21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Thor Thors):

Áður en ég vík að einstökum ágreiningsatriðum, sem komið hafa fram í umr., bæði milli einstakra nm. og annara þm., vil ég geta þess, að stjskrn. tekur aftur 4. brtt. sína á þskj. 87, við 131. gr. frv. Þar segir, að raðað skuli eftir reglum 2. málsgr., þegar um er að ræða, hverjir eigi að ná kosningu á landslistann. En þetta er ekki rétt. Við nánari athugun hefir komið í ljós, að þessi víxlkenning, sem er í fyrri hluta þessarar gr., á ekki að gilda eftir að búið er að raða á landslistann, heldur er það atkvæðatala flokksins, sem telst frambjóðendunum, þó með þeim breytingum, sem einstöku kjósendur kunna að hafa gert.

Þá vil ég víkja að smávægilegri brtt., sem minni hl. stjskrn. á á þskj. 92, sem gengur í þá átt, að hæð neðri hluta landslistans skuli fara eftir áætlaðri tölu landslistans.

Ég ætla þá að víkja að þeim atriðum, sem hafa klofið stjskrn. í tvennt. Það er þá fyrst og fremst það atriði, hvernig skipa á í kjörstjórnir. Það hefir lengi verið venja í landinu og gefizt vel, að sýslumenn séu sjálfkjörnir oddvitar í yfirkjörstjórnir og hreppstjórar sjálfkjörnir oddvitar í undirkjörstjórnir. Það er margt, sem mælir með þessari reglu, og þá einkum það, að með því að þessir menn séu sjálfkjörnir, er alltaf nokkur trygging fyrir því, að sérþekking sé fyrir hendi í kjörstjórnunum. Því verður aldrei á móti mælt, að sýslumenn og bæjarfógetar eru þeir menn í hverju kjördæmi, sem ætla má, að mesta sérþekkingu hafi í þessum málum. Það virðist því einkennilegt að bægja þessum mönnum út úr kjörstjórn, þar sem reynslan hefir aldrei sýnt, að þeir séu þar óþarfir eða til ills. Því verður heldur ekki haldið fram sem neinni ástæðu fyrir því, að sýslumönnum eða bæjarfógetum beri ekki að vera í yfirkjörstjórn, að það kunni að koma fyrir, að þeir bjóði sig fram til þings, því svo er ákveðið í kosningalagafrv., að þeir skuli víkja sæti úr kjörstjórn, ef þeir eru í kjöri. Það má ennfremur benda á, að nauðsynlegt er, að kjósendur í kjördæmunum viti, hvert þeir eiga að snúa sér, þegar þeir þurfa að leita til kjörstjórnar. Séu sýslumenn og hreppstjórar alltaf sjálfkjörnir, þá er það sú almenna regla, sem hver maður veit um. Það er líka oftast svo, að sýslumenn eru búsettir á þeim stöðum, þar sem alltaf er hægt að ná til þeirra og alkunnugt er um í kjördæminu. Þetta gildir oftast líka um hreppstjóra. Þeir eru venjulega þeir forráðamenn, að allur almenningur viti, hverjir þeir eru og hvar þeirra er að leita. Ég get því ekki fundið nein frambærileg rök fyrir því, að sýslumönnum og hreppstjórum sé bægt frá því að eiga sæti í kjörstjórn. Hv. þm. N.-Ísf. hefir að vísu getið þess innan n., að ef sýslumenn og hreppstjórar séu sakir hæfileika sinna rétt kjörnir til þess að eiga sæti í kjörstjórn, þá muni þeir vitanlega vera kosnir í þetta starf. En það er í fyrsta lagi alls ekki vitað, að svo fari, því ef á að kjósa alla kjörstjórnina, þá er líklegt, að kosið verði eftir flokksfylgi einu. Gæti þá oft farið svo, að sýslumenn og hreppstjórar yrðu útilokaðir. Og í öðru lagi, ef þessir menn eru kosnir pólitískri kosningu, þá koma þeir inn í starfið sem pólitískir fulltrúar, með aðrar skyldur heldur en ef þeir væru sjálfkjörnir sakir embættisins. Þetta er m. ö. o. tilraun til þess að gera sýslumenn og hreppstjóra, sem sæti kunna að eiga í kjörstjórn, að pólitískum fulltrúum, og tel ég það til mikilla skemmda frá því, sem nú er. Og það er dálítið einkennilegt, að þessum mönnum megi ekki treysta til þess að eiga sæti í kjörstjórn með 2 öðrum mönnum, sem kosnir eru hlutfallskosningu og eru því fulltrúar hinna pólitísku flokka, og ásamt umboðsmönnum frambjóðenda allra flokka, þegar þeim er treyst til þess að standa fyrir kjörfundi utan kjörstaðar. Því það er vitanlega miklu meira trúnaðarstarf að standa fyrir kosningu utan kjörfundar, þar sem engir eru til eftirlits með kjörstjóra. Ég verð því að halda því fram, að þessar brtt. séu tilefnislausar og til skemmda, og skora ég á hv. þm. að fella þær, og einkum vil ég beina því til þeirra hreppstjóra og sýslumanna, sem sæti eiga hér í d. Sérstaklega þykir mér það illa hlýða, að hv. þm. Barð. skuli verða til þess að ráðast að óþörfu á stéttarbræður sína, og ætla ég að vona, að sannfæring hans verði sterkari en flokksfylgi, þegar til atkvgr. þessa atriðis kemur.

