08.12.1933
Sameinað þing: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í D-deild Alþingistíðinda. (1477)

84. mál, áfengismálið

Vilmundur Jónsson:

Ég mun fara að dæmi hv. 1. flm. þessarar till. að ræða ekki svo mjög áfengismálið sjálft, svo sem það, hvort landsmenn væru betur farnir, ef hér á landi væri bann eða ekki bann, eða hvernig ráða eigi fram úr þeim vandræðaógöngum, sem þetta mál er nú komið í. Ég mun að mestu leyti eða nær eingöngu ræða um það form, sem hér er stungið upp á að viðhafa við afgreiðslu málsins.

Því hefir verið haldið fram, að þjóðaratkvgr., sem allir vita, hvernig fór, leggi þær skilyrðislausu skyldur á herðar þingmanna að afgr. málið umsvifalaust í samræmi við úrslit atkvgr. þegar á þessu þingi. Því hefir meira að segja verið haldið fram, að í raun og veru væri bannið á sterkum drykkjum afnumið með þjóðaratkvgr. Þetta er hin mesta firra, og á það vil ég leggja sérstaka áherzlu. Núv. lög um hann gegn innflutningi sterkra drykkja verða ekki afnumin fremur en önnur l. á annan hátt en með meiri hl. atkv. í báðum deilum Alþ., eða tilskildum meiri hl. í sameinuðu þingi, eftir að hafa verið til meðferðar í báðum deildum Alþingis á venjulegan hátt. Þessi leið er torsótt, eins og vitað var, því að ég sé enga skynsamlega ástæðu til að gera ráð fyrir, að þingmenn hljóti að breyta sannfæringu sinni í þessu máli frekar en öðrum, þó að skoðun þeirra á því reynist ef til vill að vera í ósamræmi við skoðanir og vilja meiri hl. þjóðarinnar. Það má vera, að sumir hv. þm. séu svo innrættir, deigir og léttir fyrir, að þeir fylgi straumnum. Aðrir eru það ekki, en hvert á móti reiðubúnir til að fylgja sannfæringu sinni og taka afleiðingunum af því. Ef meiri hl. kjósenda þeirra þm. krefst þess, að bannlögin verði afnumin, hvað sem öllu öðru líður, hafa þeir ekki um annað að velja en að kjósa sér aðra fulltrúa á þing, sem vilja greiða atkv. með afnami bannlaganna. (JJós: Til hvers var þá verið að stofna til þjóðaratkvgr. um málið?). Ég kem að því síðar. Hér á landi eru engin ákvæði um það, að þjóðaratkvæði — referendum — skuli viðhaft og sett yfir þingið, nema um sambandslög Íslands og Danmerkur. Í öðrum löndum er það algengt, að almenningi sé veitt úrskurðarvald í ýmsum löggjafarmálum með alþjóðaratkvgr. En þar eru þá í gildi ákveðnar reglur um það, og munu vera yfirleitt á þá leið, að viðkomandi þing setur lög, sem síðan er skotið til kjósenda, og geta þeir þá með almennri atkvgr. annaðhvort numið þau úr gildi eða staðfest þau. Í vissum mikilsverðum málum er þá þjóðaratkvgr. einskonar yfirréttur yfir þingunum, en samvizka og skoðanafrelsi þingmanna á engan hátt skert. Hér á landi er þessu ekki þannig fyrir komið. Hér getur þjóðin ekki fellt úrskurði í löggjafarmálum öðruvísi en að þingið geri hað fyrir hennar hönd, eftir settum reglum. Við Alþfl.menn höfum stungið upp á því, að hér á landi yrðu settar reglur um það, að þjóðaratkvgr. skyldi fara fram í einstökum mikilsverðum málum. En ég veit ekki til, að sú uppástunga hafi hlotið stuðning frá neinum öðrum flokki. Og á meðan engar reglur eru hér til um slík málskot beint til kjósendanna, þá verður að framfylgja þeirri skipun, sem nú gildir um meðferð löggjafarmála.

