18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (1532)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Eins og hv. þd. getur seð af grg. till., er hér aðeins um endurveitingu að ræða. Með lögunum um sundhöll frá 1928 var þetta fé bundið við það, að verkinu væri lokið 1930. Verkið tafðist af ýmsum ástæðum, og nú mun hæstv. stjórn ófús á að greiða hina lögmæltu upphæð, nema með endurveitingu. 3 þessu stigi málsins mun ég ekki fara mörgum orðum um málið, en geta þó þess, að sundlaugarnar eru í afarslæmu ástandi og fjöldi fólks fer heldur út úr bænum til hinna nýju og fullkomnu sundlauga utan bæjarins, sem hefir verið komið upp á seinni árum, og af því er augljós sú þörf, sem knýr til þess, að bærinn eignist fullkomna laug. Reyndar var komið fyrir lítilli laug í Austurbæjarbarnaskólanum og einum íþróttakennara bæjarins, Aðalsteini Hallssyni, gefið leyfi til þess að kenna þar sund í sumar sem leið. Ég var nú reyndar lítið heima í sumar, en mér skilst, að þar hafi mörg hundruð manna lært sund á fáum vikum, mjög margt af því fólki var fullorðið, bæði karlar og konur. Þegar sundhöllin er fullger, verður því bætt úr brýnni þörf, og þá aukast og glæðast allir möguleikar sundíþróttarinnar. Ég vil að lokum leggja til, að málinu verði vísað til fjhn., og beini því til hv. n., að hún flyti fyrir afgreiðslu málsins eins og unnt er, til þess að hægt verði að hefjast handa sem fyrst.