Þá er það annað atriði, sem hefir klofið n. í tvennt, og það er gerð kjörseðlanna. Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að sú gerð á kjörseðlinum, sem við sjálfstæðismenn stingum upp á, geti villt kjósendur. Ég vil þá segja, að þetta getur eins orðið, ef seðillinn er auður að neðan, eins og þeir hv. framsóknarmenn og jafnaðarmenn leggja til. Kjósendur eru óvanir slíku. Það gæti e. t. v. orðið þeim hvöt til að fara að pára á þennan auða hluta, t. d. nafn frambjóðandans eða sitt. En ef prentað er neðan á kjörseðilinn bókstafir listanna og nöfn flokkanna, þá gæti það orðið kjósendum til leiðbeiningar. Hv. andstæðingar mínir hafa haldið því fram, að bil hvers flokks á kjörseðlinum væri ekki nóg til þess, að kjósendur gætu gert þær breyt., sem frv. ætlast til, að gera megi. Þar er ætlazt til, að kjósandinn skrifi aðallega tölur á seðilinn. En bilið er svo stórt, að hægðarleikur er að koma þar fyrir einnig nokkrum nöfnum. Þessar mótbárur eru því allar æðiléttvægar.

Í sambandi við brtt. meiri hl. n. vil ég benda á það, að hann hefir ekki gegnumfært þessa till. rökrétt um allt frv., því að hann hefir ekki breytt 113. gr., um ógilda seðla, í samræmi við brtt. við 89. gr. Í 113. gr. er gert ráð fyrir því, að merkt sé við listabókstaf. Eins er um 114. gr., þar sem gengið er út frá því skipulagi, sem annars er í frv.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um brtt. þá, sem hv. framsóknarmenn í stjskrn. bera fram á þskj. 76. Einn nm„ hv. 1. þm. S.-M„ mun hafa haft það sem sitt aðalmál í undirbúningsn., að kjördagar væru ætíð hafðir tveir í sveitum. En þetta mál hefir ekki fengið meiri undirtektir innan Framsóknar en svo, að aðeins er gert að skyldu að hafa tvo kjördaga, ef 1/3 hluti kjósenda innan kjördeildar krefst þess. Heimildin er ekki víðtækari en þetta. En annars tel ég hana algerlega óþarfa. Ég vil benda á það, að úr engri sveit hafa komið tilmæli um þetta. Fyrir atbeina sjálfstæðismanna í stjskrn. hefir kjördagurinn verið lengdur upp í 8 klst., og er auk þess bannað að slíta honum fyrr en ½ klst. er liðin frá því er síðasti kjósandinn kom á kjörstað. Þetta lengir kjörfundinn að verulegum mun og verður til þess, að kjósendur í strjálbyggðum héruðum geta betur sótt kjörfundinn. Það kann að vera undantekning um einn hrepp í Barðastrandarsýslu (ég skýt því fram, af því að ég sé, að hv. þm. Barð. var að biðja um orðið), en það nær ekki nokkurri átt að miða regluna við eina undantekningu. (BJ: En hvernig er í Snæfellsnessýslu?). Það kemur ekki til greina þar. Ég vil ennfremur benda á, að þar sem heimilað hefir verið samkv. 6. gr. frv. að hafa 4 kjördeildir í sama hreppi, er þetta ennþá fráleitara. Í sambandi við þessa brtt. hafa framsóknarmenn ekki í neinu getið þess, hvernig þessi aukakjörfundur eigi að fara fram. Þar er ekki sagt, að kjörstjórn eigi að vera viðstödd, ekkert tekið fram um það, hvort kjörskrá eigi að liggja frammi, o. s. frv. Þessi aukakjörfundur kemur þarna sem óskýrt fyrirbrigði. Verði þessi heimild til aukakjörfundar lögleidd, getur það leitt til þess, að kosningar yrðu ekki eins öruggar og skyldi. Jafnframt mætti hugsa sér, að pólitískir æsingamenn notuðu sér þetta til agitatiónar og að það gæti jafnvel haft í för með sér hreinar ofsóknir á hendur kjósendum. Ætla ég að vona, að hv. þm. sýni kjósendum þá nærgætni að forða þeim frá slíku. Það er nóg sem er.