Því hefir verið haldið fram af sumum, að þingmenn hafi afsalað sér úrskurðarvaldi um bannlögin með því að samþ., að þeim skyldi skotið undir úrskurð þjóðarinnar við almenna atkvgr. En þetta er á engan hátt rétt. Það var orðið gamalt deilumál á Alþingi sem utan þings, og hafði verulega þýðingu að fá úr því skorið, hvort bannlögin hefðu nú orðið fylgi meiri hl. þjóðarinnar eða ekki. Og tilgangur þeirrar ákvörðunar, sem gerð var á síðasta þingi, mun hafa verið sá, að fá úr þessu skorið með atkvgr. (JJós: Til hvers var þá málinu skotið undir atkv. þjóðarinnar, ef þeir þm., sem það gerðu, hafa vilja hennar að engu?). Ég greiddi að vísu ekki atkv. um þá ályktun á síðasta þingi, að skjóta málinu undir þjóðaratkv., en ég neita því algerlega, að ég hafi með því á nokkurn hátt játast til þess að greiða atkv. í þessu máli með tilliti til þeirrar niðurstöðu, sem þjóðaratkvgr. kynni að sýna. Meðan ég er á þinginu greiði ég atkv. eftir minni sannfæringu, en ekki annara. (TT: Og það er lýðræðismaður, sem talar). Já, einmitt! Það er mitt hlutverk í þessu máli, eins og í svo mörgum öðrum efnum, að tala máli minni hl., og þó að sá minni hl. sé óverulegri, ein 11 þús. á móti 15 þús., eins og kom fram við þessa atkvgr. Það er sem sé viðurkennt, að minni hl. eigi líka rétt, enda eitt þýðingarmesta atriði lýðræðisins. (ÓTh: Á þá minni hl. að ráða?). Ég hefi bent á það, að ef meiri hl. þjóðarinnar leggur áherzlu á að ráða úrslitum þessa máls á þann veg, sem atkvgr. bendir til, þá er ekkert því til hindrunar, annað en þær reglur, sem þjóðin sjálf hefir sett sér um löggjöfina. Er nú skammt að bíða almennra kosninga, og þá er meiri hl. innan handar að senda þá fulltrúa á þingið, sem eru fúsir til að framkvæma vilja hans í þessu máli, alveg eins og minni hl. væntanlega kýs þá þm., sem líklegir eru til að fara að hans óskum.

Ég vil einkum vekja athygli hv. andbanninga á því, sem þeir mega vel vera minnugir á, að til er réttur minni hl. í þessu máli ekki síður en í öðrum málum. Hafa þeir ekki svo sjaldan minnzt þess og notið þess sjálfir á umliðnum árum, stundum langt um of ! ég endurtek það, að þó að þjóðaratkvgr. sé skilin og túlkuð á þann hátt, sem ég hefi gert, þá er hún enganveginn gerð þýðingarlaus með því. Það er nú orðin staðreynd, sem aður var af mörgum talið ólíklegt, að skeð gæti að meiri hl. greiddra atkv. í landinu hefir látið í ljós, að hann vilji afnema það innflutningsbann á sterkum drykkjum, er hingað til hefir verið í gildi. Og þetta varð einmitt kunnugt á mjög heppilegum tíma, þar sem almennar alþingiskosningar standa fyrir dyrum. Við undirbúning kosninganna víðsvegar um land er því góð aðstaða til að ræða um áfengismálin á grundvelli þeirrar staðreyndar, sem þjóðaratkvgr. hefir leitt í ljós. Meiri hl. virðist ekki vilja láta gera neinn mun á því, hvaða áfengistegundir eru fluttar inn í landið, en hitt er aftur á móti með öllu ókunnugt, hvaða afstöðu meiri hl. kjósenda vill taka til meðferðar áfengu drykkjanna, hvaða ráðstafanir hann vill gera viðvíkjandi sölu þeirra eftir að búið er að leyfa innflutning á þeim. Þjóðaratkvgr. gefur enga hugmynd um það. En skoðanir þeirra manna, sem annars hafa fylgt meiri hl., geta verið mjög mismunandi um þetta atriði, og er alkunnugt, að svo er því varið. Þeir hafa engu um það svarað um leið og þeir felldu úrskurð sinn um, hvort hér ætti að vera algert bann á sterkum drykkjum eða ekki. hér hygg eg, að leiðir kjósenda skiptist aftur í þessu máli, og er engar ályktanir hægt að draga af þjóðaratkvgr. um það, hvernig meiri hl. kjósenda vill haga eftirleiðis reglum um meðferð og sölu áfengis í landinu. Vænti ég, að margir muni eiga þar samleið, sem skildu við atkvæðagreiðsluna. Það er algerlega óheimilt að væna meiri hl. kjósenda þess, þó að hann virðist vera meðmæltur innflutningi sterkra drykkja, að hann hafi viljað afgr. þetta mál á þann flausturslega, léttúðarfulla og ábyrgðarlausa hátt, sem vakir fyrir ýmsum hv. þm., flm. þessarar fráleitu þáltill.

