ljós eins og í fyrra. Hans gífuryrði um það, að „íhaldsmenn“ vildu endilega hafa fastan hér, er ekkert nema heimska og þarf ekki að svara því. En hann vildi eins og hann orðaði það, að hægt væri að grípa til nógu margra, þegar á þyrfti að halda. Það er m. ö. o. varalögregla, sem hann er hér að halda fram. En það var samkomulag um það hjá báðum stærstu flokkum þingsins, að byrja á því að auka hina föstu lögreglu og hafa varalögreglu, eins og hv. 4. landsk. nú viðurkennir. Hann segir, að undir eins í sumar hafi átt að fjölga fastalögreglunni og setja upp varalögreglu. En ég hélt, að hann þekkti svo vel ákvæðin, sem bæjarstj. á að lifa eftir, að þetta tekur dálítinn tíma, og einmitt hans menn í bæjarstj. hafa gert það, sem þeir gátu, til þess að seinka þessu máli, og er fyrst 1. þ. m., sem byrjað er að greiða laun þeim mönnum, sem bætt var í lögregluna. Ég held, að það hafi ekki verið, þrátt fyrir þm. mörgu orð, þörf á að svara honnm meira, en gera má ráð fyrir, að maður fái að heyra til hans betur í kvöld.