29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (1417)

79. mál, síldarbræðslustöð Útvegsbanka Íslands hf á Öndundarfirði

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að svara mörgu þessari ræðu, en þar sem hv. þm. (G.-K. segir, að tryggara se, að verksmiðjan sé rekin í sjálfseign en í ríkiseign, þá er það algerlega rangt. Það er þvert á móti; það er miklu meiri óvissa um rekstur hennar í sjálfseign. (ÓTh: Hver veit um það?). Ég veit um það, og bankastjórn Útvegsbankans veit um það. (ÓTh: Ég fullvissa hæstv. ráðh. um, að hann fær mig ekki til að trúa því, að Jón Baldvinsson geti ekki látið reksturinn falla niður). Bankinn hefir tekið þá stefnu upp, að hann vill ekki reka þetta atvinnufyrirtæki, og það er holl stefna, að vilja heldur losna við það, með því að fa það í hendur ríkinu eða einstaklingum. En ef það hinsvegar væri tryggt, að bankinn ræki verksmiðjuna, þá væri sjálfsagt að fallast á þessar röksemdir. En nú er ekki því að fagna. Ég get sagt hv. þm. það, að ekki eingöngu bankinn, heldur allir verkamennirnir, sem vinna við þessa verksmiðju þar vestra, hafa á hverju einasta sumri verið í óvissu um það, hvort verksmiðjan verði rekin eða ekki. Það er ekki gaman fyrir heilt þorp að vera í hvert einasta skipti í þessari hræðilegu óvissu um, hvort þessi atvinna, sem tilvera alls fólksins og staðarins þar byggist á, bregzt eða ekki. Þau skilyrði eru þreytandi, enda auðskilið, þegar öll afkoma byggðarinnar er í húfi. Þegar bæði eigandi og starfsmenn telja, að til tvísýnu horfi, þarf ég sem þm. ekki að efast um, að svo sé. Það er heldur ekki útlit fyrir, að nokkurt öryggi fáist í þessu, óvissan helzt og gerir öllum erfitt fyrir. Um heimildina er það að segja, að hún verður notuð þannig, að seð verður fyrir því, að öruggt verði um rekstur verksmiðjunnar; að öðru leyti heyrir hún ekki undir mig eingöngu, heldur og hina ráðh.

Bezta tilhögunin er sú, að hlutfall sé látið haldast á góðum og vondum tímum, og mönnum sé opið að leita til ríkisins um aðstoð. Hv. þm. segir, að hér eigi að byggja á einstaklingum. En ég verð að vekja athygli hans á því, að það eru til fleiri einstaklingar en útgerðarmenn. Það er líka hagur og heill almennings, sem þarf að sjá borgið sem bezt. Það er engin tilviljun, hvernig ástatt er um síldarbræðsluverksmiðjurnar nú á tímum: Það liggur í eðli skipulagsins, sem nú er. (ÓTh: Það mundi breytast, ef sjálfstæðismenn kæmust til valda). Þetta er rangt. Ég efast um það, að sjálfstæðismenn mundu, þó að þeir kæmust í meiri hl., rífa niður það, sem þeir og aðrir hafa byggt upp. Það er líka ósambærilegt, sem hv. þm. sagði um útgerð ríkis og verksmiðjurekstur. Það er allt annað að gera út motorbáta eða að vinna úr hráefni því, sem bátarnir hafa fært á land. Það álít ég líka, að sé miklu heppilegra, að ríkið reki þá iðju, að vinna úr hráefninu, en hitt er betur fallið til einstaklingsrekstrar, að ausa fiskinum úr sjónum. Þessi iðja, sem er einna næst stóriðju, er mjög vel fallin til ríkisrekstrar, enda veit ég ekki til þess, að nokkur einstaklingur hafi sett slíkt fyrirtæki á stofn til þess að reka það ásamt stórum skipaflota. Þess vegna styð ég þetta og þá stefnu þingsins, að ríkið bæti aðstöðu smáútgerðarmanna og rétti hlut þeirra gagnvart stóriðjunni.