Í þessu sambandi á vel við að minna á það, sem hv. frsm. einnig gat um, að bannmenn urðu á sínum tíma að bíða 6 –7 ár, frá því að samþ. hafði verið við þjóðaratkvgr. að banna innflutning áfengis, þangað til það kæmist í framkvæmd, og síðan var heim boðið það, að í raun og veru var því aldrei komið í framkvæmd, sem samþ. hafði verið, og þarf ekki að minna á annað en allar undanþágur laganna og margfalda misbrúkun þeirra. Ég hefi leyft mér að fleygja því, að ekki væri nema eðlilegt, að andbanningar fengju nú að bíða í þrjú ar eftir því, að innflutningsbanninu á sterkum drykkjum yrði af létt. Það er sízt ósanngjarnt, þegar borið er saman við þann langa tíma, sem bíða þurfti eftir framkvæmd bannlaganna. Og ég tel, að Alþingi færist rausnarlega við flm. þáltill. og miskunnarsamlega við þá, sem þyrstir eru, ef það gæfi vonir um, að málið yrði tekið til meðferðar eftir næstu kosningar.

Þá vil ég víkja sérstaklega að þeirri þáltill., sem fyrir liggur og flutt er af 9 þm. Þó ótrúlegt sé, þá eru flm. þessarar þáltill. öllu færri en þeir, sem aður hafa staðið að flutningi þessara brennivínsmála á Alþingi. Mig minnir, að á síðasta þingi væru 11 flm. að áfengislagafrv., sem þá kom fram, og ef til vill hafa þeir verið fleiri áður. En það, sem þáltill. fer fram á, er, að Alþingi feli stj. að nema úr gildi það, sem eftir er af bannlögunum, með bráðabirgðalögum um næstkomandi áramot, og að hún setji einnig bráðabirgðareglur um meðferð og sölu áfengis í landinu, í samræmi við þjóðaratkvgr. Hvaða reglur getur stj. sett í samræmi við atkvgr.? ég man ekki eftir, að þjóðin væri þar spurð eftir öðru en því, hvort leyfa ætti innflutning á sterkum drykkjum til landsins. En hvaða drykkir það eiga að vera, var látið ósagt. Ég geri samt ráð fyrir, að þar hafi verið átt við brennivín, whisky, konjak, romm, líköra allskonar, að ógleymdu absinti, sem þó er bann á í Frakklandi, og ýmsar fleiri sterkar eiturtegundir, sem fróðlegt væri fyrir okkur hina fáfróðari þm. að heyra nöfnin á.

Í sambandi við þjóðaratkvgr. var ekki minnzt á það, hvernig breyta ætti lögum og gildandi reglum um meðferð áfengis, ef bannið yrði afnumið. Þess vegna er það alveg tilefnislaust af flm. að benda stj. á að setja bráðabirgðareglur um meðferð áfengis í samræmi við atkvgr. Þar er einskis samræmis að leita. En það er einmitt höfuðatriðið við skipun löggjafar um þetta mál, að undirbúa hana vel og rækilega og íhuga gaumgæfilega, hverskonar reglur og takmarkanir er nauðsynlegt að setja, ef svo fer, að Alþ. ákveður einhverntíma að afnema innflutningsbannið á sterkum drykkjum. Sennilega má búast við, að það verði gert á næsta þingi, eftir þær kosningar, sem nú fara í hönd. Það er eftir að undirbúa þessar reglur, og um það efni hefir engin atkvgr. farið fram. Það er það aðalatriði, sem frambjóðendur eiga að ræða við kjósendur sína fyrir næstu kosningar. Og ef þeir frambjóðendur, sem eru andbanningar, vilja þá vera þess háttar lýðræðismenn, sem þeir telja sig vera nú, eiga þeir að hlera vandlega eftir vilja kjósenda um það, hverskonar reglur þeir óska, að verði lögfestar, og haga sér síðan eftir því. (JJós: Nei, refjast um og þverskallast, eins og hv. ræðumaður vill, að þm. geri nú).

