18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (1537)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Ég ætla aðeins út af ummælum hv. 3. landsk. um það, að ekki lægi neitt fyrir um þetta mál af bæjarstj. hálfu, að vekja athygli á því, að nú er einmitt sá tími kominn, að bærinn fer að útbúa fjárhagsáætlun sína. Með tilliti til þessara góðu undirtekta hæstv. stj., geri ég ráð fyrir, að bæjarstj. muni kosta kapps um að finna þessari nauðsynlegu viðbót stað á fjárhagsáætluninni. En verði hinsvegar endurveitingin ekki veitt, þá er það alveg undir vilja hæstv. stj. komið, hvort nokkurntíma tekst að ljúka verkinu til fulls. Ég geri ekki ráð fyrir, að bæjarstj. muni slá þessu á dreif, en hinsvegar byst ég við, að hún muni ha frekar telja sjálfsagt að leggja í að bæta þann útisundstað, sem bærinn hefir nú, nefnilega sundlaugarnar, sem eru mjög ófullnægjandi, og sem miður góð rækt hefir verið lögð við síðan sundhallarmálið kom fyrst upp. Nú held ég, að þolinmæðin sé brostin, svo að ef ekki verður hægt að fullgera sundhöllina, því muni bæjarstj. snúa að hinum staðnum, enda er það miklu betur meðfæri bæjarsjóðs heldur en hitt yrði, að ljúka við sundhöllina án ríkisframlags. Það væri því mjög æskilegt, að við hinar fyrri ákvarðanir yrði staðið og að málinu verði ráðið til lykta nú þegar.