09.12.1933
Sameinað þing: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (1555)

84. mál, áfengismálið

Vilmundur Jónsson:

Ég lít að vísu svo a, að eðlilegt se, að áfengislöggjöfinni verði breytt í samræmi við þjóðaratkv. það, sem fallið hefir, og geri ég ráð fyrir, að þau verði úrslit málsins. Hinsvegar tel ég, að það geti aðeins orðið á þann hátt, að sá meiri hl. þjóðarinnar, sem er fylgjandi fullu afnámi bannsins, skipi þingið svo, að meiri hl. þess verði að þessu leyti í samræmi við meiri hl. þjóðarinnar. Með þjóðaratkv. er ekki hægt að hefta sannfæringar- og samvizkufrelsi þm. A. m. k. mótmæli ég því mjög ákveðið fyrir mitt leyti. Ég játa, að skoðanir mínar á þessu máli eru, því miður, aðeins í samræmi við skoðanir minni hl. þjóðarinnar, en það rýrir réttmæti þeirra að engu leyti. Ég skoða mig sem fulltrúa þess minni hl. og mun, þegar þar að kemur, greiða atkv. samkv. því, ef það á fyrir mér að liggja að eiga þá atkv.rétt um málið. Fyrir því get ég ekki greitt atkv. dagskrártill. góðtemplarans, hv. 1. þm. Reykv., að með henni gerir hann lævíslega tilraun til að binda atkv. þm. fyrirfram í þessu máli og með fullu afnami bannsins, án tillits til þess, hver sannfæring þeirra er, um leið og hann leitast við að sundra þeim atkv., er komið gætu í veg fyrir þá smánarlegu og hættulegu afgeiðslu málsins, sem fyrirhuguð er með þáltill. — aðferð, sem þessum eina hv. þm. er samboðin, sá Mefistofeles sem hann er. Segi ég því nei.