Þessi þáltill. er flutt hér í Sþ. eftir að frv. um sama efni, afnám innflutningsbanns á sterkum drykkjum til landsins, hefir samkv. upplýsingum hv. flm., þm. Vestm., strandað í þinginu.

Það er upplýst af hv. flm., enda vitað, að frv. um sama efni, sem flutt var í hv. Ed., hafi ekki nægilegt þingfylgi til að geta náð afgreiðslu á lögformlegan hátt, og þá er gripið til þess fáránlega uppátækjs að leggja það til, að þingið varpi frá sér löggjafarstarfinu og afsali sér því í hendur stj. Það er þetta, sem margir þm. telja í mesta máta óþinglegt við flutning málsins, og er ég einn af þeim. Ákvæði stjskr. um útgáfu bráðabirgðal. eru stutt, skýr og ákveðin. Þau eru í 23. gr. og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar brýn nauðsyn ber til, getur konungur gefið út bráðabirgðalög milli þinga. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrana. Ætíð skulu þau lögð fyrir næsta Alþingi á eftir.“

Það, sem skiptir máli í þessu sambandi, er aðeins fyrsta setning greinarinnar: „Þegar brýn nauðsyn hér til, getur konungur gefið út bráðabirgðalög milli þinga“. M. ö. o., konungur má ekki gefa út bráðabirgðalög, þó að um venjulega nauðsyn sé að ræða — ekki nema hún sé sérstaklega brýn og aðkallandi. Hann má ekki gefa út bráðabirgðal. nema á milli þinga. Og að honum er það yfirleitt heimilað, mun eiga að skilja svo, að þegar ekki næst í Alþ., geti legið svo mikið við, að ekki verði hjá þessu komizt, enda var þá miðað við þinghald aðeins annaðhvert ár. Ef hægt er að ná til Alþingis, þá er þetta ekki heimilt, því að þá má ekki annað koma til mála en að Alþingi ráði sjálft fram úr vandanum. Þeim, sem sömdu stjskr., hefir eflaust alls ekki dottið í hug, að Alþingi færi nokkurntíma að afsala sér rétti til löggjafar, og sízt svona algerlega að óþörfu.

Ég vil nú til frekari áréttingar og með leyfi hæstv. forseta lofa hv. þm. að heyra, hvað einn hinn helzti stjórnlagafræðingur okkar, Lárus H. Bjarnason prófessor og fyrrv. hæstaréttardómari, segir um þetta í „Íslenzkri stjórnlagafræði“, sem kennd hefir verið við lagadeild haskólans. Hann talar um, að til útgáfu bráðabirgðal. þurfi eftir orðanna hljóðan í stjórnarskránni „brýna nauðsyn“, og ennfremur segir hann, að það liggi í orðum stjskr., „að óhjákvæmileg þörf verði að vera fyrir hendi, til þess að gefa megi út bráðabirgðalög“. Venjuleg þörf nægir ekki sem skilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðal.; hún verður að vera brýn. (BJ: Hvað er brýnni nauðsyn en að fullnægja þjóðarviljanum?). „Jafnvel nauðsyn nægir ekki“, segir stjórnlagafræðingurinn; „nauðsynin verður að vera brýn“. „Það þarf að vera hætta á ferðum, heill almennings eða eftir atvikum einstaklinga verður að vera í húfi að meira eða minna leyti, svo sem drepsótt, uppreisn o. s. frv.“. Hv. þm. taki vel eftir því: drepsótt eða uppreisn! Er það nú svo, að hv. flm. þáltill. óttist drepsótt af brennivínsleysi eða viti til þess, að einhverjir fylgismenn þeirra eða aðrir andbanningar ætli sér að gera uppreisn, ef brennivínið fæst ekki flutt inn í landið nú þegar, og að þess vegna telji þeir nauðsyn á bráðabirgðalögum? En þó að svo væri, nægir það samt ekki, að dómi stjórnlagafræðingsins. „Hætta af drepsótt eða uppreisn verður að vera svo bráð, eða heimta svo hraðar aðgerðir, að bráðabirgðalög séu einasti vegurinn til að bæta úr“. Hann segir ennfremur, að það geti stundum verið álitamál, hvort konungur eigi heldur að gera, að gefa út bráðabirgðalög eða kalla saman aukaþing, ef um brýna nauðsyn sé að ræða, og kemst að þeirri niðurstöðu, að undir venjulegum kringumstæðum eigi fremur að kalla saman aukaþing. „Sé mikið í húfi og beri þó ekki bráðar að en svo, að bíða megi aukaþings, mundi réttara að stefna þingi saman til aukafundar“, segir stjórnlagafræðingurinn.

