29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (1410)

79. mál, síldarbræðslustöð Útvegsbanka Íslands hf á Öndundarfirði

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. G.-K. talaði hér um stefnu Sjálfstfl. í sambandi við þetta mál. Ég verð fyrir mitt leyti að lýsa því yfir, að þó ég kannist við, að það sé stefna Sjálfstfl., að ríkið blandi sér ekki inn í atvinnurekstur, þar sem það annars er vel afstyranlegt, þá fann ég ekki ástæðu til, eftir því sem atvik liggja til í þessu máli, að gera ágreining í sjútvn. Um þá till., sem meiri hl. hennar fellst á að leggja hér fyrir d.

Það er nú einu sinni svo, að ríkið starfrækir aðalsíldarverksmiðju landsins. Og á síðasta þingi var stigið það spor, að kaupa til viðbótar verksmiðju, sem byggð var af öðrum, hina svokölluðu dr. Pauls verksmiðju. Var það gert með samþykki a. m. k. margra sjálfstæðismanna, þó e. t. v. hafi ekki verið gerð sérstök flokkssamþykkt um það. Nú er til umr. að stíga annað mjög hliðstætt spor, og liggur málið þannig fyrir, eins og hv. frsm. lýsti, að bankinn, sem kallaður er eigandi Sólbakkaverksmiðjunnar, vill freista þess. hvort ríkið, sem hefir þessi mál í höfuðatriðum í sínum höndum, vill ekki fá umráð yfir þessari verksmiðju einnig. Og þegar þess er gætt, að lítið þarf út af að bera til þess, að þeir, sem hingað til hafa tekið verksmiðjuna á leigu, kæri sig ekki um það lengur, eða dragi svo lengi að segja til þess, að bagalegt sé fyrir bankann og e. t. v. útgerðarmenn líka, sem vilja gera út á síld, en skortir sölumöguleika, þá virðist heppilegt, að Sólbakkaverksmiðjan komist inn í það kerfi, sem er að myndast á þessu sviði. Því eins og við vitum er talað um, að ríkið bæti við sig fleiri bræðslustöðvum, jafnvel láti reisa nýja verksmiðju við Húnaflóa. Þá er hægra fyrir yfirstjórn síldarverksmiðja ríkisins að taka afstöðu til okkar útgerðarmannanna í tíma, þegar við á vorin sendum umsóknir um að fá að komast í viðskipti við verksmiðjurnar. Formaður stjórnar síldarbræðslustöðvar ríkisins skýrði svo frá á sjútvn. fundi, þó ekki væri í sambandi við þetta mál, að síðastl. sumar hefði hann orðið að vísa á bug fjölda mörgum umsóknum. Þó aldrei nema möguleikar séu fundnir fyrir því, að Sólbakkaverksmiðjan verði ávallt rekin án afskipta ríkisins, þá álít ég samt sem áður, — ég tek það fram eftir atvikum, hvað sem annars má segja frá stefnusjónarmiði —, að úr því ríkið er komið út á þessat braut, þá sé að öllu leyti heppilegra, að þessi verksmiðja komist inn í það verksmiðjukerfi, sem ríkið hefir umsjón með.

Hv. þm. G.-K. var að tala um, að þessa röksemdafærslu mætti færa yfir á önnur svið, t. d. togaraútgerðina. En þetta er alls ekki sambærilegt, því þar liggja ekki fyrir sömu atvik og í þessu máli. Ríkið hefir ekki ennþá stigið út á þá braut, að taka stórlán til togaraútgerðar, og ríkið hefir ekki með höndum stærstu togaraútgerð landsins. En ríkið hefir tekið stórlán til þess að greiða fyrir síldarútgerðinni á þann hátt, sem allir vita, og ríkið rekur þegar stærstu síldarbræðslustöðina. Svo allt þetta tal er ekki annað en „teoriur“. Það getur verið rétt í „teoriunni“ að vísu, en í „praksís“ er allt öðru máli að gegna, ef tekið er tillit til þess, hvernig sakir standa.

Á undanförnum sumrum hefir ekki þótt svo mjög álitlegt að reka síldarbræðslustöðvar, t. d. sérstaklega á Siglufirði. Hefir margt borið til, ekki einasta það, að lýsið hefir verið í lágu verði og útlitið slæmt, heldur líka allskonar baldni þess fólks, sem þar byggir staðinn og hefir gert atvinnureksturinn ótryggan. En þrátt fyrir það hefir þó verið horfið að því ráði að reka þessa verksmiðju á Siglufirði með tilliti til útgerðarinnar. Maður getur vel hugsað sér, að slíkt og þvílíkt gæti komið fyrir að því er snertir verksmiðjuna, er hér um ræðir, að til atvinnu þeirra, sem útgerð stunda, yrði að taka meira tillit af hálfu ríkisins heldur en af hálfu einhvers einstaklings, sem vildi leigja verksmiðjuna, ef vel horfir við, en annars ekki. það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess af neinum einstaklingi, að hann leggi út í slíkan atvinnurekstur, nema allar líkur bendi til, að hann sleppi skaðlaus. Ég segi, að það geti legið þannig fyrir, að það verði tryggara fyrir atvinnu þeirra manna, sem stunda útgerð, að Sólbakkaverksmiðjan tilheyri síldarbræslu ríkisins, heldur en að hún og rekstur hennar sé háður duttlungum eða ákvörðunum Útvegsbankans eða einhvers, sem ef til vill væri til með að taka verksmiðjuna á leigu. Þess vegna hefi ég hallazt að því að gefa stj. þá heimild, sem hér er farið fram á. Það er ekki stærra spor stigið af hálfu meiri hl. n. en það, að gefa stj. heimild til að semja við bankann um kaup á verksmiðjunni eða leigu. Það er alls ekki bundið við að semja um kaup; það er jafnheimilt að semja um leigu. Slíkt mætti því reyna eitt útgerðartímabil. Ég sé því ekki, að nokkur hafi verulega ástæðu til að leggjast mjög á móti slíkri heimild.