07.12.1933
Sameinað þing: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í D-deild Alþingistíðinda. (1454)

57. mál, varalögregla

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég verð að játa, að ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls um þessa ólánstill., sem mér finnst vera eitt stórt hneyksli og mælt hefir verið fyrir á hinn ósæmilegasta hátt af flutningsmönnum hennar. Ég lít svo á, að það hafi verið öllum þingheimi ósamboðið að sitja undir þessu snakki hv. flm., og langt fyrir neðan virðingu Alþingis að eyða svo miklum tíma í orðaskvaldur um þessa till., eins og gert hefir verið að tilstuðlan þessara hv. herra.

En tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er það, að hv. 2. þm. Reykv. fór algerlega með rangt mál í ræðu sinni að því er snertir tvö atriði, sem ég hefi alveg sérstaka aðstöðu til að leiðrétta og veit fullkomlega skil á. Og í því sambandi skal ég taka það fram, að ég get fyllilega staðfest það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um viðskipti ríkisstj. og bæjarstj. Rvíkur um fjárframlög til atvinnubótavinnunnar hér í bænum haustið 1932. Að vísu ætti það ekki að þurfa að koma þessu máli mikið við. En það hefir nú verið dregið hér inn í umr. til þess að þyrla upp ryki og til þess að sócíalistar hefðu enn meira svigrúm til að skattyrðast við þingmenn út af þessari hneykslistill. sinni. Hv. 2. þm. Reykv. er að mestu leyti ókunnugur því, sem fram fór á milli bæjarstj. og ríkisstj. í þessu máli. Hann hefir ekki verið í bæjarstj. undanfarin ár, en kom á þennan margnefnda bæjarstj.fund 9. nóv. í fyrra sem aðskotadýr, og hefir ekki skipt sér af málefnum bæjarins að öðru leyti. Hann er því miklu minna kunnugur en við, sem sitjum á bæjarstjórnarfundum einu sinni í hverjum 1/2 mánuði og stundum vikulega.

Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að bæjarstj. hafði þrásinnis farið fram á það við ríkisstj. að fá meira fé til atvinnubótavinnunnar en kostur var á fyrir 9. nóv. í fyrra, en stj. hafði neitað því. Þó hafði hún í eitt skipti gefið kost á 50 þús. kr. framlagi, sem atti að dragast frá þeirri upphæð, sem áætluð var til atvinnubótavinnu í fjárl. 1933. En hvort meira fé fengist á þann hátt, kom vitanlega ekki til greina, af því að bæjarstj. áleit ekki rétt að grípa til þess fjár fyrirfram. Og þegar hæstv. forsrh. ber það fyrir sig í þessu máli, að meiri hl. bæjarstj. hafi ekki farið fram á það við ríkisstj. að fá meira fé til atvinnubótavinnunnar, þá hlýtur hann að meina það, að bæjarstj. hafi ekki kært sig um að nota meira af því fé á árinu 1932, sem tilheyrði fjárframlagi ársins 1933; hún vildi ekki eyða meiru af því fyrir áramót.

Hitt atriðið í ræðu hv. 2. þm. Reykv., er ekki eins þýðingarmikið, þó ég telji rétt einnig að leiðrétta það. Hv. þm. hélt því fram, að skríllinn, sem sótti að bæjarstj. þennan dag — 9. nóv.— hefði verið kyrrlatur og ekki sýnt af sér óspektir eða ætlað að hafa í frammi neitt ofbeldi, fyrr en undir ræðu Jakobs Möllers á fundinum, en þetta er algerlega rangt með farið. Mér er nær að halda, að hv. 2. þm. Reykv. og aðrir foringjar sócíalista hafi vitað nokkrum dögum fyrirfram, hvað til stóð. Um 7. nóv. voru hálfbræður þeirra, kommúnistarnir, í æstara skapi en venjulega, á 15 ára afmæli byltingarinnar í Rússlandi. Um þetta leyti eru hátíðisdagar kommúnista í öllum löndum á hverju ári, og einnig hér á landi. Um þetta leyti árs streymir líka hingað til bæjarins sá lýður, sem ekki hefir að neinu vissu starfi að ganga, og á ekkert erindi hingað nema að rápa um göturnar með ópum og óhljóðum. Og þá vildi líka svo einkennilega til, að sömu dagana voru þessir atburðir að gerast í bæjarstj., sem áður hefir verið frá skýrt. Þessi lýður, sem hingað ranglar, í stað þess að gegna ærlegum störfum úti á landi, er til alls búinn þegar foringjar sócíalista og kommúnista hér í bænum vilja svo vera játa. Og þeim mun hafa þótt vel til fallið og hentugt að gera aðsúg að bæjarstj. Rvíkur einhvern þessara daga. Þess vegna er það áreiðanlegt, að skríllinn var þarna saman kominn 9. nóv. í því skyni að trufla starfsfrið bæjarstj. og beita ofbeldi. Og þegar foringjar sócíalista, sem þykjast vera svo rólegir borgarar, láta líta svo út, sem þessar óeirðir hafi komið þeim að óvörum þennan dag, þá held ég, að þeir segi það á móti betri vitund.

Ég veit ekki, hvort óeirðarseggirnir fremja annað eins upphlaup aftur hér í bænum; mér þykir það fremur óliklegt. Sennilega eru þeir ekki undirbúnir til þess, enda get ég ekki séð, að þeir hafi neina menn til þess að taka völdin í bænum eða í þjóðfélaginu með byltingu. Ég held, að þeir sjái það sjálfir, að þeim er þetta ofvaxið. Það þarf ekki annað en að virða fyrir sér þennan lýð, til þess að sannfærast um, að þó foringjarnir hafi byltingaraform í huga, þá eru þeir ekki á neinn hátt færir um að framfylgja þeim.

En ekkert af þessu má þó nota sem rök gegn því, að ríkisvaldið tryggi það sem bezt, að núv. þjóðskipulag geti haldizt óraskað og að lýðræðinu sé borgið hvað sem í skerst, þannig að allt geti farið fram með friði, eins og lögin ætlast til.

Þess vegna er sú þáltill., sem hér liggur fyrir, reginhneyksli frá upphafi. ekki aðeins af því, hvernig hún er í sjálfu sér að efni til, heldur einnig fyrir hitt, að hún er flutt af leikaraskap og hv. flm. vita, að hún getur ekki orðið samþ. Nei, þessi þáltill. er ekki hæf til meðferðar í sölum Alþ.

Á 12. fundi í Sþ., 8. des., var enn fram haldið einni umr. um till.