Nú liggur næst að athuga, hvað af þessu er hér fyrir hendi og hversu mikið er í húfi. Hvaða hætta mundi nú stafa af því fyrir þjóðfélagið, ef það skyldi verða játið dragast í nokkra mánuði að afnema innflutningsbann á sterkum drykkjum? Eru líkur til þess, að það myndi leiða til drepsóttar eða uppreisnar í landinu? Ég ber nokkurt skyn á drepsóttarhættuna og neita henni, en hinsvegar skal ég ekkert taka af um, hvort brennivínsleysið kynni að leiða til uppreisnar, og beini því til hv. flm. þáltill. til frekari skýringar. Þeir ættu manna bezt að vita, til hvaða ráða verður gripið næst, ef ekki er þegar í stað farið að kröfum þeirra um að flytja brennivín og aðra sterka drykki inn í landið. En þó að við gerum ráð fyrir, að þessi uppreisnarhætta sé nú fyrir hendi, þá vantar samt annað höfuðskilyrði stjskr. fyrir því, að konungi sé heimilt að gefa út bráðabirgðalög, sem sé það, að ekki hafi náðst í hið reglulega löggjafarvald, Alþingi sjálft. Ekki hefir það verið örðugt að ná í Alþingi til þess að setja lög um þessi efni, því að það hefir nú átt setu nokkuð á annan mánuð. Og það hefir verið aðalverkefni þingsins að afgr. aðeins einn lagabálk — kosningalögin, sem einungis 1/6 þingsins, eða 6–7 þm., hafa að mestu leyti unnið að. Hinir þingmennirnir hafa flestir haft lettum hala að veifa á þessu þingi, og að því er mér skilst, flestir ef ekki allir flm. þáltill. Það skyldi þá vera, að sá síðasttaldi, sem hefir verið í stjskrn., hafi ekki getað gefið sér tíma til að sinna öðru. Hvernig er þá hægt að segja, að ekki hafi náðst til Alþingis til þess að setja lög um áfengismálið? Eða vilja hv. flm. bera það fyrir sig, að málið hafi gleymzt þangað til nú? Nei, því er alls ekki til að dreifa. Það var lagt fyrir hv. Ed. í frumvarpsformi snemma á þinginu, en ýmsir af hv. þm. í Ed. munu hafa verið tregir að fylgja því. Hv. flm. þessa máls gátu alveg eins flutt frv. í Nd. Hvers vegna gerðu þeir það ekki, fyrst þeir litu svo á, að það hefði gengið þar fram? Nei, ég hygg, að það verði aldrei sagt með sanni eða gert sennilegt, að ekki hafi verið hægt að ná til hins venjulega löggjafa — Alþingis. En hitt er annað mál, að núv. þing er þannig skipað, að málið hafði þar ekki nægilegt fylgi til þess að mögulegt væri að afgr. það á þinglegan hátt. Og þegar fylgismenn malsins komast að raun um það, þá verkar það svo hastarlega á ýmsa hv. þm., að þeir missa alla skapstillingu og virðingu fyrir þingræðinu og stjskr. og vilja blátt afram afhenda þingræðið og þar með lýðræðið í hendur stj., — og á það vil ég leggja mjög mikla áherzlu —, sem þó er aðeins bráðabirgðastjórn og yfirlýst, að hún hefir ekki fylgi meiri hl. þings að baki sér. M. ö. o., þingið á samkv. þessari þáltill. að afsala sér löggjafarvaldinu í hendur konungs. En öldum saman hefir verið það óþreytandi barátta fyrir því hér á landi eins og í öðrum löndum að ná löggjafarvaldinu úr höndum konunga og annara einvaldsherra og fá það í hendur fulltrúaþingum þjóðanna. Ég vil benda á það, að hér er um mjög hættulegt fordæmi að ræða, sem þessi þáltill. felur í sér, er getur leitt til þess, að þingræðið og þar með lýðræðið í þessu landi verði lítils virt og að engu haft. Og er eins og á stendur ekki leikur að slíku gerandi. Mundi það áreiðanlega verða munað síðar, og kynni þá að verða tekið upp, ef ekki er unnt að koma fram einu eða öðru máli, sem svo og svo mörgum þm. þykir miklu skipta. (ÓTh: Ef þjóðaratkvgr. hefir áður fallið málinu í vil). Það getur t. d. verið fyllilega jafngilt og þjóðaratkvæði, ef tveir eða fleiri þingflokkar, sem hafa að baki sér meiri hl. þjóðarinnar, eru samhuga, segjum í skattamálum. Nú koma þeir ekki fram vilja sínum í þinginu, og grípa þá til þess, með þetta fordæmi fyrir augum, ef þeir standa saman um stjórn landsins, að gefa út bráðabirgðaskattalög. (JJós: Þetta er ekki svo hættulegt; það kemur þing á eftir). Sumir álíta það ekki hættulegt, en aðrir telja það aftur á móti mjög varhugavert vopn gegn lýðræðinu í landinu. Og þegar einu sinni er búið að leiða þennan asna inn í þessar herbúðir, er ekki séð, hvar staðar nemur né til hvers hann verður notaður. (GSv: Telur hv. hm. ekki sérstakar ástæður fyrir hendi, þegar þjóðaratkvgr. hefir farið fram um málið og önnur stefnan fær öruggt meirihlutafylgi?). Jú, að nokkru leyti. En það má líka telja svo, að við hverjar almennar kosningar fari fram þjóðaratkvgr. og hún raunar margfalt þýðingarmeiri en sú, sem fór fram um bannmálið 21. okt. síðastl. Og þá kemur jafnan í ljós vilji meiri hl. þjóðarinnar í hinum stærri stefnumálum, sem þm. geta túlkað svo og svo og vitnað til. (BJ: Er það ekki Alþfl., sem vill hafa eina málstofu?). Alþfl. vill hafa eina málstofu, og þegar því fyrirkomulagi hefir verið komið á, munum við hlýða þeim starfsreglum. Við viljum yfirleitt hlýða öllum þeim reglum, sem settar eru á löglegan hátt. Það álitum við nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að lög og reglur fái haldizt í þessu landi.