Þá er brtt. á þskj. 69, frá hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf. Sú hugsun, sem í brtt. felst, er að mínu áliti réttmæt. Því verður ekki neitað, að of mikil brögð eru að því, að einstakir þm. noti sér þingmennsku sína sjálfum sér til hagsbóta. Því verður ekki neitað, að stj. hefir oft, allt að því skipulagsbundið, veitt mönnum fríðindi fyrir stuðning. Er því rétt, að slík till. sem þessi komi fram. En samt get ég ekki greitt henni atkv., því að enda þótt hún sé réttmæt, þá er hún óréttlát, af því að ekki eru öllum þm. veitt sömu réttindi samkv. henni Þm. í einstökum kjördæmum mega alltaf segja af sér og bera málið undir kjósendur, en landsk. þm. hefir samkv till. ekki þennan rétt, enda á hann í rauninni enga sérstaka kjósendur, en er kominn á þing fyrir atkv.magn flokksins. En auðvitað er það útilokað að ógilda kosninguna fyrir allt landið, til þess að veita honum þennan rétt. Eins er ekki ætlazt til, að þm., sem kosinn er í Rvík, skuli eiga rétt til að bera mál sitt undir kjósendur, enda þyrfti þá að ógilda alla kosninguna í Rvík. Segjum t. d., að einn þm. Alþfl. í Rvík fái launað starf hjá stj. — Þetta er mjög líklegt um þm. þess flokks. — Ef hann ætti rétt á að segja af sér þingmennsku og gerði það, en kosningin yrði eigi öll ógild, gæti það t. d. leitt til þess, að Sjálfstfl. fengi þetta sæti, og raskaðist við það grundvöllur kosninganna. Það er rétt, sem vakað hefir fyrir hv. flm. till., en það er ekki réttlátt, vegna hins nýja skipulags, sem nú verður tekið upp. Í þessu máli sem öðrum, er snúa að lýðræði voru, verður almenningsálitið að grípa í taumana. Það mun það líka gera og hefir þegar gert að nokkru.

Hv. 2. þm. N.-M. þarf ég ekki að svara. Sessunautur minn gerði það. En ég get ekki verið honum sammála. um það, að það sé nein goðgá eður stjórnarskrárbrot, sem stendur í 115. gr. kosningalagafrv., að landslisti teljist ókosinn, þegar frambjóðendur séu kosnir á seðlinum, þó að kjósanda hafi orðið það á að merkja einnig við landslistann. Stjskr. segir, að annaðhvort skuli kjósa landslistann eða frambjóðendur. En þetta ber að skilja svo, að ekki megi kjósa landslista eins flokks og frambjóðendur annars flokks. Þetta ákvæði stjskr. miðar að því, að mönnum sé ekki veittur tvöfaldur kosningarréttur, sem gæti komið svo fram, að t. d. frambjóðandi Alþfl. kysi fyrst frambjóðanda Framsfl., en síðan landslista síns eigin flokks.

Það er misskilningur hjá hv. 2. þm. N.-M., er hann heldur, að flokkur, sem hann vill nefna flokk óháðra kjósenda, sé réttminni en aðrir flokkar. Sé flokkurinn skipulagður, þá hefir hann sama rétt og aðrir flokkar, en annars á hann ekki kröfu til frekari réttar en aðrir fulltrúar, sem bjóða sig fram utan flokka. Frambjóðendur utan flokka geta nefnilega verið einskonar ruslakista allra frambjóðenda landsins, hver sitt af hverju sauðahúsinu, ýmist kommúnistar eða sterkíhaldssamir bændafulltrúar. Að ætla einum og sama flokki atkvæði allra þessara frambjóðenda nær vitanlega ekki nokkurri átt. Og að veita jafnóskyldri hjörð rétt til uppbótarþingsætis er alveg fráleitt og brýtur í bága við stjskr., sem ætlar uppbótarsætin til jöfnunar milli þingflokka.

Brtt. hv. þm. V.-Húnv. skil ég vel. Hún er sprottin af óskinni um það, að fulltrúar flokkanna innan hvers kjördæmis ráði fulltrúum sínum á þingi, en ekki flokksstjórnin í Rvík. Ég held, að þetta sé réttmæt till. En það er þó dálítið varhugavert að láta menn, sem bjóða sig fram kannske til þess eins að spilla fyrir aðalframbjóðanda einhvers flokks, lenda í sama reit á kjörseðlinum og vera kennda við flokkinn. Það má því telja eðlilegt að krefjast viðurkenningar flokksstjórnar á slíkum mönnum, svo að það yrði tryggt, að þeir yrðu engum flokki til miska. Fáist slík viðurkenning ekki, hefir það þá einu þýðingu, að frambjóðandinn telst utan flokka á kjörseðlinum. Ég held, að brtt. sú, sem hv. þm. V.-Sk. og hv. 1. þm. Eyf. bera fram á þskj. 90, um það, að prófkosning innan héraðs skuli skera úr, hver vera skuli í kjöri fyrir ákveðinn flokk innan sama kjördæmis, sé nóg til þess að eyðileggja þetta voðavald, sem sumir kalla Reykjavíkurklíku.

Viðvíkjandi brtt. við 117. gr. get ég sagt það, að það er rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að það var hann, sem kom þessari leiðréttingu inn í l., svo að hann hefir fulla ástæðu til að láta borginmannlega. Það er og öldungis rétt, að brtt. hans er einungis miðuð við þann hluta gr., sem þurfti að breyta, svo að ákúrur hv. þm. N.-Ísf. í garð hans hafa ekki við rök að styðjast.

Um brtt. hv. þm. N.-Ísf. get ég sagt það, að ég er því fylgjandi, að kjördagur sé ekki fyrr en 1. sunnudag í júlí. Er þá tryggt, að gott sé til kjörsóknar í sveitum og að hægt sé að ferðast í bílnum, þar sem svo hagar til. Og þó að segja megi, að í Rvík fari þá fjöldi verkafólks úr bænum, þá er hægt fyrir flokkana að bæta úr því með því að láta kjósendur sína neyta kosningarréttar áður.

Ég get ekki verið hv. þm. N.-Ísf. sammála um það, að stjskr. tryggi heimild til þess að hafa óraðaðan landslista, skipaðan öðrum en frambjóðendum. Orðalag stjskr. er þann veg, að að minnsta kosti annaðhvert sæti tíu efstu manna á landslista skuli skipað frambjóðendum úr kjördæmum utan Rvíkur. Þetta gefur tilefni til að álykta, að hin sætin skipi frambjóðendur úr Rvík. En hv. þm. gefur í skyn, að svo hafi verið um samið milli stjórnmálaflokkanna á síðasta þingi, að heimilt sé að láta aðra en frambjóðendur eiga sæti á landslista. Ég er þessu ekki nægilega kunnugur, þar sem ég hefi eigi átt sæti á þingi fyrr. En ég beygi mig auðvitað fyrir samningi, sem kynni að hafa farið fram um þetta, þar sem ég teldi ódrengilegt að rjúfa hann nú.