Ég mun nú ekki hafa þessi orð miklu fleiri að sinni. Ég vil aðeins leggja hv. þm. það ríkt á hjarta að íhuga vel, hvað svo sem líður skoðun þeirra á áfengismálunum, hvort sem þeir eru bannmenn eða andbanningar, sem engu máli skiptir viðvíkjandi þeim atriðum, sem ég hefi dregið hér fram, hvort þeir álíta hollt fyrir þessa samkomu að gefa fordæmi fyrir þeim aðferðum, sem hér er farið fram á að nota til þess að afnema þessi sérstöku lög.

Í framhaldi af því, sem ég hefi nú sagt, vil ég leyfa mér að bera fram rökstudda dagskra. Ég vil taka það fram, að ég legg ekki neinn sérstakan skilning í orðalag hennar, fram yfir það, sem beinlínis kemur fram af orðanna hljóðan. Þó að menn greiði henni atkv., þýðir það ekki, að þeir með því taki neina sérstaka afstöðu til áfengismálsins, og raunar ekki heldur það, að þeir séu að sjálfsögðu samþykkir öllu því, sem ég hefi sagt á þessum röska hálftíma, sem ég hefi nú breytt þolinmæði hv. þm. Í dagskránni felst ekkert annað en það, sem í henni stendur skýrum stöfum, og ég ætla, að ekki sé annað en það, sem hver einasti þm. ekki einungis getur samþ., heldur er skyldugur sem þm. að samþykkja. Dagskráin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sameinað Alþingi telur, að því aðeins eigi stjórn að gefa út bráðabirgðalög, að mjög brýn nauðsyn kalli að og ekki náist til hins venjulega löggjafa, sjálfs Alþingis, en að því sé ekki til að dreifa, þar sem Alþingi hefir att þess nægan kost að afgr. þetta mál á venjulegan hátt með lagasetningu, enda um fordæmi að ræða, sem er hættulegt þingræðinu, að Alþingi afsali sér þannig löggjafarvaldinu í hendur stjórnarinnar — og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“